Tröllstelpan
Einu sinni var Bjarni á ferðreisu um fjallveg; ekki er getið hvar það var. Þetta var um sumarskeið. En að því að nótt var og gott veður æir hann hestum sínum og leggst fyrir að sofa, því hann var orðinn syfjaður og þreyttur.
Þegar hann hefur sofið stundarkorn er kippt óþyrmilega í fæturnar á honum. Vaknar hann þá hastarlega og sezt upp. Sér hann þá rétt hjá sér tröllkonu. Ekki var hún mjög mikil; er hún þá tekin til rásar og hleypur þar eftir fjallinu sem klettabrún er fyrir, og ofan fyrir þá.
Fer nú Bjarni að taka hesta sína. Heyrir hann þá sagt undir hömrunum sem tröllkonan hljóp ofan fyrir, með mikillegri tröllaröddu: "Ég sagði það alténd að það var ekki fyrir þig, átta vetra gamla stelpuna, að glettast við drenginn hann Dóra."
GrafarféðÞað vissi Bjarni af kunnáttu sinni að peningar voru fólgnir í jörðu á Hrafnabjörgum í Dölum, en ekki gat hann með neinu móti komizt eftir hvar þeir voru grafnir, því sá sem hafði fólgið peningana og lá á þeim villti fyrir honum um staðinn. Kom hann oft að Hrafnabjörgum í þeim erindum því hann átti þá heima einhverstaðar í Dölunum, en fór alltaf jafnnær.
Kemur honum nú annað ráð í hug að reyna. Eitt gamlársdagskvöld tekur hann sig upp og fer suður Miðdali og þar yfir háls þann sem liggur milli Miðdala og Hörðudals. Klettar eru töluverðir upp af hlíðinni fyrir ofan bæinn á Hrafnabjörgum. Þar leggst Bjarni fram á brúnina upp undan bænum að vita hvert hann yrði einkis að vísari um peningana.
Baðstofa sneri þvert fyrir hlíðinni eins og víða er venja til dala, og gluggar upp að hlíðinni. Þar á bak við baðstofuna sér Bjarni að draugurinn er í mesta ákafa að rusla í peningunum og ausa þeim yfir höfuð sér eins og þeim er títt, en alltaf hefur hann augun á gluggunum að gæta að hvert enginn líti út.
Bjarni hafði áttarmaða stálspora á fótum og vænan broddstaf í hendi með stálbroddi. Rennir hann nú sér fótskriðu ofan hlíðina og verður draugurinn einkis var fyrr en Bjarni rekur stálbroddinn í rassinn á honum og segir: "Farðú til helvítis, mínir eru peningarnir."
Við það hverfur draugurinn og vitjaði ekki peninganna framar. Þar fekk Bjarni mikla peninga og einmitt fyrir þá keypti hann seinna Knör í Breiðuvík og bjó þar allan sinn búskap og ýmist kallaður Knarar-Bjarni eða Latínu-Bjarni því sagt er hann hafi kunnað hana.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - ágúst 2001