Egill hét maður sem bjó í Litla-Langadal á Skógarströnd. Guðrún hét kona hans; þau áttu tvö börn sem Egill og Dýrfinna hétu. Guðrún var Þorleifsdóttir; hún var lengi ekkja eftir mann sinn og bjó í Langadal.Það var almæli að oft yrði þar vart við álfa. Var þar hóll einn skammt frá túni og talinn álfabær, og víðar voru þeir staðir þar sem menn höfðu trú á að álfar byggi í.
Það er sögn manna að áður en Guðrún fór að búa þar hafi kaupamaður einn verið að slá þar á túninu, en húsfreyja var að raka þar skammt frá honum og lét vöggu með barni standa skammt frá sér. Kaupamaður sagði þá við konuna: "Betra er að þú gætir barnsins; sér þú ekki barnafjöldann sem er að leika sér kringum vögguna?"
Konan kvaðst engin börn sjá, en hljóp þó að vöggunni. Sagði kaupamaður þá að við það hrykkju þau öll á burt í hólinn.
En síðar var það þegar Guðrún bjó í Litla-Langadal að þar komu fjárrekstrarmenn undan Jökli sem oftar og báðust gistingar og húsa fyrir fé sitt. Var þeim vísað að fjárhúsi einu, en þess var enginn kostur að koma fénu inn í húsið og það þó féð væri húsvant, það hrökk hvað eftir annað frá dyrunum eins og það sæi þar eitthvað inni sem það hræddist.
Gekk þá einn þeirra inn í húsið og sá hann þar þá konu sem var að rugga barnsvöggu. Hann bað hana þá hóglega að víkja sér frá svo féð yrði látið inn. Svaraði hún því engu, en tók vögguna undir hendi sér. Sá hann þá að hliðveggurinn opnaðist svo hann sá út og fer hún þar út og hvarf honum, en heill var veggurinn þegar hann þreifaði um hann þar sem honum hafði sýnst opið.
Hann sagði síðan frá þessu og var hann álitinn óskreytinn og þókti mönnum Guðrún furða sig lítið á þessu.
Það var og vani hennar að láta sitt kerti í hvert hús af öllum bæjarhúsum hvert aðfangadagskvöld fyrir jól og gamlaárskvöld og jafnan eitt á felhellu. Byggði hún og inn og út með þessum orðum. "Veri þeir sem vera vilja og fari þeir sem fara vilja."
Þau kvöld lokaði hún bænum sjálf, en aldrei fyrir miðnætti. Trúðu því margir að þessar aðfarir hennar yrðu henni að búsæld og jafnan voru peningshöld hennar góð og betri kölluð en nágranna hennar.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - mars 2000