Einu sinni var kerling nokkur á Ísafirði. Hún sagði frá því að þegar hún var í föðurgarði höfðu foreldrar hennar pening sinn í seli. En svo var sagt að í hömrum nokkrum sem voru í kringum selið væri huldufólk því smalarnir höfðu oft orðið varir við það.Kerling þessi sagði að þegar hún hefði verið að smala í selinu hefði hún oft séð unglega stúlku, rjóða og fríða í andliti, með glóbjart slegið hár sem tók í beltisstað, dökkklædda með ljósleita léreftsvuntu, og rann með henni lítill rakki.
Í sautjándu eða átjándu viku sumars flutti fólkið sig að venju heim úr selinu. En svo hafði borið við í mörg ár að á bæ þeim sem foreldrar kerlingar þessarar bjuggu á, að nokkrum dögum eftir að komið var úr selinu hurfu kýrnar í burtu eina nótt og fundust ekki þó leitað væri, en komu sjálfar morguninn eftir. Var því kennt um að huldufólk mundi heilla þær til að nytka þær.
Svo bar við þetta sumar að nokkrum dögum eftir að kerling var komin heim úr selinu og hafði tekið við kúageymslu voru kýrnar horfnar þegar fara átti að mjólka um kveldið. Þegar kerling kom heim kúalaus fékk hún ákúrur hjá móður sinni fyrir að hún hefði ekki gætt betur að kúnum.
Kerlingu þykir þetta illt og fer á stað aftur að leita og leitar nú alstaðar sem henni dettur í hug og kemur fyrir ekki. Loks dettur henni í hug að leita þeirra til selsins ef ske kynni að þær hefðu farið þangað. Nú var komið fram á nótt þegar hún leggur á stað þangað, en mjög langt var til selsins og lá leiðin með sjó fram og voru háir klettar fyrir ofan.
Þegar hún er komin á móts við kletta þessa heyrir hún skruðning mikinn og hraðar hún sér þá mjög því hún varð ákaflega hrædd og þorir ekki að gá í kringum sig, en eftir því sem hún heldur betur áfram fara skruðningarnir vaxandi og verða um síðir svo miklir að hún stendur agndofa af hræðslu og gáir í kringum sig, en sá þó ekkert.
Detta henni þá í hug þrjú særingarvess sem móðir hennar hafði kennt henni og fer hún með þau hátt og snjallt. Veit hún þá ekki fyrri til en hún sér eldstykki stórt koma fram undan klettunum og hrökk það í ótal stykkjum fram á sjóinn.
Heldur kerling nú áfram til selsins og heyrir nú enga skruðninga meir. Þegar hún kemur í seltúnið heyrist henni hóað í selinu og var hún þá bæði reið og hrædd; kallar þá kerling upp og segir: "Hver dósinn hóar í seli móður minnar?"
Þá heyrist henni sagt í selinu: "Dáfögur mær er það."
Nú kemur hún heim að selinu og fer þar inn í fjósið og sér þar kýr þær er hún leitar að, bundnar á klafa. Kerling rekur þær út og leggur á stað heim og var fólkið þá komið á fætur. Varð móðir hennar henni fegin því hún var orðin hrædd um hana.
Var hún þá spurð að hvað hefði dvalið hana. En hún segir að það komi engum við og sagði hún ekki frá þessu fyrr en hún var orðin gömul.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - febrúar 2000