Á milli Finnbogastaða og Bæjar hér í Trékyllisvík og þó nokkru sunnar en Bær er hóll einn hér um bil hundrað faðmar ummáls og nokkuð hár; umhverfis hólinn eru mýrar. Hóll þessi heitir Kleppa og á þar að vera mikið fé í hólnum. Það er sagt að hóllinn heiti Kleppa eftir tröllskessu er Kleppa hét og hafði aðsetur sitt í hólnum og safnaði þangað fé miklu.Millum Finnhogastaða og Bæjar og fjallsins sem er spölkorn sunnanvert við þessa bæi eru mjög blautar mýrar svo varla er fært með hesta yfir þær, en norðanverðu við Finnbogastaði milli bæjarins og sjóar eru sléttar grundir mjög snöggvar og graslitlar. Ofan í hólinn sem áður er nefndur (Kleppu) eru smáholur hér og hvar.
Það er sagt að í fornöld hafi unglingar haft sér það til gamans að kasta steinum ofan í þessar smáholur á hólnum, en það vóru gluggar á híbýlum Kleppu kerlingar. Reiddist kerling þá svo mjög að hún klippti gras allt af grundunum fyrir neðan Finnbogastaði svo þar gat aldrei upp frá því sprottið gras til neinna muna. Svo fór hún upp í fjallið fyrir ofan Finnbogastaði og pissaði þvílíkt flóð ofan yfir mýrarnar að þær eru ávallt síðan svo blautar að mjög illt er að slá þær nema í þerrisumrum, en mjög eru þær grasgefnar.
Oft hafa menn ráðgjört að grafa í Kleppu til að ná þaðan fjármunum, en aldrei þorað það af ótta fyrir því að Kleppa kerling mundi þá að nýju gjöra vart við sig því nú hefur ekkert borið á henni langa lengi, en oft hefur þó sést bláleitur logi upp af þessum hól eins og þar sé fé í jörðu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - september 1999