LITLI  KLÁUS  OG  STÓRI  KLÁUS


Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar



Einu sinni bjuggu í þorpi nokkru tveir menn samnefndir. Báðir hétu Kláus, en annar þeirra átti fjóra hesta og hinn ekki nema einn. Til þess nú að greina þá í sundur, kölluðu menn þann, sem fjóra hestana átti, stóra Kláus, en hinn litla Kláus, sem átti ekki nema einn hestinn. Nú skulum við heyra, hvernig þeim farnaðist báðum, því þetta er sönn saga.

Liðlanga vikuna varð litli Kláus að plægja fyrir stóra Kláus og lána honum eina hestinn, sem hann átti; þar kom á móti, að stóri Kláus hjálpaði hinum með öllum sínum fjórum, en það var ekki nema einu sinni í viku, - á sunnudögunum. Það kynni nú að vera, að hann litli Kláus léti keyrið smella duglega yfir öllum fimm hestunum; það gat svo heitið, að þetta væru hans hestar á þeim eina degi. Sólin skein svo yndisfagurt, og allar klukkur í kirkjuturninum hringdu til messu. Fólkið var prúðbúið, og hver maður gekk með sálmabók undir hendinni í guðshús til að heyra prestinn prédika, og allir horfðu á litla Kláus, sem var að plægja með fimm hestum. Og hann varð þá svo hróðugur og ánægður, að hann smellti aftur með keyrinu og kallaði: "Hott, hott, allir mínir hestar!"

"Svona máttu ekki tala," sagði stóri Kláus, "Það er ekki nema einn hesturinn, sem þú átt."

En jafnharðan er einhver gekk aftur fram hjá á leið til kirkjunnar, þá mundi litli Kláus ekki eftir, að hann mátti ekki segja þetta, og kallaði: "Hott, hott, allir mínir hestar!"

"Já, nú ætla ég að biðja þig að hætta þessu," sagði stóri Kláus, "því ef þú segir þetta einu sinni enn, þá slæ ég hestinn þinn í ennið, svo að hann skal liggja dauður eftir."

"Svei mér þá ef ég skal segja það oftar", sagði litli Kláus. En þegar svo einhverjir gengu fram hjá og heilsuðu honum með því að kinka til hans kolli, þá varð hann svo ofurfeginn og fannst það eitthvað svo mannalegt, að hann hafði fimm hesta til að plægja með, og gerði þá smell með keyrinu og kallaði: "Hott, hott, allir mínir hestar!"

"Ég skal hotta á hestana þína," sagði stóri Kláus og tók tjóðurhnallinn og laust þennan eina hest, sem litli Kláus átti, svo mikið högg í ennið, að hann byltist til jarðar og var steindauður.

"Æ, nú á ég engan hest framar!", sagði litli Kláus og fór að gráta. Síðan fláði hann hestinn, tók hána og lét hana hanga úti, þangað til hún var vel vindþurrkuð. Síðan tróð hann henni í poka, kippti honum á bak sér og sneri á leið til borgarinnar til að selja þar hána.

Það var löng gönguleið sem hann átti fyrir höndum, og lá um skóg nokkurn mikinn og dimman, og nú gerði hræðilegt illviðri. Hann villtist alveg af leið, og áður en hann komst á rétta götu aftur, var orðið kvöldsett og lengra en svo til borgarinnar eða heim til hans aftur, að hann gæti komizt það áður en náttaði.

Rétt við þjóðgötuna stóð bóndagarður mikill; þar var stofuhús og útihlerar fyrir gluggum, og lagði út birtu innan frá að ofan til. "Hér get ég líklega fengið að vera," hugsaði litli Kláus og drap högg á dyr.

Bóndakonan lauk upp, en þegar hún heyrði, hvað hann vildi, þá sagði hún honum, að hann gæti farið sína leið, maðurinn sinn væri ekki heima og hún tæki ekki á móti gestkomendum.

"Nú, þá verð ég að liggja úti," sagði litli Kláus, og bóndakonan skellti dyrunum harkalega aftur beint framan í hann.

Rétt hjá stóð stóreflis heystakkur, en í sundinu milli hans og hússins hafði verið byggður dálítill skúr með flötu hálmþaki.

"Þarna uppi get ég legið," sagði litli Kláus, þegar hann sá þakið; "það er ágætt rúm. Líklega flýgur storkurinn ekki ofan til að bíta mig í fæturna." Uppi á þakinu stóð sem sé storkur, því hann átti þar hreiður.

Nú skreiddist litli Kláus upp á skúrinn, lagðist þar fyrir og hagræddi sér, svo að sem bezt færi um sig. Gluggahlerarnir luktu ekki fyrir að ofanverðu, og gat hann því séð beint inn í stofuna.

Þar var lagt á borð, og var á því vín og steik og fyrirtaks fiskréttur. Bóndakonan og djákninn sátu við borðið, en ekki nokkur maður annar, og hún hellti í glasið fyrir hann, og hann tók til sín af fiskinum, því fiskur þótti honum mata beztur.

"Æ, nú væri gaman að komast með í þetta góðgæti," sagði Kláus og teygði höfuðið allt inn að glugganum. En sú sælgætiskaka, sem hann sá framreidda á borðinu! Þvílíkt gildi! það mátti nú segja.

Nú heyrir hann hófdyn, og kemur einhver ríðandi eftir þjóðveginum að húsinu. Það var maðurinn húsfreyjunnar, bóndinn sjálfur, sem var að koma heim.

Bóndi þessi var mesti gæðamaður, en honum fylgdi sá undarlegi kvilli, að hann gat aldrei þolað að sjá djákna; sæi hann djákna, ætlaði hann hreint að ganga af göflunum. Það var líka þess vegna, sem djákninn hafði farið inn, til þess að bjóða konunni góðan daginn, að hann vissi, að bóndinn var ekki heima, og bar hin góða kona á borð fyrir hann allan þann ágætasta mat, sem hún átti í eigu sinni. Þegar þau nú heyrðu, að maðurinn kom, þá urðu þau svo logandi hrædd, og beiddi konan djáknann að skríða niður í stóra, tóma kistu, sem stóð úti í horni, og það gerði hann, því hún vissi, að manntetrið þoldi ekki að sjá djákna. Konan faldi í snatri allar þær ljómandi krásir, og vínið einnig, í bakstursofninum sínum, því hefði bóndinn séð það, þá mundi hann víst hafa spurt, hvað þess konar ætti að þýða.

"Æ!" sagði Kláus mæðilega uppi á skúrnum, þegar hann sá allan matinn hverfa.

"Er nokkur þarna uppi?" sagði bóndinn og gægðist upp fyrir sig til litla Kláusar; "því liggurðu þarna? Komdu heldur með mér inn í stofu."

Litli Kláus sagði honum eins og var, að hann hefði villzt af leið, og beiddi hann að lofa sér að vera þar um nóttina.

"Já, það er nú sjálfsagt," sagði bóndinn, "en fyrst verðum við að fá okkur eitthvað að borða."

Konan tók þeim báðum mjög vingjarnlega, breiddi dúk á langt borð og setti fyrir þá stórt fat fullt af graut. Bóndinn var svangur og át með góðri lyst, en Kláus gat ekki annað en verið að hugsa um steikina góðu, fiskinn og kökuna, sem hann vissi, að stóð inni í ofninum.

Pokann með hrosshánni í hafði hann látið undir borðið; hána hafði hann, svo sem fyrr er á vikið, ætlað að selja í borginni. Grauturinn gat alls ekki smakkazt honum; steig hann þá á pokann sinn, og skrjáfaði við það allhátt í þurri hrosshánni.

"Þei, þei!" sagði litli Kláus við pokann sinn, en steig óðara á hann aftur, svo að skrjáfaði enn hærra en áður.

"Hvað er það, sem þú hefur í pokanum þínum?" spurði bóndi.

"O, það er galdrakarl," sagði litli Kláus, "hann segir, að við eigum ekki að éta graut, því hann hefur galdrað allan ofninn fullan af steik og fiski og köku."

"Hvað ertu að segja?" mælti bóndi, opnaði í skyndi ofnhurðina og sá nú allan þann ágætismat, sem kona hans hafði falið, og trúði hann nú statt og stöðugt, að galdramaðurinn í pokanum hefði galdrað þetta til þeirra. Konan þorði ekki að segja neitt, heldur setti matinn orðalaust á borðið, og neyttu þeir nú báðir af fiskinum, steikinni og kökunni. Steig nú litli Kláus enn á poka sinn, svo skrjáfaði í hrosshánni.

"Hvað segir hann núna?" spurði bóndi.

"Hann segir," svaraði litli Kláus, "að hann hafi sömuleiðis galdrað til okkar þrjár flöskur af víni; þær standa líka inni í ofninum." Og nú varð konan líka að taka fram vínið, sem hún hafði falið, og drakk bóndinn og varð hinn hreifasti; svona galdrakarl eins og þann, sem hann litli Kláus hafði í pokanum, sagði hann, að sig stórlangaði til að eiga.

"Getur hann líka galdrað fram djöfulinn?" spurði bóndi. "Djöfsa þætti mér nú gaman að sjá, því nú liggur vel á mér."

"Já!" sagði litli Kláus, "galdrakarlinn minn getur allt það, sem ég bið hann um. Er það ekki satt kunningi?" bætti hann við og steig á pokann, svo að skrjáfaði. "Heyrirðu? hann segir já. En fjandinn er svo afskræmislega ljótur, það er betra að sjá hann ekki."

"O, ég er hvergi hræddur. Hvernig er hann þá útlits?"

"Alveg eins og djákni, þar skal enginn mun á milli sjá."

"Ú!" sagði bóndi; "þá var ekki á verra von, því það skuluð þér vita, að djákna þoli ég ekki að sjá, en nú má það standa á sama; úr því ég veit, að það er djöfullinn, þá get ég betur sætt mig við það. Nú er ég óbilugur, en hann má ekki koma of nærri mér."

"Nú skal ég spyrja galdrakarlinn minn," sagði litli Kláus, steig á pokann og lagði við eyrað.

"Hvað segir hann?"

"Hann segir, að þú getir farið til og lokið upp kistunni, sem stendur þarna úti í horni; þá munir þú sjá fjandann, hvernig hann húkir í kistunni, en þú verður að halda í lokið, svo hann sleppi ekki út."

"Viltu þá hjálpa mér að halda í það?" mælti bóndi og gekk að kistunni, sem konan hafði falið í djáknann. Kúrði djákninn þar lafhræddur undir lokinu.

Bóndinn lyfti því dálítið upp og gægðist undir það. Æpti hann þá upp yfir sig og hrökk til baka. "Jú, nú sá ég hann; hann er alveg eins í sjón og djákninn okkar. Það er hræðilegt!"

Ofan á þetta þurfti nú að drekka, og drukku þeir svo langt fram á nótt.

"Þú verður að selja mér þennan galdrakarl," sagði bóndinn, "þú getur sett upp á hann, hvað sem þú vilt; já, meira að segja, ég skal þegar í stað gefa þér eina skeppu af peningum fyrir hann."

"Nei, það get ég ekki," sagði litli Kláus, "gáðu að því, hvað mikið gagn ég get haft af þessum galdrakarli."

"Æ, mér er svo skrambi hugleikið að fá hann," sagði bóndinn og linnti ekki á bæninni.

"Jæja þá," sagði litli Kláus loksins, "fyrst þú hefur verið svo vænn að hýsa mig í nótt, þá ætla ég að gera það fyrir þig. Þú skalt fá galdrakarlinn fyrir eina skeppu af peningum, en ég vil hafa hana kúfmælda."

"Það skaltu fá," sagði bóndinn, "en kistuna þarna verðurðu að taka með þér, ég vil ekki hafa hana stundu lengur í mínum húsum. Það er ekki að vita, nema hann sitji í kistunni enn."

Litli Kláus lét bóndann fá pokann sinn með hrosshánni í og fékk eina skeppu af peningum í staðinn og hana kúfmælda. Bóndinn gaf honum í tilbót stórar hjólbörur til að aka burt peningunum og kistunni.

Hinu megin við skóginn var mikið og djúpt vatnsfall. Það beljaði fram með svo stríðu falli, að varla voru tiltök að synda móti straumnum; hafði nýlega verið gerð yfir það stór og stæðileg brú. Litli Kláus nam staðar á henni miðri og sagði upphátt, til þess að djákninn í kistunni skyldi heyra það:

"Nei, hvað á ég annars að vera að burðast með þessa bannsettu kistu? Hún er eins þung og hún væri full af grjóti. Ég verð dauðuppgefinn að aka henni. Ég ætla því að steypa henni út í ána; reki hana svo heim til mín, þá er það gott, og verði það ekki, þá stendur mér alveg á sama."

Nú tók hann kistuna með annarri hendi og lyfti henni dálítið, eins og hann ætlaði að varpa henni niður í straumiðuna.

"Æ, nei, gerðu það ekki," kallaði djákninn í kistunni, "lofaðu mér að komast út fyrst."

"Hú!" sagði litli Kláus og lét eins og sér yrði bilt við; "hann situr þá í henni enn. Það er þá eins gott, að ég fleygi henni nú þegar út í ána, svo að hann drukkni."

"Æ, nei, æ, nei!" sagði djákninn, "ég skal gefa þér eina skeppu af peningum, ef þú sleppir mér."

"Nú, þá er allt öðru máli að gegna," sagði litli Kláus og lauk upp kistunni. Djákninn skreið óðara upp úr henni, hratt henni tómri út í ána og gekk heim til sín. Fékk litli Kláus þar eina skeppu af peningum, og eina var hann búinn að fá áður hjá bóndanum. Hann hafði nú eignazt af peningum eins og komst á hjólbörurnar. "Sjáum við það, þann hest fékk ég dável borgaðan," sagði hann við sjálfan sig, þegar hann kom heim í stofuna sína og hvolfdi niður öllum peningunum í stóra hrúgu á gólfinu. "Mikil raun verður stóra Kláusi að því, þegar hann fréttir, hversu mikinn auð ég hef haft upp úr þessum eina hesti mínum, en ekki ætla ég samt að segja honum það með berum orðum."

Nú sendi hann dreng heim til stóra Kláusar til þess að fá mæliker að láni.

"Hvað skyldi hann ætla að gera við það? hugsaði stóri Kláus með sér og rauð tjöru á botninn, til þess að eitthvað tylldi við það af því, sem mælt yrði, og það varð líka, því þegar hann fékk mælikerið aftur, þá loddu eftir í því þrír nýir silfuráttskildingar.

"Hvað er þetta?" segir stóri Kláus, hleypur til litla Kláusar og segir: "Hvaðan hefurðu fengið alla þessa peninga?"

"O, það var fyrir hrosshúðina mína, ég seldi hana í gær."

"Það var, svei mér, vel borgað," segir stóri Kláus, hleypur heim, tekur öxi, dauðrotar alla hestana sína fjóra, birkir þá síðan og ekur svo með húðirnar inn í borgina.

"Húðir, húðir! Hver vill kaupa húðir?" kallaði hann í sífellu, er hann ók um strætin.

Allir skóarar og sútarar komu hlaupandi og spurðu hvað hann vildi hafa fyrir húðirnar.

"Eina skeppu af peningum fyrir hverja", sagði stóri Kláus.

"Ertu vitlaus?" sögðu þeir allir, "heldurðu að við höfum peninga svo skeppum skiptir?"

"Húðir, húðir! Hver vill kaupa húðir?" kallaði hann aftur, og öllum sem spurðu, hvað húðirnar kostuðu, svaraði hann: "Eina skeppu af peningum hver húð."

"Hann er að gera háð og narr að okkur," sögðu þeir allir, og skóararnir tóku lærólar sínar og sútararnir skinnsvunturnar sínar og fóru að lemja á stóra Kláusi.

"Húðir, húðir!" æptu þeir að honum og skældu sig framan í hann, "Já, við skulum fá þér húð, sem snýtir rauðu. Burt með hann úr borginni!" Og stóri Kláus varð að flýja eins og fætur toguðu og hafði aldrei fengið slíka barsmíð fyrr á ævi sinni.

"Nú, nú!" sagði hann, þegar heim kom, "þetta skal litli Kláus fá borgað; ég skal drepa hann."

Nú stóð svo á heima hjá litla Kláusi, að amma hans gamla var dáin. Hún hafði reyndar verið geðstirð og vond við hann, en samt tregaði hann hana mjög, tók hana andaða og lagði hana í sængina sína glóðvolga, ef svo mætti verða, að kerling lifnaði við aftur. Þar ætlaði hann að láta hana liggja alla nóttina, en sitja sjálfur úti í horni og sofa á stól, eins og hann hafði stundum gert áður.

Og sem hann situr þar um nóttina, þá er upp lokið dyrum, og inn kemur stóri Kláus með öxi sína. Honum var vel kunnugt, hvar rúm litla Kláusar stóð, og gekk hann beint að því og hjó í enni ömmu gömlu, því hann hélt að þar væri litli Kláus. "Búið er það," sagði hann, "ekki gabbar hann mig oftar." Og þar með fór hann heim aftur.

"Þetta er ljóti maðurinn, þetta er illmenni," sagði litli Kláus, "þarna ætlaði hann að drepa mig. Það var lán fyrir ömmu gömlu, að hún var dauð áður, annars hefði hann banað henni."

Nú færði hann ömmu gömlu í sparifötin hennar, fékk hest að láni hjá nábúa sínum og beitti hann fyrir vagninn. Síðan setti hann ömmu gömlu í baksætið og bjó svo um, að hún gæti ekki oltið út, þegar hann æki. Skokkuðu þau síðan af stað sem leið lá í gegnum skóginn, og um morguninn, í sólarupprás, voru þau komin að stóru gistihúsi. Þar lét litli Kláus staðar numið og fór inn til að fá sér hressingu.

Gestgjafinn var stórríkur maður, og þar til valmenni, en hann var nasbráður, eins og eldur og funi, þegar í hann fauk.

"Góðan daginn," sagði hann við litla Kláus, "snemma hefur þú farið í sparifötin þín í dag."

"Já," sagði litli Kláus, "ég er á leið til borgarinnar með henni ömmu minni gömlu, hún situr þarna úti á vagninum, ég fæ hana ekki til að koma með mér inn í stofu. Viltu ekki færa henni eitt staup mjaðar, en þú verður að tala hátt, því hún heyrir ekki vel."

"Ég skal minnast þess," sagði gestgjafinn og fór út með fullt staup mjaðar til ömmunnar dauðu, sem sat upprétt í vagninum.

"Hérna er fullt staup mjaðar frá syninum," sagði gestgjafinn, en konan dauða sagði ekki orð, heldur sat steinþegjandi.

"Heyrirðu ekki?" kallaði gestgjafinn eins hátt og hann gat, "hérna er fullt staup mjaðar frá syninum."

Og einu sinni enn kallaði hann, og enn einu sinni, en þegar kerling hreyfði sig alls ekki úr stað, þá varð hann reiður og grýtti staupinu beint framan í hana, svo að mjöðurinn rann niður um nefið, en hún valt aftur á bak, því hún hafði aðeins verið reist upp, en ekki bundin.

"Heyrðu maður!," kallaði litli Kláus, stökk fram úr dyrunum og greip fyrir kverkar gestgjafanum, "þarna hefurðu drepið hana ömmu mína. Líttu á, það er stórt gat á enninu."

"Æ, mikil ógæfa!" æpti gestgjafinn og skellti saman höndunum, "allt þetta kemur af fljótlyndi mínu. Elsku litli Kláus minn! ég skal gefa þér eina skeppu af peningum og láta jarða hana ömmu þína, eins og hún væri mín eigin amma, en þegiðu fyrir alla muni, því annars höggva þeir af mér höfuðið, - og það er svo viðbjóðslegt."

Með þessum hætti fékk litli Kláus eina skeppu af peningum, og gestgjafinn jarðaði ömmu gömlu, eins og hún hefði verið amma hans sjálfs.

Þegar nú litli Kláus var kominn heim með þessa miklu peninga, þá sendi hann drenginn sinn yfrum til stóra Kláusar til þess að biðja hann að ljá sér mæliker.

"Hvernig segir fyrir þessu?" mælti stóri Kláus, "hef ég þá ekki drepið hann? Að því verð ég að gá sjálfur," og fór hann svo með mælikerið til litla Kláusar.

"Nei - hvar hefurðu fengið alla þessa peninga?" sagði hann og glennti upp augun, þegar hann sá allan þennan auð, sem við hafði bæzt.

"Það var hún amma mín, en ekki ég, sem þú drapst," sagði litli Kláus. "Ég hef nú selt hana og fengið fyrir hana eina skeppu af peningum."

"Það var sannarlega vel borgað," sagði stóri Kláus og flýtti sér heim, tók öxi og drap ömmu sína gömlu þegar í stað, lét hana svo upp í vagn og ók til borgarinnar, þar sem lyfsalinn bjó, og spurði, hvort hann vildi kaupa dauða mannskepnu.

"Nú, hvaða mannskepnu? og hvar hefurðu fengið hana?" spurði lyfsalinn.

"Það er hún amma mín," sagði stóri Kláus, "ég drap hana til þess að fá eina skeppu af peningum."

"Guð varðveiti okkur," sagði lyfsalinn, "þú mistalar þig, segðu ekki annað eins og þetta, svo þú vinnir þér ekki til ólífis." Og nú sagði hann honum eins og satt var, hvílíkt illvirki hann hefði framið og hvílíkt illmenni hann væri, og hlyti hann því að sæta refsingu. Þá varð stóri Kláus svo skelkaður, að hann stökk beint úr lyfjabúðinni upp í vagn sinn, sló upp á hestana og ók heim í skyndi, en lyfsalinn og allir aðrir hugðu hann vera brjálaðan og lofuðu honum að aka hvert sem hann vildi.

"Þetta skaltu fá borgað," sagði stóri Kláus, þegar hann var kominn á þjóðbrautina, "já, þetta skaltu fá borgað, litli Kláus!" - Og jafnskjótt sem hann var kominn heim til sín, tók hann stærsta pokann, sem hann gat fundið, fór yfrum til Kláusar og mælti: "Nú hefurðu gabbað mig í annað sinn; fyrst drap ég hestana mína og þar næst ömmu mína. Það á ég allt upp á þig, en nú skaltu ekki gabba mig oftar." Að svo mæltu þreif hann yfir um Kláus, tróð honum í pokann sinn, kippti honum á bak sér og sagði: "Nú fer ég með þig og drekki þér."

Það var langt nokkuð, sem hann þurfti að ganga áður en til árinnar kæmi, og síður en svo, að litli Kláus væri létt byrði. Leiðin lá fram hjá kirkjunni; var þar inni leikið á orgel og fagur safnaðarsöngur. Setti þá stóri Kláus niður pokann sinn, með litla Kláusi, rétt við kirkjudyrnar, og hugsaði með sér, að ekki væri úr vegi að fara inn og hlýða fyrst á einn sálm, áður en hann héldi lengra áfram; ekki væri hætt við því, að litli Kláus slyppi út, og allir væru í kirkju. Fór hann því inn í kirkjuna.

"Æ,Æ!" sagði litli Kláus stynjandi í pokanum, en hvernig sem hann sneri sér og bylti sér til í honum, þá gat hann ekki leyst bandið. En í sama bili kom gamall kúasmali með snjóhvítt hár og stórt gönguprik í hendi; hann rak á undan sér heilan rekstur kúa og nauta, og varð pokinn fyrir þeim og valt um.

"Æ, æ!" sagði litli Kláus, "ég er enn svo ungur og á nú svo fljótt að fara í himnaríki."

"Og ég veslingur," sagði kúasmalinn, "ég er orðinn svona gamall og fæ ekki að komast þangað."

"Leystu frá pokanum," kallaði litli Kláus, "skríddu í hann í minn stað, þá kemstu óðara í himnaríki."

"Já, það vil ég allshugar feginn," sagði kúasmalinn og leysti frá fyrir litla Kláusi, og stökk hann þá óðara upp úr pokanum.

"Vilt þú nú gæta nautgripanna?" sagði gamli maðurinn og skreið í pokann, en litli Kláus batt fyrir og fór svo leiðar sinnar með allar kýrnar og nautin.

Litlu síðar kemur stóri Kláus út úr kirkjunni og tekur aftur pokann á bak sér; finnst honum reyndar, að hann hafi létzt mikið, því kúasmalinn var allt að því helmingi léttari en litli Kláus. "En hvað hann er orðinn léttur að bera! já, það mun nú koma af því, að ég hlýddi á sálminn." Fór hann svo til árinnar, en hún var bæði mikil og djúp, og fleygði hann út í hana pokanum með gamla kúasmalanum í og kallaði á eftir honum, því hann vissi ekki betur en að það væri litli Kláus: "Hana! búið er það, ekki skalt þú gabba mig oftar."

Eftir það gekk hann heimleiðis, en þegar þangað kom, sem vegirnir skiptust, þá mætti hann litla Kláusi með allan nautgripareksturinn.

"Hvað er þetta?" sagði stóri Kláus, "drekkti ég þér ekki?"

"Jú!", sagði litli Kláus, "þú fleygðir mér út í ána fyrir hálfri stundu."

"En hvar hefurðu fengið allt þetta ljómandi fallega nautfé?" spurði stóri Kláus.

"Það eru sjávarnautgripir," sagði litli Kláus, "og skal ég nú segja þér upp alla söguna, og hafðu kæra þökk fyrir, að þú drekktir mér. Nú er mér óhætt úr þessu, - Já, nú er ég verulega kominn í álnir, því máttu trúa. Ég var svo hræddur, þegar ég lá þarna, innibyrgður í pokanum; vindurinn hvein um eyru mér, þegar þú kastaðir mér niður í kaldan strauminn. Ég sökk undir eins til botns, en meiddi mig ekkert, því ég kom niður á dúnmjúkt gras, sem vex þar neðra, og í sama bili var pokinn opnaður, og kom til mín yndislegasta yngismey í snjóhvítum klæðum og með grænan krans um rennvott hárið. Tók hún í höndina á mér og sagði: "Ert þú þarna, litli Kláus! Þarna er nú, til að byrja með, nokkuð af nautgripum, sem þú mátt eiga, en einni mílu ofar á veginum stendur í viðbót heill rekstur, sem ég ætla að gefa þér." Ég sá nú, að áin var breiður þjóðvegur sæbúanna. Niðri á botninum komu þeir gangandi og akandi beint utan að úr sjónum og héldu inn í landið alla leið ána á enda. Þar var mesta auðlegð af indælustu blómstrum og safamikill grasvöxtur, og fiskarnir, sem þar syntu, þutu fram hjá eyrum mínum, alveg eins og fuglarnir hérna í loftinu. en hvað fólkið þar var laglegt! Og þá var ekki minna vert um búpeninginn, sem gekk þar um grund og haga!"

"En því varstu þá að koma hingað upp til okkar aftur?" sagði stóri Kláus. "Það hefði ég ekki gert, fyrst svo ljómandi fallegt er þar neðra."

"Jú," sagði litli Kláus, "það gerði ég nú einmitt af klókindum, og taktu nú eftir því, sem ég segi þér. Sækonan sagði, að mílu vegar þaðan uppi á veginum - en með veginum meinar hún ána, því aðra leið getur hún ekki komizt, - þar sé enn heill rekstur, sem mér er ætlaður. En ég veit, að áin rennur í alls konar bugðum, ýmist þar og ýmist hér, það er ekki smáræðis krókur; nei, þá er betra að stytta sér leið þegar maður getur, að koma hér upp á land og reka þvert yfir til árinnar aftur. Með því spara ég næstum hálfa mílu og kemst fljótara til sjávarnautgripanna minna."

"Ó, mikill lánsmaður ertu" sagði stóri Kláus, "heldur þú, að ég fái líka sjávarnautgripi, þegar ég kem niður á árbotn?"

"Já, það mundi ég ætla," sagði litli Kláus, "en ég get ekki borið þig í pokanum til árinnar. Mér þykir þú heldur þungur, en ef þú vilt ganga þangað sjálfur og skríða svo í pokann, þá skal ég með mestu ánægju fleygja þér út."

"Þakka þér fyrir" sagði stóri Kláus, "en fái ég ekki sjávarnautgripi, þegar niður kemur, skal ég lúberja þig."

"Æ, vertu ekki svona vondur," sagði litli Kláus, og gengu þeir nú til árinnar. Nautféð var þyrst, og þegar það sá vatnið, hljóp það eins hratt og það komst til þess að geta fengið að drekka.

"Sko, hvað það flýtir sér," sagði litli Kláus; "það langar aftur niður á botninn."

"Já, hjálpaðu mér nú fyrst," sagði stóri Kláus, "ef þú vilt ekki, að ég berji þig." Skreið hann svo í pokann stóra, en áður hafði pokinn legið um þvert bak á einu af nautunum.

"Láttu stein í pokann, því annars er ég hræddur um, að ég sökkvi ekki," sagði stóri Kláus.

"Það mun óhætt um það," sagði litli Kláus, en lét samt stóran stein í pokann, reyrði fast fyrir opið og hratt honum svo út; plump! Stóri Kláus var kominn í ána og sökk í sama vetfangi til botns.

"Ég er hræddur um, að hann finni ekki nautkindurnar," sagði litli Kláus og hélt svo með rekstur sinn heim á leið.



Netútgáfan - mars 1999