Þegar Vigfús prestur Benediktsson - prests að Felli í Mýrdal - var í læri í Skálholtsskóla bar svo við einn vetur að á staðnum voru fjórar niðursetningskellingar sem allar voru látnar búa í einum kofa. Tveimur af kellingum þessum kom svo illa saman að þær sátu aldrei á sárs höfði með jögun og illdeilum; og svo kom loks að önnur hét hinni að hún skyldi drepa sig og ganga svo aftur til að rétta hluta sinn á henni, því hún hafði þókst fara halloka fyrir henni.Skömmu eftir þetta kálaði kelling sér eins og hún hafði heitið. Var hún þá lögð í útihús, en strax urðu menn varir að kelling gekk aftur, því sama kvöldið sást hún ríða á húsum á staðnum og hin kellingin að finna til að eitthvað áreitti sig með því að kremja sig og klípa, og svo var tekið um hálsinn á henni svo henni lá við henging.
Þegar þessi draugafregn barst í skólann urðu skólapiltar allir vitlausir í hræðslu nema Vigfús einn, sem eitthvað þókti kunna fyrir sér, enda átti hann að hafa þurft á því að halda þegar hann seinna varð prestur að Stað í Aðalvík.
Hann býr sig eitt kvöld meðan kelling stóð uppi að grennslast eftir hvört hann verði nokkurs var og fer nú út að kofa þeim er kellingar bjuggu í og gengur í mjó göng er til kofans lágu. En þegar hann er kominn svo langt að hann sér inn litast hann um og sér hvar afturgangan stendur við rúmstokk hinnar kellingar, því tunglsbjarma bar inn í kofann. Sofa þá allar þrjár í rökkursvefn.
Heyrir hann þá að skorar ógurlega í kellingu, en hann stendur þarna kyrr þar til önnur hin kellingin vaknar við skorið í hinni, stendur fljótt upp og hleypur til að kveikja og lætur Vigfús hana ei verða vara við sig. En í því að ljósbirtan leggur inn svífur draugsi fram, en Vigfús ætlar að reyna að grípa hann um leið og hann færi fram; spennir því greipur yfir göngin sem vóru þröng; verður þó ekki annars var en honum finnst sér hrundið að öðrum veggnum og eins og kalt vatn renna milli skinns og hörunds á sér. Og með það hverfur hann í það sinn, en kelling hættir að öngla og vaknar.
Nú lætur biskup taka lík kellingar og hola niður utan garðs. En sama kvöldið sér vinnufólk á staðnum hana sitja og róa sér á kirkjuburstinni. Er piltum sagt frá þessu og þykir þeim ill fregn. Tala þeir þá um sín á milli hvör ráð muni vera að ganga frá draug þessum. Býðst Vigfús þá til að freista til þess.
Býr hann sig einsamall og fer út að dysinni, mokar hana upp og brýtur kistuna, tekur hausinn af kellingunni og setur við rassinn og tautar þar yfir sem honum þurfa þykir; fyllir svo gröfina og fer í burt. Þökkuðu piltar honum fyrir vikið og bar ekki framar á þessum draug í Skálholti.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - september 2000