GALDRAMENN  -  EIRÍKUR  Í  VOGSÓSUM


======================




KAPTEINNINN  ÚR  KÖLDU-SVÍÞJÓÐ



Einu sinni fór síra Eiríkur í kaupstað, kom inn í búðina og fór að tala við kaupmann og spyrja hann um bækur sem prestur vildi kaupa. Maður nokkur var þar í búðinni útlendur og var hann einlægt að glotta meðan prestur var að tala við kaupmanninn og síðan gengur hinn útlendi maður út úr búðinni.

Síra Eiríkur spyr kaupmann að: "Barnið mitt, hvaða maður var þetta sem gekk núna út úr búðinni?"

Kaupmaður segir að það sé útlendur maður og eigi hann heima út á skipi og sé hann viðsjáll og skrýtinn og sé bezt að eiga ekki mikið við hann. Síðan sér síra Eiríkur þennan mann ganga út á skip.

En daginn eftir er síra Eiríkur að búa sig á stað úr kaupstaðnum og afgjöra reikninga sína við kaupmann og liggur prestur álútur fram á borðið hvar kaupmaður var að skrifa.

Í því sama kemur þessi sami útlendi maður inn í búðina og heldur á bók í hendi og slær síra Eirík á nasirnar með bókinni og segir: "Ef þú verður ekki búinn að útvega mér þessa sömu bók í sama mund að ári þá skaltu sjálfan mig fyrir hitta og hafa verra af."

Síra Eiríkur segir: "Barnið mitt, ég skal reyna það."

Síðan gengur þessi útlendi maður út úr búðinni og síra Eiríkur heldur heim til sín og er hann mjög fálátur í marga daga.

Síðan fer hann einn dag að Nesi til að finna Böðvar. Böðvar var sjaldan vanur að fara í kaupstað eða á mannfundi, heldur var hann oftast heima eða þegar hann fór út af bænum þá fór hann einn. Böðvar er heima þegar prestur kemur og segir síra Eiríkur honum um kaupstaðarferð sína og hvernig sér hefði gengið í henni og hvað þeim hafi farið á milli þessum útlenda manni og sér.

Böðvar segist vita af þessari bók í einum stað, en ekki muni svo auðgjört að ná henni. Það sé helzt einn áll á leiðinni sem ekki sé svo auðvelt að komast yfir. Ekki sé hann ófær, en hann rati hann ekki alveg; ekki mundi föður sínum hafa þótt mikið fyrir að ná henni og sé nú auðséð að hann sé dauður.

Síra Eiríkur biður Böðvar að hjálpa sér í þessu efni ef hann mögulega geti því ef hann geti það ekki þá geti enginn annar það. Böðvar segist skuli reyna það og segir presti að vera alveg rólegum heima á Vogsósum, og skilja þeir við það.

Hálfum mánuði fyrir jól kemur Böðvar að Vogsósum og vill finna prest og segir honum að hann ætli að bregða sér nokkurn tíma að heiman og biður prest að sjá um Dýrfinnu sína á meðan á Nesi og vera yfir henni þegar hún fæði því hún sé ólétt, og lofar prestur honum því og hverfur Böðvar síðan í burtu.

Síra Eiríkur er yfir Dýrfinnu þegar hún fæðir, og skírir hann barnið. En þá nótt sem hún fæddi barnið sagði síra Eiríkur að hann hefði lifað örðugasta, því þá hafi hann átt bágast með að verja það að bærinn á Nesi yrði brenndur.

Nú líður allur veturinn að ekki kemur Böðvar, en á sumardagsmorguninn fyrsta liggur Böðvar í rúmi sínu og spyr kona hans hann að hvar hann hafi verið allan þennan tíma, en hann sagðist hafa farið dálítinn spöl og hafi sér tafizt á ferðinni, og hann segir henni ekki meira um það.

Síðan fer hann að finna síra Eirík og segir honum af ferðum sínum og segist ætla að koma með honum í kaupstað á lestum þó hann sé óvanur því að fara í kaupstað. Síra Eiríki þykir vænt um það og segist gjarnan vilja það.

Þegar lestir eru komnar fara þeir báðir í kaupstað Böðvar og síra Eiríkur og finna kaupmann og spyr síra Eiríkur hann að hvort útlendi maðurinn sá í fyrra sér hér nú. Kaupmaður segir það vera og sé hann út á skipi og segist kaupmaður heldur vilja að þeir fyndu hann þar heldur en á landi.

Böðvar segir við prest að þeir skuli fara út á skip, og gjöra þeir það. Þegar þeir koma þar þá spyr Böðvar mann sem uppi stóð hvort kapteinninn úr Köldu-Svíþjóð sé hér út á skipi. Maðurinn svarar einhverju sem síra Eiríkur skildi ekki og sér síra Eiríkur að Böðvar hrindir þessum manni fyrir borð.

Síðan fer Böðvar niður í káhetu og segir síra Eiríki að koma með sér. Hún er læst. Böðvar tekur eitthvað upp úr vasa sínum og getur lokið henni upp. Þá liggur kapteinninn þar í rúmi og er að lesa í bók.

Böðvar grípur bók upp úr vasa sér, opnar hana og leggur ofan yfir andlit á kapteini og segir þarna sé bókin sem hann hafi heimtað af presti, það sé eins gott að hann heimti ekki fleiri bækur. Hann heldur bókinni nokkra stund ofan yfir andliti hans og síðan segir hann síra Eiríki að koma. Síra Eiríkur spyr hann að hvort þeir eigi ekki að taka bókina. Hinn svarar nei við. Um leið og séra Eiríkur gengur út dregur hann bókina ofan af andlitinu á manninum og sér að hann er steindauður.

Síðan fara þeir í land og spyr kaupmaður þá hvernig ferðin hafi gengið. Þeir segja honum allt hið sanna. Kaupmanni þykir mjög vænt um þetta og segir að það hafi verið mesta landhreinsun að hans dauða því hann hafi verið mesti galdrahundur og brúkað ávallt galdra sína öðrum til ills. Hann hafi verið frá Köldu-Svíþjóð og serkneskur að kyni.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - september 2001