Á umliðnum öldum, meðan menn fóru almennt úr Norðurlandi suður til sjóróðra, fóru venjulega margir vinnumenn til vers frá biskupssetrinu Hólum, og þóttu þeir stundum vera fremur miklir á lofti.Á bæ einum í Hjaltadal í grennd við Hóla var piltur nokkur, er Sigurður hét. Hann var á tvítugs aldri, er þessi saga hefst. Sigurður var kunnugur að Hólum og kom þar oft. Eitt haust kom Sigurður heim að Hólum, sem oftar, nokkru áður en húskarlar lögðu af stað suður í verið. Hann kom á tal við þá, að gott ættu þeir að fá að fara suður, því að hann langaði mjög til að fara suður til róðra. Þeir sögðust ekki banna honum að fara suður líka, og hann mætti verða þeim samferða, ef hann vildi. Sigurður kvaðst að vísu fá að fara suður, en hann væri svo fátækur, að hann gæti ekki keypt handa sér mötu. Svo kölluðu suðurferðamenn nesti sitt. Að svo mæltu féll talið niður í þetta sinni.
Í annað skipti kom Sigurður að Hólum og vakti tals á sama efni við húskarlana. Þeir sögðust þá mundu lofa honum að fara með sér og hafa hann allir á mötu sinni, því að vant væri að gera Hólapilta svo ríflega út, að þetta væri hægt fyrir þá, en hann yrði aftur að vera hestasveinn þeirra á leiðinni og gera ýmsar smákvaðir fyrir þá. Sigurður svaraði, að það væri sjálfsagt, enda var hann ötull til þess, er hann kunni.
"Þegar þú kemur svo suður," sögðu þeir, "þá getur þú fengið mötu fyrir afla þinn tilvonandi, og eru þetta góðir kostir."
Sigurður kvað það satt vera. Þótt Hólamenn létu svona fagurt, var aðaltilgangur þeirra að hafa Sigurð fyrir ginningafífl á leiðinni.
Hólamenn lögðu nú af stað og Sigurður. Þeir fóru fjöll, og segir ekki af ferðum þeirra, fyrr en þeir komu að Kalmanstungu. Þar voru þeir kunnugir og fengu að fara inn í baðstofu með nesti sitt til þess að matast, en Sigurður flutti hesta þeirra í haga og kom svo inn til þeirra.
Um þessar mundir bjó gamall bóndi í Kalmanstungu, og hafði hann misst konu sína, en dóttir hans, er Ingibjörg hét, stóð fyrir búinu með honum, Hún var rösk stúlka og hið bezta konuefni. Þá er svo bar undir, að vermenn komu að Kalmanstungu, hafði bóndi nákvæmar gætur á dóttur sinni, að hún yrði sem minnst á vegi þeirra, því að hann óttaðist, að þeir mundu glepja hana á einhvern hátt, og var þeim vel kunnugt um þetta.
Félagar Sigurðar voru mjög alúðlegir við hann þetta kvöld og gáfu honum meiri og betri mat en þeir voru vanir. Þá er Ingibjörg gekk um baðstofuna, bentu þeir honum á hana og spurðu, hvort honum litist ekki vel á hana. Sigurður kvað svo vera. Þeir sögðu, að hún mundi vilja komast í kunningsskap við karlmenn, en það væri ekki auðgert, því að faðir hennar geymdi hennar svo vandlega, að hvorki væri hægt að ná fundi hennar nótt né dag.
"Það væri þó gaman að finna hana," mæltu þeir. "Viltu nú ekki reyna til þess að komast inn í húsið til hennar í nótt og vita, hvernig hún tekur þér?"
"Ég treysti mér ekki til þess." svaraði Sigurður.
"Ja, jú-jú," mæltu þeir. "Við sjáum ráð til þess. Þú ert okkar langliðugastur og léttfærastur. Þú þarft ekki annað en að klifrast upp á þilið framan undir húsinu, því að það nær aðeins upp á skammbita, og renna þér svo með hægð inn af. Þá kemurðu ofan á rúmstokk Ingibjargar. Við skulum meira að segja gefa þér sinn skildinginn hver, ef þú áræðir þetta, og verður það ekki lítið fé. Svo geturðu keypt þér mötu fyrir peningana, þá er þú kemur suður, og þá getur þú átt afla þinn."
Þá er Sigurður heyrði þessa kosti, fóru að renna á hann tvær grímur, og fór svo að lokum, að hann hét að fara að orðum félaga sinna.
Svo var háttað í baðstofuhúsinu, að þar voru tvö rúm, annað fyrir gafli, og var það rúm húsbónda, en hitt undir hlið, og þar svaf Ingibjörg. Á móti rúmi hennar og frammi við þilið stóð aftur sýruker, og voru lagðar yfir það lausar fjalir. Sýran var höfð til þess að blanda drykk handa gestum, og hollara að láta hana standa í hlýju herbergi en í framhýsi.
Skáli var í Kalmanstungu. Þar voru vermenn látnir sofa jafnan. Þá er kominn var háttatími, fóru gestirnir fram og lögðust til hvíldar, en vöktu nokkra stund til þess að kveða á um tímann, er Sigurður skyldi fara inn aftur. Þá er Sigurður lagði af stað, fóru þeir allir með honum inn að baðstofuhurð til þess að forvitnast um, hvernig fara mundi.
Sigurður fór hljóðlega og gekk á sokkunum, en þó heyrðu þeir, að lítið eitt hrikti í þilinu, er hann klifraði upp á það. Þeir höfðu logið að honum, hvorum megin rúm Ingibjargar væri, því að þeir ætluðust til þess, að hann félli ofan í sýrukerið og bóndi vaknaði svo við háreystið.
Sigurður renndi sér inn af skammbitanum, sporðreisti fjalirnar á sýrukerinu og féll ofan í það. Bóndi vaknaði með andfælum við ólætin og spurði, hvað á gengi.
"Það er ekki neitt, faðir minn," svaraði Ingibjörg, "Kötturinn féll ofan í sýrukerið."
Þá er Sigurður heyrði, hvernig Ingibjörg svaraði föður sínum, þóttist hann vita, að henni væri ekki með öllu ókunnugt um málefni þetta. Hann staulaðist því ofurhægt aftur upp úr kerinu, gekk hljóðlega að rúmi Ingibjargar og spurði, hvort hún gæti ekki hjálpað sér fram fyrir.
"Til hvers komstu inn fyrir?" spurði hún, og sagði Sigurður henni þá upp alla sögu með fáum orðum. Ingibjörg sagði, að sig hefði grunað þetta í kvöld og kvaðst halda, að hann ætti lítið erindi til þeirra aftur. Hann skyldi heldur fara upp í rúmið, þótt hann væri votur. Sigurður gerði það og svaf hjá Ingibjörgu það, sem eftir var nætur.
Vermennirnir heyrðu andfælurnar í bónda, en vissu svo ekkert frekara. Þeir stóðu lengi á hleri við baðstofudyrnar, en urðu einskis vísari og gengu síðan fram aftur til rúma sinna.
Ingibjörg vaknaði snemma um morguninn og sagði við Sigurð, að hann yrði að fara ofan undir sængina í rúminu og bíða þar, til þess er hún gerði honum aðvart. Síðan klæddust þau feðgin. Bóndi fór út að hirða fé sitt, og Ingibjörg fór fram í bæ til bústarfa sinna, en læsti áður húsinu og lét lykilinn í vasa sinn.
Hólamenn fóru á fætur, gengu til baðstofu og mötuðust. Þeir voru alls staðar að skima eftir Sigurði, en sáu hann hvergi. Þeir sáu, að baðstofuhúsið var læst, og gátu þeir því ekki grennslazt eftir honum þar, en ekki þorðu þeir að spyrja eftir honum. Síðan sóttu þeir hesta sína og fóru svo af stað, að þeir vissu ekkert um Sigurð.
Þá er þeir voru farnir, kom Ingibjörg til Sigurðar, sagði honum að klæðast í skyndi og fór síðan með hann fram í búr. Þar gaf hún honum bezta mat og faldi hann þar í skoti einu. Nokkru síðar kom bóndi inn í bæ frá fjárhirðingu. Ingibjörg bar honum mat og fór að ræða við hann um ýmislegt.
Meðal annars sagði hún. "Ég kenndi í brjósti um unglingspiltinn, sem var með Hólamönnum. Mér heyrðist þeir vera að gera gys að honum í gærkvöldi. Hann var þó ekkert óefnilegur drengur að sjá."
"Og ég tók ekki eftir því, að hann væri með þeim, þá er þeir fóru," mælti bóndi. "Ætli þeir hafi nú séð fyrir honum?"
"Ekki held ég það," svaraði Ingibjörg. "Hann hefur líklega orðið eftir, Ég held, að þú hefðir átt að fá hann fyrir smala."
"Hefurðu orðið vör við hann?" mælti bóndi. "Það væri gaman að sjá hann."
Ingibjörg fann nú Sigurð og sagði honum, að faðir sinn vildi tala við hann, - "og vertu nú uppburðargóður," ráðlagði hún honum.
Sigurður fór nú inn með henni. "Hvað er þetta?" spurði bóndi. "Ertu hér enn? Fórstu ekki með félögum þínum?"
"Ónei," svaraði Sigurður.
"Hvað heldurðu, að nú verði um þig?" spurði bóndi.
"Ég veit ekki," svaraði Sigurður.
"Viltu vera hjá mér í vetur og fara til mín í vor fyrir smala?" spurði bóndi.
"Það vil ég feginn," svaraði Sigurður.
Hann var nú í Kalmanstungu um veturinn. Sigurður var bónda mjög fylgisamur og reyndi til þess að vera sem lagnastur og ötulastur við fjárgeymsluna með honum, en Ingibjörg sparaði ekki að láta hann eiga gott, svo að honum fór mikið fram að afli og vexti um veturinn.
Um vorið, er Hólamenn komu að sunnan úr verinu, komu þeir við í Kalmanstungu og hittu Sigurð. Þeir spurðu, hvort hann vildi ekki koma með þeim norður aftur, en hann neitaði því og sagðist nú ekkert vera upp á þá kominn, Þeir ættu nú líka eftir að borga sér peninga, er þeir hefðu lofað sér í haust er var, og ef þeir greiddu þá ekki af hendi þá þegar, skyldi hann koma upp um þá við húsbóndann, að þeir hefðu verið að gabba sig, og væri þá ekki að vita, hve góðu þeir ættu að fagna þar framvegis.
Hólamenn vildu ekki, að klækir þeirra yrðu hljóðbærir, og greiddu Sigurði heldur sinn peninginn hver. Síðan skildu þeir, og varð fátt um kveðjur með þeim.
Sigurður var smali í Kalmanstungu nokkur ár og hélt Ingibjörg alltaf í hönd með honum. Síðan kvæntist hann henni og var hjá tengdaföður sínum, unz hann dó. Þá varð hann bóndi í Kalmanstungu. Samfarir þeirra Ingibjargar voru hinar beztu og leið þeim vel alla ævi.
(Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar)
Netútgáfan - janúar 2000