KÁLFUR  PRESTUR



Kálfur og kölski

Kálfur Einarsson hét prestur; hann var á Fellum í Sléttuhlíð. Kálfur lærði í Svartaskóla og eru margar frásagnir til um viturleik hans og kunnáttu og hvernig hann lét Kölska þjóna sér til hvers sem hann vildi. Var það í kaupmála þeirra prests og kölska að kölski ynni fyrir prest allt sem hann legði fyrir hann, en fengi Kálf að síðustu fyrir.

Stóð svo allan aldur Kálfs. Þegar Kálfur var gamall mjög tók hann sótt allþunga. En þegar hann kenndi sín að sú sótt mundi helsótt vera bað hann að nautkálfur einn væri látinn undir rúm sitt þar sem hann lá. Ekki sást að prestur bæri hræðslu fyrir dauða sínum.

Þegar prestur sýndist langt leiddur kom kölski til hans og kvaðst nú kominn þegar til að sækja hann eins og skilmálar þeirra væru. Prestur brást ókunnuglega við og byrsti sig móti kölska. Tók kölski þá upp handskrift prests með blóði ritaða og bað hann við kannast.

Prestur kvaðst svo gjöra mundi, leit á og mælti: "Þar stendur ekki Kálfur Einarsson, en hér er nú kálfurinn sem heitinn er," - og kippti kálfinum fram undan rúmi sínu.

Sneyptist þá kölski og hvarf frá honum.


Smaladrengurinn og Kálfur á Kálfsstöðum

Hjá presti einum á Suðurlandi var smaladrengur. Það var einu sinni að hann átti örðugt með að koma fénu heim að kvíunum; sluppu þær hvað eftir annað. Þar kom þá maður aðvífandi og hjálpaði drengnum að reka saman féð og kvía.

Hann spurði hvernig vist væri hjá prestinum eða hvort hann væri ekki svangur hjá honum. Drengurinn tók lítið undir það. Maðurinn sagði hann skyldi vistast til sín að ári og koma til sín á sumardaginn fyrsta; væri miklu betri vist hjá sér. Drengurinn lofaði því.

Um veturinn fór drengurinn að hugsa út í þetta; varð hann hugsjúkur og fór sem einförum. Prestur gekk á hann um þetta og spurði hvað olli. Drengurinn sagði sem var. Prestur sagðist ekki geta úr því ráðið (því maðurinn vökvaði drengnum blóð og ritaði drengur handskrift og fekk honum) handskriftarinnar vegna.

"Verð ég að senda þig norður á Kálfsstaði til Kálfs Kálfssonar frænda míns og vita hvort hann sér ekkert ráð til þess að fría þig eður að ná handskriftinni."

Drengurinn fór norður með bréf frá presti. En er Kálfur hafði lesið bré fið hló hann og mælti: "Vesælir gjörast nú prestar á Suðurlandi að geta ekki frelsað eins manns sál frá kvölum."

Þar var drengurinn litla hríð. Eitt sinn fekk Kálfur drengnum rautt hnoða og bað hann fylgja því. Drengurinn elti hnoðað þar til hann nam staðar á hól einum. Þar var gluggi á hólnum og sá drengurinn allt athæfi tilvonandi húsbónda síns og hjúa hans.

Varpaði hann þar inn hnoðanu, en þeir voru ekki seinir að leysa í sundur; tóku þar úr handskrift og var þeim þar í lofað Kálfi Kálfssyni frá Kálfsstöðum ef þeir gæfu drenginn kvittan, og skyldi hann koma í ákveðinn tíma. Þessu fögnuðu þeir og snöruðu út handskrift drengsins og umbúðum hinnar; hirti hann hvorutveggja. Dönsuðu þeir nú af kæti mikilli og sá hann hvar þeir buggu Kálfi rekkju og leizt miðlungi vel á. Fór hann nú heim kátur og glaðvær af lausn sinni.

Þar hjá Kálfi var kvíga sem kelfzt hafði í kálfagarði og fengið fyri kálftapp; var hún á kálfabásnum. Drengurinn var nú hjá Kálfi það eftir var vetrarins.

Á vetrardaginn seinasta bar kvígan. Kálfur hengdi nú kálfinn og lét í "hvítan vaðmálspoka" og bað drenginn fylgja sér. Fóru þeir nú leið sína með kálfinn og að hólnum. Þetta var snemma um morguninn. Heyrðu þeir nú ófagra kæti í hólnum og var glugginn opinn.

Kálfur gekk að glugganum og snaraði kálfinum inn og segir: "Þar hafið þér Kálf Kálfsson frá Kálfsstöðum."

Þeim þókti ekki svo vingjarnlig sendingin sem þeir mundu æskt hafa, hentu kálfinum frá einum til annars og rifu hann sundur mélinu smærra.

En þeir félagar sneru aftur leið sína. Var drengurinn hér eftir lengi hjá Kálfi og numdi margt af honum.


Gníputótt

Kálfur prestur bjó á Tindum á Skarðsströnd (?). Hann var skólabróðir Sæmundar prests hins fróða úr Svartaskóla. Skrattinn þóttist eiga kröfu til Kálfs prests og reyndi oft að ná honum til sín.

Á Tindum var tún mjög grýtt og seinunnið. Þar var tóttarbrot eitt í túninu er kölluð var Gníputótt; þar var ómögulegt að slá svo ljáfar að ekki kæmi í stein.

Einhverju sinni sagði Kálfur prestur við skrattann að hann skyldi fá sig ef hann gæti slegið túnið á einni nóttu án þess að í stein kæmi. Skrattinn gekk að þessu og fór að slá. En Kálfur lét brýni liggja í Gníputótt; var ómögulegt að sjá það fyrir grasinu.

Þegar Kálfur prestur kom á fætur um morguninn átti hinn eftir Gníputótt; þá spurði Kálfur hvers vegna hann væri ekki búinn með túnið. Skrattinn kastaði þá fram vísu þessari:

Þó túnið sé á Tindum mjótt
tefur það fyrir einum;
grjót er nóg í Gníputótt,
glymur járn í steinum.

Hafði hann rekið ljáinn í brýnið þar sem það lá í tóttinni og þess vegna varð hann af kaupinu.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - ágúst 2001