Það bar til hér um bil fyrir sjö árum á Kleifum í Kaldbaksvík að tveir menn gengu þaðan yfir að Kaldbak á þrettándadagskvöld jóla og liggur þá leiðin yfir ós er fellur úr vatni sem þar er neðst í dalnum og ekki er nema rif (þó breitt nokkuð) milli vatns og sjávar og fellur um stórstrauma fram í vatnið; leggur því ósana seint þegar frost eru lítil, og tíðast er rifa úr ósnum fram í vatnið og so var í þetta skipti.Mennirnir fóru nú þessara orsaka vegna fram á vatnið til að komast fyrir rifuna, en er þeir voru skammt komnir út á ísinn sáu þeir hóp manna koma móti sér af rifinu út á ísinn og sögðu þeir hvur við annan: "Þar koma þeir með nautið," því það var von á tveimur mönnum þessa leið með naut sama kvöldið.
En er þeir nálguðust meir sáu þeir glöggt að ei var þannin, heldur fjórir eða fimm karlmenn, að þeir héldu, en gátu ei glögglega séð tölu á þeim vegna þess hvað þeir gengu þétt saman. Það var að sönnu tunglskin við og við eða sem menn kalla það vóð í skýjum.
Samt sýndust þeim þessir allir bláklæddir; virtist þeim tveimur hinir vilja bægja sér af stefnu sinni og í eða sem næst rifunni, hvöttu þess vegna sporið til að verða fyrri yfir það sem veikast var fram undan þessari rifu, hvað og þeim líka tókst, en sveigðu þá undireins af leið og fóru svo hvurjir hjá öðrum; þó var spottakorn millum þeirra.
Ekki heyrðu þeir þá tala neitt, en höfðu stefnu fram og yfir vatnið. Hinir tveir héldu ferð sinni áfram, sem þeir ætluðu, heim að Kaldbak og spurðu hvurt ei hefðu þessir menn þangað komið eða til þeirra séðst og var það hvurugt og ei spurðist til að menn hefðu verið á ferð þar í kring þetta kvöld; varð því ályktað þetta hefðu verið huldufólk. Mennirnir vóru ekki so aðgætnir að líta eftir förum þessara manna vegna þess að heldur var felmtur í þeim.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - febrúar 2000