JÓN  GUTTORMSSON



Guttormur hét maður; hann bjó á Brú á Jökuldal; hann var þriðji eða fjórði frá Þorsteini jökli er lifði um pláguna og flýði undan drepsótt þeirri með allt sitt hyski á Dyngju í Arnardal, inn og vestur á Brúaröræfum, og var þar þangað til bláa pestmóðan sem lá yfir sveitunum dróst af, þá flutti hann aftur að Brú og bjó þar til elli. Til hans telja Jökuldælingar kyn sitt.

Guttormur átti börn nokkur; eitt var Jón sem helst hefur verið getið. Hann var bráðþroska og varð mesti atgjörvismaður að afli og áræði.

Þegar hann var fullþroska geymdi hann fjár föður síns inn á Brúardölum og var þar einn alla vetra. Þess er getið eitt sinn að hann gekk út að Brú og var heima næturlangt. Spurði faðir hans hann að hvört hann yrði aldrei var við reimleika þar inn frá, því orð lék á því áður og allt fram að þessari öld að reimt væri á Brúardölum.

Jón kvað nei við; hann sagðist ekki kalla það reimleika að einu sinni þegar hann hefði verið lagstur út af eitt kveld þá hefði hann ekki vitað af fyrri en eitthvað hefði komið að rúmstokknum og í vetfangi fleygst upp fyrir sig.

"Hvörnig var það að skapnaði?" sagði karl.

"Ég vissi það ekki," sagði Jón; "mér fannst það eins og böggull og var kalt og loðið."

"Hvað varð þér?" sagði karl.

"Ekki neitt" kvað Jón, "nema ég sagði: æ, þér er kalt, veslingur. Viltu ekki ég vermi þig? Þá tók það rokið úr rúminu og svo bar ekki meira á þessu."

En nokkrum tíma eftir þetta um veturinn kom hann út að Brú og bað systur sína að koma inn eftir með sér og vera hjá sér um tíma, fór í smiðju og bjó til sleddu mikla.

Fóru þau svo inn eftir, en fyrsta kveldið sem þau voru bæði saman í húsinu heyrðu þau dunur miklar úti, en Jón sagðist ætla út og vita hvað um væri að vera, en bað hana að muna sig um það hvað sem á gengi að hreyfa sér ekki út.

"Verði ég ekki kominn í dögun á morgun, þarftu ekki að vænta mín og mátt þá heim fara."

Síðan tók hann sveðjuna og hljóp út. En þegar hann var út kominn heyrði hún aðgang mikinn við húsið sem henni heyrðist vera að fjarlægjast, þá leið á nóttina, uns hún heyrði ekkert, en undir daginn kom Jón, þjakaður mjög, víða marinn og lá í þrjár nætur. Ekki kom hann með vopn sitt; en löngum tíma síðar fannst stór sveðja langt inn á öræfum.

Eftir þetta tók Jón að hressast og sagði systur sinni að nú þyrfti hann hennar ekki lengur og skyldi hún heim fara, það mundi ekki bera á reimleika þessum framar.

Jón var ófyrirlátsamur mjög og ofurhugi. Björn sýslumaður Pétursson á Burstarfelli og hann eltu tíðum grátt silfur, en orsök til þess var fyrst að þá Jón var vorðinn gamall tók hann fram hjá konu sinni, en vildi aldrei gjalda hórdómssektina hvörsu sem sýslumaður herti að honum.

Þess er getið eitthvört sinn þá Jón var kominn að fótum fram og til sonar síns að Brekku í Fljótsdal, síra Eiríks er þjónaði á Hallormsstað meðan hann lifði, að Björn sýslumaður Pétursson kom ofan úr dal að Brekku. Var Eiríkur prestur ekki heima.

Bað sýslumaður segja Jóni að hann vildi finna hann út. Jón stumraði ofan og út, heilsaði sýslumanni og spurði hvað hann vildi sér.

Hann sagði: "Fyrir þann skuld, karl, fylgdu mér á leið hérna út fyrir."

"Ég er nú varla í færum til þess," sagði Jón; "en þó gildir mig einu þótt ég skjökti með þér hérna út fyrir bæinn."

Fóru þeir svo leiðar sinnar og bar ekki til tíðinda. Leiti ber af fyrir utan Brekku, en fyrir utan það var skógur mikill. Þegar kom út fyrir leitið svo ekki sá til bæjarins talaði Björn til fylgdarmanna sinna sem eftir vana vóru fjórir eða fimm valdir að burðum:

"Fyrir þann skuld, takið þið nú þrælinn og gangið næst hans lífi."

Þegar Jón heyrði þetta hljóp hann að einni skógareikinni, reif hana upp með rótum og barði á báðar hendur með klumbunni svo bani var búinn hvörjum sem fyrir hefði vorðið. Enginn manna Bjarnar þorði nærri að ganga, hvörsu sem hann frýði þeim hugar, kallaði lyddur og ragmenni, að þora ekki að ráða að karlskrattanum.

Þetta gekk lengi dags, að Jón varðist uns hann tók að mæðast. Þá varð Birni litið inn á leitið og sá hvar maður kom með mikilli ferð.

Sýslumanni brá svo við sýn þessa að hann sagði til manna sinna: "Hætti þið, fyrir þann skuld, því nú kemur djöfullinn."

Þetta var Eiríkur prestur sonur Jóns, hafði komið heim meðan á þessu stóð og grunað hvað um mundi að vera. Hinir bundu ekki skóbönd sín og í mesta flýti héldu leið sína. Jón komst heim nærri yfirkominn af mæði og var lengi vesæll eftir. Er ei getið að fundum hans og Bjarnar hafi síðan saman borið.

Jón varð gamall og andaðist hjá syni sínum Eiríki presti. Ég hef svo ekki heyrt fleira sagt af honum.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - júlí 1998