Í fyrri tíð bjó prestur einn á Melstað er Ásmundur hét; hann var ríkur maður og vel metinn. Hann átti tvær dætur og hét hin eldri Ingibjörg, hún var tíu ára, en hin yngri Sigríður og var hún eins árs, er saga þessi gjörðist.Séra Ásmundur reið til þings um sumarið og er eigi getið ferðar hans fyrr en hann lagði af stað norður aftur. Voru þeir þá þrjátíu saman og margir tígnir menn í flokknum; héldu þeir norður heiðar sem leið liggur, en er sókti norður af féll á þá þoka mikil svo þeir villtust af réttri leið og vissu ekkert hvað þeir fóru; voru þeir þannig að villast í þrjá daga og voru teknir að örvænta sér lífs af þreytu og matarskorti, en á fjórða degi komu þeir að vatni einu og sáu þeir þar þrjá menn sem drógu net að landi; það var karlmaður, kvenmaður og drengur.
Séra Ásmundur reið fyrir og bar bráðar að en þessi hugðu; en er þau sáu mannareiðina héldu þau á rás og vildu komast í jarðhús nokkurt sem stóð þar opið skammt burtu, en hann komst í veg fyrir þau, heilsaði þeim og spurði þau að heiti. Þau voru feimin mjög, en þó sögðu þau honum nöfn sín; hinn aldraði maður kvaðst Guðmundur heita, kvenmaðurinn héti Sigríður, en drengurinn Jónas; sagði hann að þetta væri systir sín, hefðu þau orðið brotleg fyrir barneign og flúið undan hegningu laganna á fjöll upp, hefðu þau grafið sér holu í hól einn hjá veiðivatni þessu og lifað af silungsveiði; drengurinn væri sonur þeirra.
Presturinn bað útilegumann að gefa ferðamönnum að borða og síðan fylgja þeim til byggða, en Guðmundur sagði að sér væru leiðir lítt kunnar og matvæli væru engin nema fáeinir silungar, og var það auðséð á öllu að hann vildi komast úr höndum þeirra. Presturinn hét honum þá, ef hann kæmi þeim til byggða, að útvega honum sýknu og reisa honum bú af samskotum fylgdarmanna sinna og lét þá Guðmundur betur yfir. -
Hann veitti þeim þá beina og slóst síðan í fylgd með þeim og kom þeim öllum að Melstað daginn eftir. Prestur lét þá klyfja tvo hesta með matvæli og gaf honum og skipaði Birni fóstursyni sínum og vinnukonu sinni að fara með honum og reka með sér tólf ær; bauð hann þeim að koma upp með Guðmundi fjárhúsum, heyja með honum um sumarið og reisa bæjarhús, en að haustinu skyldu þau aftur koma og sækja húsavið og gjafir samfylgdarmanna sinna.
Um haustið komu þau aftur og voru þá samskotin komin saman að Melstað; fluttu þau þá varnað á mörgum hestum og ráku 60 fjár suður á fjöllin að bæ Guðmundar, og var þar sama haust reistur vel húsaður bær. Þeim Birni og vinnukonunni þókti þar gott að vera og ílengdust þar; átti Björn systir Guðmundar, en Guðmundur vinnukonuna, og bjuggu þeir þar síðan til dauðadags.
Ásmundur prestur hafði það í skilyrði við Guðmund fyrir velgjörðir þessar að hann fengi sér Jónas son sinn til fósturs því presti leist afbragðs vel á drenginn, og lét Guðmundur það fúslega eftir. Ólst nú Jónas upp á Melstað og þókti afbragð annara manna bæði sakir vaxtar og gáfna. Léku þau sér oft saman Ingibjörg prestsdóttir og hann og höfðu mikla ást hvort til annars og tálmaði prestur það í engan máta. Jónas var afbragðs söngmaður og þókti prestsdóttur skemmtan mikil að heyra hann kveða.
Ingibjörg og Jónas voru nú orðin sextán ára, og var það þá iðja Jónasar að gefa lömbum á vetrum; þókti Ingibjörgu gaman að vitja lambhússins í rökkrum og heyra hann kveða. Eitthvert sinn gengur hún að vanda út í rökkrinu og ímynduðu sér allir að hún mundi hafa hvorfið til fjárhússins, en er Jónas kom inn um kvöldið er hann spurður um Ingibjörgu, en hann kvað hana eigi til fjárhússins komið hafa. Er hennar þá leitað hvervetna og finnst hún hvergi um kvöldið. Síðan er hennar leitað í marga daga af mannsöfnuði og verður hennar hvergi vart. Var síðan leitinni hætt og urðu hennar allir afhuga, en foreldrar hennar báru mikinn harm af hvarfi hennar og Jónas varð mjög utan við sig og varla mönnum sinnandi.
Eftir þennan atburð liðu nú tíu ár og var þá Ingibjörg og hvarf hennar horfið flestum úr minni nema foreldrunum sem hörmuðu hana, og elskhuga hennar sem ávallt saknaði hennar. Jónas er nú orðinn 26 ára gamall og hinn mannvænlegasti maður í Miðfirði. Eitt kvöld um haustið var allt sauðfé rekið heim á Melstað og bælt á túninu; voru það mörg hundruð fjár. Um morguninn þá fólk kemur á fætur sést engin skepna og er þá farið að leita fjárins og finnst eigi. Næstu nótt eftir dreymir Jónas að kona kemur til hans á grænum klæðum og segir að ekki muni öðrum hlíta að leita fjárins en honum og skuli hann að morgni leggja af stað suður á heiðar.
Um morguninn biður Jónas prest að fá sér nesti og nýja skó og kveðst hann ætla að leita fjárins uns hann fái einhverja vitneskju um hvar það muni niður komið. Heldur hann síðan fram á heiðar og hefur tvo til reiðar. Kemur á hann þoka mikil og fer hann villur vegar; heldur hann svo í tvo daga og er hann þá kominn að dalverpi einu; eru þar hamrar háir og klettar stórir. Honum verður reikað með björgunum og kemur þá til hans kvenmaður og býðst til að taka við hestum hans, leiðir þá inn í klett nokkurn og gefur þeim fóður.
Síðan tekur hún í hönd Jónasi og leiðir hann inn í björgin; eru þar löng göng að ganga uns þau koma að lofti einu. Leiðir hún hann þar upp og setur fram fyrir hann mat og drykk. Ekki sá Jónas þar fleiri manna; þykir honum þar dauflegt og tekur að kveða; eru þá opnaðar dyr til hægri handar og sér hann þar loga þrjú kertaljós á borði og allan húsbúnað hinn fegursta. Maður sat þar inni, hniginn á efri aldur, í svörtum múk, og gömul kona með skaut í svartri hempu.
Síðan sá hann til vinstri handar opnast aðrar dyr; var þar bjart inni og skrautlegt á að sjá. Þar var maður að ganga um gólf á grænum klæðum; tvö börn léku sér á gólfi, en eitt lá í vöggu, en kona sat við borðið á grænum klæðum og hafði blæju fyrir andliti.
Auðséð var það að öllum þessum var skemmt meðan Jónas kvað, og þegar hann hætti sagði grænklædda konan: "Og vel syngur Jónas tetrið ennþá."
Skömmu síðar kom kvenmaður sá er hann áður hafði séð, inn til hans og bauð hönum að fara að sofa; þáði hann það og leiddi hún hann þá í skála stóran; var þar rúm vel uppbúið; dró hún af honum vosklæði og leggur hann sig síðan til svefns.
Að lítilli stundu liðinni er gengið inn í skálann með ljós; sér hann að það er grænklæddi kvenmaðurinn. Hún tekur á honum og spyr hvert hann vaki; hann segir svo vera og býður hana velkomna. Þekkir hann þar Ingibjörgu prestsdóttur. Fagnaði hún honum þá vel og föðmuðu hvert annað. Sagði hún að hún hefði ætlað að dauðinn mundi einungis aðskilja þau, en þetta hefði öðruvísi til tekist.
Sagði hún honum þá upp alla sögu, að þegar hún hefði komið út á Melstað um kvöldið og ætlað í fjárhúsið til hans hefði maður á gráum hesti riðið í veg fyrir sig, tekið sig á bak fyrir framan sig og flutt sig í hamra þessa. Byggi þar fjöldi af huldufólki; maðurinn sinn á græna kjólnum væri sýslumaður, en faðir hans, gamli maðurinn á svarta múknum sem hann séð hefði, væri biskup. Þrjú börn sagðist hún hafa eignast í hjónabandi, en una sér mjög illa, þar siðir huldufólks væru svo mjög frábreyttir kristinna manna.
Hún sagðist nú hafa hyllt hann þangað, bæði til þess að hafa ánægju af að sjá hann aftur, og kvað hún að maður sinn hefði séð það fyrir að komandi vetur mundi verða mesti fellirsvetur; sagðist hún því hafa látið sækja allt fé föður síns og ætla að annast það í vetur, en bað Jónas að skila til hans að gefa fátækum, sem með þyrftu, heybjörg sína alla að vetrinum, það er hann hefði umfram kýr og hesta. Spurði hún hann síðan margs úr Miðfirði frá foreldrum sínum og kunningjum, en fékk honum að lyktum bréf til föður síns og fingurgull með, það er hún hafði á hendi þá hún hvarf.
Síðan minntist hún við hann og kvað þeirra fundum mundi eigi framar saman bera, en bað hann ef hún vitjaði hans í draumi annað sinn að hverfa sem fljótast í dal þennan.
Að morgni hélt Jónas af stað aftur og léttir eigi fyrri en hann kemur að Melstað og segir presti tíðindin; varð hann alls hugar feginn er hann spurði að dóttur sín væri lifandi þótt þeim væri samfunda meinað. Leið nú af veturinn og var hann fjarska harður svo að almenningur felldi fénað sinn, en prestur gat svo hjálpað í Miðfirði að lítið tjón varð að, en á sumardagsmorguninn fyrsta er fólk kom á fætur á Melstað lá fjárbreiða prestsins í hlaðvarpanum og var ekki einnar kindar vant og aldrei fyrri jafnfeitt á sumarmálum.
Að sex árum liðnum er Jónas að binda hey einn góðan veðurdag á Melstað og var vel haldið áfram um daginn og Jónas þreyttur að kvöldi; en þegar hann fyrst festir blund kemur að honum grænklædda konan og leggur nákalda höndina á brjóst honum; vaknar hann við og minnist ummæla hennar, gengur að hvílu prestsins og segist verða að bregða sér bæjarleið og biður hann að undrast eigi um sig, býr sig sem fljótast, en þegar hann kemur út á hlaðið er Vakri-Skjóni hans þar kominn og jarpskjóttur hestur sem hann þekkti eigi. Sest hann þá á bak jarpskjótta hestinum og lofar honum að ráða ferðinni.
Léttir hann eigi fyrri en hann kemur að björgunum og er þar tekið við hönum eins og í fyrra skiptið og leiddur inn á sama loftið. Fer hann þá að kveða eins og í fyrra skiptið, og eru þá opnaðar hurðirnar til hægri og vinstri hliðar. Sér hann þá að grænklæddi maðurinn er að ganga um gólf með mikilli hryggð, en lík stendur uppi í húsinu og dautt barn á brjósti þess. Vissi hann þá að Ingibjörg mundi látin og dáið hafa af barnsförum.
Um morguninn gekk sýslumaður til hans og sagði honum lát konu sinnar og það með að hún hefði beiðst að fá að liggja í Melstaðarkirkjugarði; bað hann því Jónas að sjá til að þessu yrði framgengt, líkmenn fengnir og ræða haldin og kvaðst það mundi vel borga.
Ríður Jónas síðan heim og segir presti þessi tíðindi; varð hann við það mjög hryggur, en tekur þó að búast við útför dóttur sinnar. Á ákveðnum degi, þegar búið var að taka gröfina, sást til líkfylgdarinnar; var þar fjöldi manna og allir vel búnir. Líkfylgdin stansaði fyrir utan túnið og sóktu líkmenn kistuna þangað, en allt huldufólkið fylgdi og fyllti kirkjuna og kirkjugarðinn. Þegar líksöngurinn var sunginn hvarf huldufólkið á burt.
Morguninn eftir, þegar fólkið kom á fætur, stóðu tveir kistlar á hlaðinu; var annar fullur af gersemum, en annar af peningum. Þar var og kominn jarpskjótti hesturinn, er Jónas hafði áður riðið og var reiðhestur Ingibjargar heitinnar. Þessum sendingum fylgdi bréf og stóð það þar í ritað að Jónas ætti Jarpskjóna og fleiri gersemar í kistlunum, en hinu skyldi skipta milli þeirra sem að greftruninni hefðu staðið, hver líkmaður t. a. m. fá tuttugu spesíur. - Jónas var alla ævi gæfumaður, eignaðist Sigríði prestsdóttur og var góður bóndi.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2000