GALDRAMENN  -  EIRÍKUR  Í  VOGSÓSUM


======================




JÓN  STERKI



Einu sinni kom skip á Eyrarbakka og lagðist þar á höfnina og var meðal annars skipað upp úr því járnhálffötum (það eru kvartél full af tilslegnu járni).

Stýrimaður kemur í búð og ber eitt þeirra í fangi sér og setur á borðið og mælti: "Einhvur Íslendingur leiki þetta eftir mér."

Jón er nefndur íslenzkur maður; hann fer og sækir eitt (annað) og setur á borðið.

Stýrimaður reiddist og mælti: "Að ári mun ég gjöra þér erfiðara fyrir en þetta."

Stýrimaður siglir aftur, en Jón ráðgast við vitran mann er var kunnugur stýrimanni. Sá sagði Jóni að stýrimaður mundi etja á hann víghundi; réð hann honum að gjöra járngjörvi um hægri hönd sér og upp að olnboga og hafa í hendi knött með hvössum fjöðrum út úr sér á alla vegu og reka í gapanda gin hundsins er hann kæmi móti honum, og ofan í kok, og mundi þá duga.

Næsta vor kemur skipið aftur og leggst á höfnina; kemur bátur í land og þar á stýrimaður með hund sinn. Jón er í fjörunni og æðir hundurinn að honum með ginið gapandi og rekur Jón höndina ofan í hann og setur í kok hans vopn sitt og fékk hann bana, en Jón sakaði ekki.

Verður stýrimaður verri en hið fyrra sinn og mælti: "Næsta vor skaltu meira við þurfa ef duga skal."

Siglir hann aftur, en Jón ráðgast við vin sinn. Hann kvað koma mundi blámann með stýrimanni og mundi hann ráðast á Jón, en bað hann vefja sig allan í snæri svo blámaður hefði enga handfestu á honum.

Kemur annað vor og fer allt eins og maðurinn gjörði ráð fyrir. Jón vafði sig í snærum og tók móti blámanni og gjörði ei annað en verjast. Blámaður sókti að grimmilega, en mæddist mjög, og lauk svo að hann sprakk um síðir og var það hans bani, en Jón gekk til búðar.

Stýrimaður kom og þar og er nú miklu reiðastur, tekur bók úr barmi sínum, lýkur upp í snöggum svip og mælti: "Þegar ég kem næsta vor skaltu fá mér annan helming bókar þessarar, þann sem ég hefi ekki, eða ég drep þig," fer síðan út á skip og siglir á burt, en Jón spyr vin sinn ráða.

Hann kvað fátt til ráða, en skrifar þó bréf og bað Jón færa Eiríki presti á Vogsósum. Jón gjörir svo, fór um haustið á fund Eiríks prests.

Eiríkur fagnar honum vel og les bréfið og mælti síðan: "Ég get ekki hjálpað þér heillin góð, því sú bók er ekki nema ein til og ekki gott að ná henni," en þó skrifar Eiríkur bréf og fær Jóni dálítinn trítil og bað hann elta hann hvurt sem hann færi og bera bréfið þar til hann fyndi klett; þar skyldi hann berja á og vita hvort hann yrði nokkurs var.

Fer Jón og eltir trítilinn lengi unz hann stanzar við stein nokkurn. Jón ber á steininn og opnast hann. Kemur út ung stúlka. Jón fær henni bréfið.

Hún sagði það væri til föður síns og fer inn, kemur út aftur og segir: "Þetta er sú versta bón sem faðir minn hefir beðinn verið; hann treystir sér það valla; þó mun hann reyna fyrir orð Eiríks á Vogsósum. Þú kemur inn og verður í vetur hjá mér."

Hann fer inn og er hjá henni um veturinn og unir sér vel.

Þá er mánuður er til sumars segir stúlkan að nú muni faðir sinn fara af stað, en á sumardaginn fyrsta mælti hún: "Farðu nú að finna föður minn; hann kom í gærkveld og hefir bókina, en er þó mjög máttfarinn."

Þau ganga nú til karls; hann lá í rekkju sinni og var mjög lasinn. Hann fær Jóni bókina og bréf til Eiríks prests.

Jón kveður nú karlinn og dóttur hans með blíðu og elti trítilinn heim að Vogsósum og fær Eiríki bréfið; hann las og varð glaður við og mælti: "Farðu nú sem skjótast austur á Eyrarbakka og vertu fljótur til að vaða út í lónið móti bátnum þegar hann kemur og kasta bókinni opinni í fang stýrimanni áður hann kastar sinni bók til þín."

Nú fer Jón austur á Bakka og er hann kom var skipið komið og bátur kom að landi. Jón flýtir sér og veður móti bátnum og kastar bók sinni í fang stýrimanns. Hann brást svo við að bókin hans féll úr barmi hans í bátinn, en hann sjálfur féll fyrir borð og lauk svo hans ævi, en Jón tók bækurnar báðar og færði Eiríki presti, því hann hafði beðið þess. Hann varð þeim feginn mjög og hét Jóni vináttu sinni.

Segir hér ekki af Jóni meira.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - ágúst 2001