Einn tíma bjó sá bóndi á Jörfa í Haukadal er Jakob hét; hann var Eiríksson og faðir þeirra sýslumanna Jóns á Espihóli í Eyjafjarðarsýslu og Halldórs er hafði Strandasýslu. Hann var góður bóndi og vel fjáreigandi.Einn harðindavetur fóru tveir menn að norðan til sjóróðra vestur á land; þeir komu að Jörfa og föluðu mat til kaups að Jakob bónda. Hann kvaðst ei hafa mat til sölu, en gekk þó inn í bæinn og kom út aftur að stundu liðinni með síðu eina mikla og feita, og þótti þeim sem hún mundi vera af nauti; hann fékk þeim síðuna og vildu þeir þegar borga; hann kvað það vel mega bíða til þess þeir kæmi aftur að vestan. Þeir fóru síðan leið sína.
Um vorið fóru menn þessir norður aftur og komu þá enn að Jörfa. Jakob stóð úti þá er þeir komu, og heilsuðu þeir honum; hann tók vel kveðju þeirra og mælti: "Guði sé lof að ég sé ykkur báða lifandi."
Annar þeirra svaraði: "Við hverju þótti þér hætt? Mér finnst ekki margt hafa á bjátað fyrir okkur í vetur."
Bóndi mælti: "Síðan sú er ég fékk ykkur í vetur rak hér upp úr Haukadalsvatni eftir það að öllum ís hafði flett af því í einu vetfangi; er það ætlan manna að síða þessi muni hafa verið af nykur eða vatnahesti."
Þá tók annar maðurinn til orða og mælti: "Guð hjálpi mér og varðveiti mig!" - og datt í sama bili dauður niður.
Hinn maðurinn lét sér hvergi bilt við verða og mælti: "Mig gildir einu hver fjandinn það hefir verið fyrst mér varð gott af því!" - enda er þess ei getið að honum yrði neitt meint við.
En Jakob iðraðist þess mjög að hann sagði þeim hvernig á síðunni hefði staðið.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - ágúst 2000