Í forneskju um það leyti sem kristni var lögtekin á Íslandi var einn sakamaður vestan Snæfellsjökuls sem var dæmdur líflaus og skyldi flytjast út til að aflífast, en þegar hann kom þangað var hann settur í fangelsi þar til honum yrði réttað, og so var honum sagt einu sinni að nú væru ekki nema þrjár nætur þangað til að hann væri af tekinn.Fyrstu nóttina sá hann einhvörja vofu bregða fyrir gluggann, og so aftur aðra nóttina voru enn meiri brögð að því, en daginn þar eftir bað hann fangavaktarann að hafa einhvör ráð með að útvega sér mannsístru, sem fangavaktarinn vildi feginn gjöra, því sá seki kom sér vel við hann, og so kemur hann með ístruna.
Hinn tók við og naggar henni í skósíða léreftsskyrtu og andlit allt og höndur og leggst so fyrir um kvöldið í skyrtunni, en um nóttina kemur vofan ennþá á gluggann einna mest.
Sakamaður kemst þá út um gluggann (kannske með ráðum vaktarans - og fanginn var haldinn fjölvitur) og eltir vofuna og nær henni hjá einum hól.
Hann spur hana so: "Hvör ert þú?"
Hún segir: "Ég er einn af oss, en hvör ert þú," segir vofan.
Maðurinn segir líka: "Ég er einn af oss."
Draugsi þefar so nákvæmlega af manninum og opnar so hólinn og fer so þar inn og maðurinn líka. Draugur fer þar að stórri peningahrúgu og eys þeim upp yfir höfuð sér hvað eftir annað. Maðurinn spurði hvörnin hann hefði eignast alla þessa peninga. Draugsi segist hafa verið ríkur kaupmaður og prangað mikið og grafið þá so alla í þessum hól, og draugsi spyr manninn hvört hann eigi ekki peninga líka til að rísla í.
Maðurinn sagði: "Jú, ég fer nú bráðum líka að rísla í þeim."
Draugsi er samt einlægt að fleygja peningum sínum yfir höfuð sér þar til hann segir: "Það er nú farið að líða undir dag; ætlar þú ekki út?"
Maðurinn segir: "Það er langt til dags ennþá."
So leið stundarkorn. Þá segir draugsi að nú sé komið að degi; maðurinn hefur á móti því, og enn líður lítil stund, þá segir draugsi: "Nú er komið rétt í dögun."
Maðurinn segir það ekki vera. Þá flýgur draugsi á manninn og áttust þeir lengi við þar til ljómaði dagur í drauga augu, en hann sökk þá niður þar við, en maðurinn hlynnti að peningunum og fór so heim í fangelsið.
En um næsta dag átti að taka hann af; þá bað hann að fá að tala við kónginn nokkur orð áður en hann væri líflátinn. Kóngur spurði hvað hann vildi við sig tala. Maðurinn segist ætla að biðja hann að gjöra so vel og koma með sér stuttan veg með so marga menn með sér sem hann vilji sjálfur, því ekki ætli hann að hafa nein brögð í frammi. Kóngur lætur það so vera.
Þeir koma so að hólnum þar sem peningarnir voru, og þá segir maðurinn kóngi alla söguna og segir þar með að kóngur skuli taka so mikið af peningunum sem hann vilji, en ef hann láti sig fá líf og nokkuð af peningunum þá segist hann vera búinn að heita því að gjöra guði eitthvört þægt verk með þeim.
Kóngur spurði hvört það góðverk væri.
Maðurinn segir: "Ef þeir peningar sem ég fæ verða so miklir þá vildi ég láta smíða hér timburkirkju og setja hana á Ingjaldshóli á Íslandi í Snæfellssýslu."
Kóngi líkaði þetta dável og gaf manninum líf og leyfi til þess sem hann vildi, en tók so mikið af peningunum sem hann vildi, og samt er sagt að meira hafi verið eftir en þurfti til musterisbyggingarinnar og alls þess kostnaðar.
Þann veg er sagt að Ingjaldshólskirkja sé með fyrsta til orðin, og þá var hún miklu stærri með fyrsta heldur en hún er nú, því að sagt er að hún hafi tvisvar sinnum verið minnkuð, bæði eftir svartadauða og eftir stórubólu.
Árið 1694 tók kirkjuna ofan að bitum í ofsaveðri, en 1696 var hún byggð upp aftur af því sem aðrar kirkjur gáfu til þess 400 dali.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - október 2000