Ungur bóndi nýkvæntur var að slá í slægju sinni. Það var vellandi hiti og bóndinn var heldur makráður að eðlisfari svo að hann var blóðlatur.Þá kemur til hans maður og segir: "Hvíldu þig, hvíld er góð."
Að svo mæltu fer hann á burt.
Ekki er þess getið hvernig bóndanum leist á manninn en ráð hans lét hann sér að kenningu verða og sló slöku við sláttinn það sem eftir var sumars enda átti hann ekki nema einn heykumbalda um haustið.
Loksins sá maðurinn að hann hafði ekki farið skynsamlega að ráði sínu um sumarið og kenndi ókunna manninum um allt saman.
Einn góðan veðurdag kemur sami maðurinn til hans og segir glottandi: "Latur maður, lítil hey." Svo hvarf hann.
Manninum hughægðist ekkert við komu hans enda þóttist hann vita að hann hefði farið eftir ráðum djöfulsins og einskis annars.
Netútgáfan - maí 1997