Einu sinni fóru menn frá Miðnesi á Suðurnesjum fram í Geirfuglasker. Varð þá eftir af þeim einn maðurinn sem þeir ekki gátu náð vegna brims; var hann nú talinn af. Maður þessi hét Gísli.Árið eftir fóru menn í Geirfuglasker. Var þá sami maðurinn þar fyrir í skerinu heill og lifandi. Fór hann með þeim til lands, en sagði fátt um ársdvöl sína þó hann væri að spurður. Þó varð einhver þess vís af honum að hann hefði verið hjá konum tveim og að sú yngri væri ólétt eftir hann.
Skömmu síðar var hann við kirkju á Hvalsnesi; var þá messufólk margt. Um messutímann vill það til að kona kemur inn á kirkjugólfið og setur þar barnsvöggu með barni í, og var yfir vöggunni rautt klæði. Fer hún síðan út.
Eftir messuna spyr prestur alla í kirkjunni hvort nokkur kannist við barn þetta eða hvort nokkur vilji láta skíra það, en enginn gefur sig fram. Snýr þá prestur sér beinlínis að Gísla sem í skerinu hafði verið og spyr hann hvort hann kannist ekki neitt við barnið eða vilji láta skíra það. Maðurinn neitar því harðlega.
Í sama bili kemur kvenmaðurinn sem með vögguna kom inn og er þá mjög reiðugleg. Átelur hún manninn harðlega þar sem hann eigi henni lífið að þakka, hafi verið hjá henni árlangt og eigi með henni barn þetta, að hann skuli vera sá níðingur að vilja ekki kannast við barnið né láta skíra það. Lagði hún það á að hann í staðinn skyldi verða að þeim versta illfiski á Faxaflóa.
Nú ætlaði prestur að hafa meira viðtal af konu þessari, en hún greip í sama bili barnsvögguna og gekk með hana úr greipum þeim. Sást hún ekki framar, en rauða klæðið varð eftir og var haft fyrir altarisklæði í kirkjunni.
En það er að segja af Gísla að honum varð svo við að hann hljóp í sjóinn, varð að illhveli og grandaði bátum á Faxaflóa; urðu að því mikil vandræði. Loks fengu menn kraftaskáld eitt til að kveða hvalinn upp á land. Kvað hann hann þá upp í Hvalvatn og sést hann þar ekki nema þegar veit á harðindi eða einhver önnur stórtíðindi.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júní 2000