Í þann tíma þá er kirkja stóð enn að Þverá í Blönduhlíð bjó kona nokkur á Yztugrund; hún var ógift og er eigi getið nafns hennar. Hún stjórnaði sjálf búi sínu, en hélt eigi ráðamann svo að getið sé. Þó átti hún gott bú og jörðina með.Þá var það venja svo sem lengi síðan að prestar fluttu aftansöng gamlaárskvöld. Húsfreyja lét jafnan heimafólk sitt allt sækja tíðir þenna aftan, en var sjálf eftir heima. Á þessu lá samt nokkur annmarki, því hvern nýársdagsmorgun spurði hún einhvern heimamanna eftir hvernig á sér stæði. Var það lengi að engi fékk leyst úr þessari spurningu, en sá féll þegar dauður niður er eigi gat svarað.
Einn gamlaársaftan biður húsfreyja fólk sitt fara til kirkju svo sem vandi var til. Það gerði sem hún bað. Þar var þá smaladrengur einn á vist með henni, Jón að nafni. Hann lést og fara með öðrum heimamönnum, en reyndar leyndist hann eftir á hnotskóg og vildi forvitnast um hagi húsmóður sinnar svo hún yrði ekki vör við.
Þegar fólk er allt farið af bænum til tíðanna býr húsfreyja sig í skart svo sem hún skuli einnig til kirkju fara, gengur síðan af stað upp frá bænum og stefnir til fjalls. Drengur fer í hámóti á eftir henni. Þau ganga nú bæði uns hún kemur að borg þeirri upp undan Frostastöðum sem Stóraborg heitir; þar klappar hún í einum stað á bergið; lýkst það brátt upp og kemur út maður. Hann heilsar húsfreyju sem konu sinni með miklum fagnaði. Því næst ganga þau bæði inn í bergið og fær drengur skotist inn á eftir þeim svo að þau verða ei vör við.
Þar sér hann margt fólk inni og sex börn er hann skilur að þau muni eiga, bergbúinn og húsmóðir sín. Allir fagna húsfreyju vel, þeir sem fyrir eru. Er henni nú búin veisla góð með hinum bestu föngum og setjast menn til matar. En yfir borðum fer bóndi að spyrja húsfreyju hvernig henni líði. Hún lætur vel yfir því og kveður það eitt á vanta að engi komi sá er geti frætt sig um hvernig á sér standi. Hún dvelur nú um stund í berginu og skemmtir sér við mann sinn og börn.
En er hún hyggur liðið að því að lokið muni tíðum að Þverá býst hún til heimferðar og kveður mann sinn og börn; þykir þeim allmikið fyrir að skilja. Drengur fekk enn skotist út svo að engi tók eftir honum. Því næst halda þau bæði heim aftur, húsfreyja og drengur, og verður hún ekki vör við för hans.
Nú kemur heimafólk frá kirkju og er þá drengur kominn í för með því. Húsfreyja fagnar vel hjónum sínum svo sem hún átti vanda til. Nú kemur nýársdagsmorgunn og fréttir hún að venju einhvern heimamanna hvernig á sér standi.
Þá verður Jón smali fyrri til svars og segir að hún sé gift kona hér ofan úr Stóruborg og þar eigi hún mann og sex börn. Við þetta varð húsfreyja harðla glöð. Launaði hún Jóni svo þessa sögu að hún gaf honum jörðina og þar með búið allt, en sjálf hvarf hún á brott svo að engi vissi hvað af henni varð.
Hafa menn fyrir satt að þetta muni huldukona verið hafa og þó í álögum nokkurum. Jón bjó lengi síðan á Yztugrund og þótti nýtur bóndi.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júlí 2000