Skip kom á Eyrarbakka eins og einatt hefir við borið. Einn af skipmönnum var finnskur að ætt. Hann hafði meðal annars til sölu flösku eina tóma. Kostaði hún litlum mun meira en vanalegt er að flöskur kosti.Loksins bauðst einn til að kaupa flöskuna; skyldi hann koma með hana að morgni því nú var hún á skipi. Um morguninn kemur Finnurinn með flöskuna, en þá er Íslendingnum snúinn hugur svo hann gengur á móti kaupunum.
Verður þá deila mikil með þeim og loksins hrifsingar; hrekur Íslendingurinn Finninn. Hann grípur þá flöskuna, kastar henni af hendi sem harðast ofan í klappirnar. Hrekkur hún upp á móti og kemur fjærri niður því í henni var sveigjugler. Þetta sá Íslendingur, grípur flöskuna og fer með í burtu án þess hinn hefði nokkuð fyrir.
Um sumarið siglir skip þetta aftur til Noregs, en kemur aftur á næsta sumri. Kemur Finnurinn enn með flösku og biður landsmenn að selja sér á hana konumjólk og kúa, en skipstjórnarmaður gaut því að landsmönnum að gera það ekki, hafa það heldur tíkarmjólk og kattar og var það gjört.
Siglir hann nú með flöskuna og er hjartanlega ánægður.
Nú er bezt að elta hann fram með flöskuna og það allt til Finnmerkur. Þar átti hann móður gamla. Setur hún nú flöskuna með því sem í var milli tveggja potta og seyðir allan veturinn fram að góulokum; geltir þá og mjámar í pottinum. Við það brá henni svo að hún hljóp út og drap sig þegar hún heyrði hvernig hún var prettuð.
Um sumarið fór hann með flöskuna til Íslands og kom þá dæmalaust farald á hunda og ketti. Þannig er hundafárið komið upp sem hér hefir stöku sinnum gengið.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júní 2001