Ég var uppalinn í Hlíð undir Eyjafjöllum í liðug tuttugu ár og heyrði mikið talað um huldufólk þar fjær og nær, þó ég muni fátt af því að skrifa það greinilega. En það, sem ég man og sá sjálfur með mínum eigin augum, vil ég hér tilfæra.Þegar ég var á tólfta ári, var ég á gangi í góðu veðri skammt frá bænum, mig minnir á góu, seint á degi. Sá ég þá, hvar drengur með lítinn sófl í hendinni rekur þrjár kýr og skítugan vetrung að læk rétt fyrir ofan túnið. Kýrnar og vetrungurinn röðuðu sér að læknum og drukku, og drengurinn stendur þar yfir með sófl í hendinni, liðuga hundrað faðma frá mér.
Mér datt strax í hug, að þessar kýr væru huldufólks eign. Þær voru jafnstórar og okkar kýr, rauðskjöldótt, gráhálsótt og svarthuppótt. Svo hættu kýrnar að drekka, og drengurinn rak þær til baka dálítinn spotta þar að grjótgarði, og var þar lítið hlið á honum, og voru tvær kýrnar komnar í gegnum hliðið.
Þá var kallað til mín af bæjarmanni, er sagði: "Hvað ertu að horfa á?"
Og þá leit ég til hans. En er ég leit við aftur að sjá, hvað varð af kúnum, sá ég ekkert, og sá ég þá mikið eftir því, að ég leit af kúnum, því mig langaði að sjá, hvað af þeim yrði.
Þar skammt frá hliðinu eða garðinum var stór steinn grasi vaxinn og stór hola inn undir hann. Okkur krökkunum var alvarlega bannað að fara inn undir steininn eða hafa þar nokkur ólæti, við mundum hafa illt af því, því að þar væri huldufólk.
Í öðru sinni sá ég, hvar kvenmaður var að reka fjórar ær yfir um Húshamra, sem kallaðir eru, fyrir ofan bæinn í Hlíð, og svo rak hún þær yfir annan klett og hvarf þar. Ég þekkti hana ekki, hún átti ekki heima í Hlíð og ekki á bæjunum í kring, því það var huldukona.
(Þjóðsögur og munnmæli - Jón Þorkelsson)
Netútgáfan - nóvember 2000