Einu sinni var karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sér þrjár dætur; þær hétu Signý, Oddný og Helga. Signý og Oddný voru augasteinar karls og kerlingar; en Helgu höfðu þau út undan. Hún fékk ekki annað en ruður að éta eða leifar hinna og ekki annað rúm en öskustóna að liggja í; en allt varð hún að gera sem verst var.Karl og kerling lifðu með dætrum sínum á sjófangi eingöngu og því reri karl einn á báti hvern þann dag sem fært var.
Einu sinni rak á hann ofsaveður svo mikið að hann gat við ekkert ráðið og þá bætti það ekki úr skák að þegar hann er staddur í þessum lífsháska kemur grá loppa og loðin upp á borðstokkinn hjá honum, og er sagt um leið að þetta skuli verða hans síðasta ef hann gefi sér ekki dóttur sína.
Þykist nú karl skilja, að þetta muni vera risi og vinnur það til þó honum þætti það þungt að lofa honum dóttur sinni með því líf hans lá við.
Kyrrir þá sjó svo karl kemst að landi með heilu og höldnu. Síðan kemur hann heim dapur í bragði og fer að éta. Þegar hann er nýkominn inn heyrir hann að regndropar koma á skjáinn; kallar hann þá til Signýjar og biður hana að bregða sér út og taka inn færið sitt.
Signý fer; en þegar hún kemur út er þar fyrir tröllkarl ógurlega stór og ljótur í skinnstakki skósíðum að framan, en uppi á herðarblöðum að aftan, með hordingul ofan á bringu. Hann biður Signýju að kyssa sig; en hún fussar honum og sveiar. Tekur þá risinn hana og fer burt með.
Daginn eftir reri karl og er ekki að orðlengja það að hann kemst í sama lífsháskann og daginn fyrir og vinnur það sér til fjörlausnar að heita risanum annari dóttur sinni. Þegar karl kemur heim og er farinn að éta fer allt á sömu leið og áður svo hann sendir Oddnýju eftir skinnbrókinni sinni sem hann hafði skilið eftir úti. Hún fer og hittir risann eins og Signý og fara svo öll þeirra viðskipti eins og fyrri er sagt.
Þriðja daginn rær karl enn og fer allt á sömu leið, að hann heitir risanum dóttur sinni. Þegar hann kemur heim og heyrir hrjóta úr honum á gluggann skipar hann Helgu að fara út eftir skinnstakknum sínum og sagði að farið hefði fé betra en hún þó hún færi sömu leið og systur hennar.
Helga fór og sá risann. Hann bað hana að kyssa sig og það gerði hún. Síðan tók hann hana og bar hana burt í helli sinn; hann var í Dumbungsdal. Þar var Helga um stund hjá risanum og matbjó fyrir hann. Risinn lét hana ekki illa. Helga fann þar í afhelli einum systur sínar báðar horaðar og hart leiknar. Hún hressti þær eins og hún gat og hjörnuðu þær bráðum.
Eftir þetta fer risinn að manga til við Helgu að eiga sig og hafði hún engin aftök um það. Þegar risinn hafði fengið vilyrði hennar fór hann að búast við brullaupi þeirra og drepur stóran uxa sem hann átti. Þá bað Helga hann að aumkvast yfir foreldra sína og gefa þeim nokkuð af uxanum og tók hann vel undir það. Hún sagðist þá ætla að taka vömbina úr uxanum og láta þar í mat handa karli og kerlingu, en bað hann svo að halda heim á vömbinni; og hét risinn henni því.
Daginn eftir lét Helga báðar systur sínar fara í vömbina og lét ofan á þær ýmsan mat meðan risinn var ekki við. Þegar hann kemur heim biður Helga hann að halda nú á vömbinni heim í karlskot og láta hana síga inn um eldhússtrompinn í kotinu, en leggur ríkt á við hann að skoða ekki í vömbina því hún sæi í gegnum fjöll og steina. Lofar hann henni góðu um það og fer svo á stað með vömbina.
Þegar hann er búinn að bera hana býsna lengi setur hann af sér byrðina og hvílir sig; þykir honum vömbin æði þung og er rétt kominn á flugstig með að fara að rífa upp úr henni. En þá koma honum í hug ummæli Helgu og segir:
- "Aldrei skal ég í belginn bauka
- þó brotni í mér hryggurinn;
- glöggt er auga í Helgu minni,
- hún sér í gegnum fjöll og steina."
Heldur risinn svo áfram og kemur vömbinni heim í karlskot, lætur hana síga niður um eldhússtrompinn og fer svo heim aftur.
Daginn eftir segir risinn við Helgu að hún skuli nú undirbúa allt til brúðkaupsins um daginn og vera búin að bera mat á borð, klæða sig og vera setst á bekkinn um kvöldið þegar hann komi heim því nú ætli hann út að bjóða.
Fer svo risinn, en Helga verður eftir og býr allt undir til veislunnar. Þegar hún er búin að ljúka öllu af sem hún átti að gera tekur hún trédrumb, klæðir hann í brúðarfötin sín og setur í bekkinn þar sem brúðarsætið var og segir við hann: "Svaraðu fyrir mig orði ef mér liggur á."
Síðan fór hún í einhverja ræfla og nýr sig sóti í framan, tekur poka og lætur í hann það sem fémætast var í hellinum og ber hann á bakinu. Þegar hún var komin skammt frá hellinum mætir hún risanum með fjölda boðsmanna; voru það þussar og ýmislegt illþýði og reið það gandreið á hrosshausum og hrosskjálkum.
Brúðguminn var í fararbroddi og segir þegar hann mætir Helgu:
- "Komstu í Dumbungsdal
- þar drekka skal?
- Var matur kominn á borð
- og brúðurin setst í bekkinn?"
Helga kvað já við.
Þá segir risinn: "Ríðum við, skellum við."
Síðan heldur þessi óþjóðalýður til hellisins og heilsar upp á brúðina. Hún tók því, en heldur dræmt.
Risinn segir: "Er nú allt til reiðu?"
Hún segir já.
Ætlar þá risinn að fara að tala meira við hana; en hún gegnir engu. Blakar nú risinn hana hendi þegar hún gegnir ekki. En drumburinn valt um koll.
Ærðust þá tröllin að risinn hefði drepið brúðina, en sum tóku hans taum og sögðu að honum hefði verið það vorkunn þar sem hún hefði ekki viljað ansa honum. Af þessu urðu áflog og ryskingar í hellinum og lauk svo að tröllin drápu hvort annað svo ekki stóð eitt uppi.
Eftir þetta afstaðið fór Helga heim í karlskot og eignaðist allar eigur risans; síðan kom kóngssonur utan úr löndum og átti hana. Unnust þau bæði vel og lengi og búin er sagan.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - janúar 1999