STÓRKONAN  Í  HÓLKNARDAL



Maður er Jón nefndur; hann var ættaður norðan úr Skagafirði; þaðan kom hann á árunum 1760 til '65. Vistaðist hann við Steingrímsfjörð, en ógjörla veit ég á hvurum bæ. Jón kvongaðist og átti son er Guðmundur hét; giftist sá í Bitrusveit og átti mörg börn.

Guðmundur bjó fyrst að Brunngili; sá bær er í dalsmynni nokkru fram af Bitrufirði. Er sá dalur kallaður Hólkonu- eða Hólknardalur; er hann mjór og gljúfur víða í honum. Var það í orði þegar Guðmundur kom að Brunngili að tröllkona nokkur byggði í dalnum. Lagði hann lítinn trúnað á sögur þær og fór jafnan einn í grasaleit á dalinn. Líður so hið fyrsta sumar að hann verður ekki var neins.

Það var um haustið að þoku gjörði með hlýviðri; fer Guðmundur einn til grasa sem hann er vanur. Líður dagur til þess tekur að kvelda; fer hann þá að halda heim.

En er hann hefur gengið skammt eitt sér hann konu stóra og hefur sú tágahatt mikinn á höfði. Ekki vill Guðmundur verða á vegi hennar og snýr til hliðar, en hún kemst fyrir hann og kallar: "Flýr þú nú, Gvöndur!"

Kastar hann þá grasapokanum og hleypur sem kann, en jafnframt hneppir hann niður brókum sínum. En þegar því er af lokið nemur hann staðar og sýnir henni sig beran.

Varð kellingu so kynlegt við að hún segir: "Ódámur, ódámur! Fussum, fussum!"

Kastar hún hatti og hleypur til baka, en Guðmundur hirðir kúfinn kellingar og átti lengi síðan; tók hann jafnmikið og lagartunna. Var hann hafður fyrir grasaílát meðan entist.

Um vorið flutti Guðmundur að Steinadal og bjó þar lengi; varð blindur um mörg ár og er nú dauður fyrir fáum árum.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - október 1999