HIMNAFÖRIN



Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu sér eina dóttur. Ekkja bjó í koti sínu. Hún átti sér son. Kóngur hafði lofað hverjum þeim dóttur sinni, sem segði sér það, sem hann tryði eigi. Strákur tók sig til, er margir höfðu reynt, og bauðst að segja kóngi sögu. Hann hóf svo sögu sína:

"Ég var eitt sinn hjá móður minni í eldhúsi. Hún þeytti flautir og heldur mikilfenglega, unz flautastöpullinn náði upp um eldhússtrompinn og allt upp til himna. Þá tók ég eldhússkörunginn móður minnar og pjakkaði mig með honum upp til himna."

"Hvað var þar starfað?" spyr kóngur.

"Frelsarinn bar upp hey, sankti Pétur flutti heim heyið á rauðkúfóttri meri, María bakaði brauð og gaf mér eina brauðköku.

Síðan leitaði ég til baka, og þegar ég kom á himnabarminn, settist ég niður og tók að leita mér lúsa, tók úr þeim allar garnirnar, hnýtti þær saman á festi, batt festarendann við himnabarminn og síðan rann ég ofan festina.

Þegar hún var á enda, sá ég naut vera að drekka við læk beint fyrir neðan mig. Þá voru tíu faðmar til jarðar. Ég sleppti festinni, en með því nautin höfðu orðið mín vör á skriðinni ofan, höfðu þau litið upp, og lenti ég í kjafti eins nautsins, það var langstærsta nautið. - En þér áttuð öll nautin, konungur. -

Þegar ég var ofan kominn í nautið, var þar fagurt um að litast, og gekk ég herbergi úr herbergi aftur eftir nautinu. Síðast kom ég í herbergi eitt, það var langskrautlegast. Þar sátu tólf við borð, og voruð þér innstur, herra minn."

"Það lýgur þú," sagði konungur, "aldrei hef ég í nautsrassi verið." Fékk strákur þannig konungsdóttur.



(Þjóðsögur Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - desember 2000