SAGAN  AF  HELGU  KARLSDÓTTUR



Einu sinni var karl og kerling í koti. Þau áttu þrjár dætur, sem hétu Ása, Signý og Helga. Tvær hinar eldri voru hinar mestu státsmeyjar og bárust mikið á. Bjuggust þær á hverjum degi við tignum og ríkum biðlum, en sammála voru þær um það, að óhætt væri að hryggbrjóta nokkra þá fyrstu sér til gamans, - nógir mundu samt bjóðast, þegar þar að kæmi. Helga var þeirra yngst og var höfð út undan, var látin vinna verstu stritverkin á heimilinu og klæðast slitnum görmum af systrum sínum. En engum þeim, sem sá þær systur, blandaðist hugur um það, að Helga var þeirra fegurst og gervilegust. Það datt þeim systrum hennar sízt í hug, og sjálf vissi hún það ekki heldur.

Einn morgun var Ása að sækja sér þvottavatn í brunninn. Þá sá hún allt í einu undurfagra kvenmannsásjónu speglast í vatninu. Horfði hún hugfangin á hana um stund og mælti við sjálfa sig: "Þess vildi ég óska, að ég væri svona fríð."

Þá leit hún upp aftur og sá hjá sér standa konu eina fagra og tígulega. "Vildir þú vera svona fríð?" spurði konan.

"Já," svaraði Ása, "ég vildi allt til þess vinna."

"Þá skaltu koma með mér," sagði konan, "en þú verður þá líka að gera allt, sem ég bið þig." Ása játaði því, og þá leiddi konan hana með sér út í skóg. Gengu þær nokkra stund, þangað til þær komu að háum hól. Dyr voru á hólnum, og gengu þær rakleitt inn í hann. Voru þar húsakynni harla fögur og rúmgóð. Konan veitti Ásu bæði mat og drykk, en leiddi hana síðan að vefstól, sem stóð þar með marglitum vef. Bað konan hana að vefa áfram og fella fyrir sig vefinn. Lofaði Ása því og tók þegar til starfa. En af því að hún kunni ekkert til vefnaðar, tókst svo illa til, að hún ónýtti vefinn.

Þá mælti konan: "Þetta fórst þér illa, en það gerir minnst til, ef þér ferst annað verk betur, sem meira varðar. Nú langar mig til að biðja þig að mjólka kýrnar mínar, og þótt einhverjar skepnur komi og vilji sleikja froðuna ofan af fötunni hjá þér, þá máttu ekki amast við því, - og mundu það lengst allra orða."

Ása staðlofaði því, fór með fötu út í fjósið og fór að mjólka kýrnar. Þegar hún hafði lokið því verki og setti fötuna frá sér, kom þar að afar stór og ljótur fressköttur og fór að sleikja froðuna af mjólkinni. Þá komu líka margar rottur og mýs og sýndu sig í því sama. Þá varð Ása fokreið og barði þetta hyski með svuntu sinni, svo að það þaut dauðhrætt sitt í hverja áttina. Færði hún síðan konunni mjólkurfötuna og sagði henni, hvernig farið hefði. "Þá efndir þú loforðið miður en skyldi," sagði konan alvarlega. "Það er vandséð, hvort þú getur orðið fríðari en þú ert nú. En hvort sem það verður eða ekki, þá skaltu fá kistil þenna að verðlaunum. Máttu ekki opna hann fyrr en á brúðkaupsdegi þínum." Síðan rétti konan Ásu grænan kistil, en hún varð himinglöð, þakkaði konunni fyrir og skundaði heim til sín. Sagði hún foreldrum sínum og systrum frá því, sem fyrir hana hafði borið, sýndi þeim kistilinn og kvaðst vera viss um, að í honum væri dýrindis kyrtill og aðrar gersemar, sem færu henni svo vel, að hún yrði fegursta brúður, sem sézt hefði á landi hér.

Signý öfundaði systur sína mjög og einsetti sér að ná fundi konunnar tígulegu, ef unnt væri. Fór hún einn morgun út að brunninum til þess að sækja þvottavatn og sá þá í vatninu hina sömu yndisfögru kvenmannsásjónu, sem Ása hafði séð. Er ekki að orðlengja það, að það fór allt á sömu leið um hana eins og Ásu, að hún fór með konunni í hólinn, ónýtti vefinn, mjólkaði kýrnar og rak kvikindin í burtu, þegar þau ætluðu að sleikja froðuna ofan af fötunni. Konan hafði hin sömu orð og áður um verk hennar, gaf henni kistil bláan og sagði henni, að hún mætti ekki opna hann fyrr en á brúðkaupsdegi sínum. Signý kvaddi konuna og kom heim hin kátasta. Voru þær eldri systurnar tvær í sjöunda himni yfir kistlum sínum og létu þau tíðindi berast, að í þeim mundu vera hinir dýrustu gripir, gull og gersemar. Fréttist þetta víða, og urðu margir til að leita ráðahags við þær, en þær voru vandlátar í vali og hryggbrutu marga, Að síðustu tóku þær tveimur ríkismannasonum, og stóðu nú ósköp til fyrir þeim.

Það er af Helgu að segja, að hún var alltaf látin vera sama olnbogabarnið, og auk þess voru systur hennar að gabba hana og stríða henni á því, að ekki ætti hún neinn kistilinn og aldrei mundi nokkur ærlegur maður verða svo heimskur að biðja hennar. Helga bar þetta með mestu þolinmæði og anzaði því engu orði. Svo var það einn dag, að hún var að sækja vatn í brunninn. Þegar hún laut niður eftir brunnfötunni, sá hún allt í einu í vatninu hina sömu ásjónu og systur hennar höfðu séð áður. Helga horfði með aðdáun á hana drykklanga stund, en þá var sagt að baki hennar: "Langar þig ekki til að vera svona fríð?"

Helga leit við og sá þá, að hjá henni stóð hin tígulega kona, sem farið hafði með systur hennar í hólinn. "Því ekki það?" svaraði Helga. "En mér er nú varla ætlað svo gott," bætti hún við og leit niður fyrir sig.

Konan bauð henni að fara með sér til híbýla sinna, og þá Helga boðið. Gengu þær nú, þar til þær komu í hólinn, og þótti Helgu þar fagurt um að litast. Konan bað hana að ljúka við vefinn og fella hann af. Tók Helga þegar til starfa, gekk verkið greiðlega og vel, svo að hún hafði lokið því á stuttri stundu.

"Vel fórst þér verkið," mælti konan vinsamlega, "og mun svo fleira eftir fara, ef ég get rétt til. Nú langar mig til að biðja þig að mjólka kýrnar mínar, og ef einhver kvikindi koma, sem vilja lepja froðuna af fötunni, þá þætti mér vænt um, að þú amaðist ekki við því." Helga lofaði því og fór svo í fjósið. Þegar hún hafði lokið við að mjólka kýrnar og sett fötuna á fjósstéttina, kom stór og úfinn fressköttur og margar mýs og rottur. Settist þetta hyski að fötunni og fór að lepja froðuna, en Helga lét sér það vel líka, strauk kettinum og lék við mýsnar og rotturnar. Létu kvikindin vel að henni og hlupu ánægð í burtu, þegar þau höfðu lapið nægju sína. Síðan skilaði Helga konunni fötunni og sagði henni, hversu farið hafði.

"Vel gerðir þú," sagði konan, "og ekki skulu verk þín vera vanlaunuð af minni hendi, ef ég má mín nokkurs." Þá leiddi hún Helgu inn í skrautlegt herbergi. Var þar fyrir maður tígulegur og mörg yndisleg börn. "Þarna sérðu manninn minn og börnin mín," mælti konan. "Þú ein hefur borið gæfu til að frelsa þau úr hryllilegum álögum, sem á þeim hvíldu. Fyrir stuttri stundu voru þau köttur, mýs og rottur, sem leituðu að fötunni hjá þér til að sleikja froðu. Svo stóð á, að maðurinn minn varð fyrir reiði álfakóngsins, sem í refsingarskyni breytti honum í fresskött, en börnunum okkar í mýs og rottur. Áttu þau ekki að komast úr þeim álögum, fyrr en óspjölluð, mennsk mær léti vel að þeim. Sú refsing átti að nægja mér sjálfri að þurfa að horfa upp á eymdarástand manns míns og barna, en auk þess var mér fenginn vefur, sem ég aldrei átti að geta lokið við og fellt af, fyrr en hin sama mennska mær rétti mér góðfúslega hjálparhönd við verkið. - Nú hefur þú frelsað okkur öll úr böli og bágindum, og muntu verða hin mesta fríðleiks- og gæfukona. Vil ég gefa þér kistil þenna, en ekki máttu opna hann fyrr en á brúðkaupsdegi þínum." Þá rétti konan Helgu kistil rauðan og bað hana vel njóta. Síðan kvaddi Helga álfahjónin og börn þeirra með þökkum og fór heim í kotið til karls og kerlingar. Sýndi hún þeim kistilinn, en lézt ekki halda, að í honum væru neinar dýrar gersemar. Systur hennar þóttust líka fullvissar um, að í sínum kistlum væri miklu meira fé fólgið. Leið nú að því, að eldri systurnar giftu sig.

Einn dag bar þar að garði ungan mann og snyrtilegan. Leitaði hann ráðahags við Helgu, og af því að henni geðjaðist vel að manninum, tók hún bónorði hans, þótt hann væri fátækur og lítillar ættar. Göbbuðu systur hennar hana fyrir lítilfjörlegan unnusta, en Helga lét, sem hún heyrði það ekki. Var nú ákveðinn brúðkaupsdagur þeirra systra þriggja, og var mörgum boðið. Hlökkuðu eldri systurnar ákaflega mikið til að skrýðast hinum dýru kyrtlum, sem þær þóttust vissar um, að væru í kistlum sínum, en Helga lét sér hægt um.

Opnuðu þær systur allar kistla sína í sama mund, og skein eftirvæntingin og forvitnin af hverju andliti. Upp úr kistlum eldri systranna spruttu eiturnöðrur, sem stukku upp í andlit þeirra og bitu þær í nefin, svo að þær hljóðuðu upp. Blésu nef þeirra og andlit upp, og urðu þær á stuttri stund svo ferlegar ásýndum, að festarmenn þeirra fylltust ótta og viðbjóði, stukku burtu án þess að kveðja og létu ekki sjá sig framar. En í kistli Helgu var hinn dýrasti kyrtill, alsettur gimsteinum og perlum, svo að ljómaði af skrautinu. Auk þess var í honum allmikið fé í gulli og silfri. Þegar Helga klæddist kyrtlinum, var hún svo fögur ásýndum, að allir féllu í stafi, og þóttust aldrei slíka brúði séð hafa. Var slegið upp hinni veglegustu veizlu, og að því búnu fór hún heim með manni sínum. - Unnust þau vel og lengi, urðu hinar mestu gæfumanneskjur og þjóðfræg fyrir rausn og góðgerðasemi. En það er af þeim systrum, Ásu og Signýju, að segja, að þær voru jafnófríðar alla ævi, svo að enginn lifandi maður vildi líta við þeim. Tóku þær sér það mjög nærri, og versnaði skap þeirra því meir, sem þær eltust. Lentu þær í mesta basli og bágindum og hefðu vafalaust lognazt út af vegna skorts og vanþrifa, ef Helga systir þeirra hefði ekki jafnan bætt úr brýnustu þörfum þeirra.

Lýkur svo sögu þessari.



(Þjóðsagnasafnið Gríma)

Netútgáfan - janúar 2000