HEIMSKAR  KERLINGAR



Bóndi nokkur átti kerlingu grunnhyggna. Einhverju sinni sendi bóndi kerlingu sína af stað með hænu og kú og bað hana selja. Kvað hann kúna mega kosta sextán ríkisdali, en hænuna sextán skildinga.

Kerling leggur nú af stað og býður kúna fyrst fyrir sextán skildinga. Þykir það gjafverð, og er hún strax keypt. Þá býður kerling hænuna fyrir sextán ríkisdali, og þykir það óhæfa, og vill enginn kaupa. Er þá ei sagt af ferðum kerlingar, fyrr en hún tekur gistingu á bæ einum. Er henni vísað að sofa þar á fiðursæng.

Um morguninn, er kerling vaknar, er hún fiðruð mjög. Hyggur hún sig örn orðna, tekur hænu sína, fer upp á bæjarburst og ætlar að fljúga heim. Í þessum svifum ber þar að bónda hennar og spyr hann, hverju þetta sæti og hvar kýrin sé. Kerling segir sig orðna að erni, en kúna kveðst hún hafa selt og fær honum sextán skildinga. Bóndi verður æfur af flónsku kerlingar og kveðst ei munu linna, fyrr en hann hafi fundið þrjár aðrar kerlingar jafnvitlausar henni.

Leggur hann nú af stað, og er ei sagt af ferðum hans fyrr en hann kemur að kofa einum. Sér hann þar kerlingu, ber hún eitthvað í svuntu sinni inn í kofann og kemur jafnharðan út aftur. Bóndi spyr, hvað hún hafi fyrir stafni. "Myrkur er í kofa mínum," segir kerling, "og er ég að bera inn birtuna og vinnst seint."

"Hverju viltu launa," segir bóndi, "ef ég kem birtu í kofa þinn?"

"Því vil ég launa öllu, sem ég get," segir kerling. Gerir hann þá glugga á kofann, og kemur við það nóg birta, en kerling gefur honum stórfé.

Heldur bóndi nú þaðan, og ber ei til tíðinda á leið hans, fyrr en hann kemur á bæ nokkurn. Þar sér hann kerlingu, hún hefur barefli í höndum og lemur því af kappi í höfuð manni sínum. Bóndi spyr, því hún geri svo. Kerling segist vera að færa hann í skyrtu, en það gangi illa. Hún komi ekki skyrtunni ofan fyrir höfuðið, þó að hún slái á. Sér þá bóndi, að ekkert op er á skyrtunni, og spyr hann kerlingu, hvort hún vildi nokkru launa, ef hann kæmi karli í skyrtuna. Hún kveðst vilja miklu launa. Gerir bóndi þá op á skyrtuna og færir karlinn í, og kemur þeim saman um að gefa bónda stórgjafir, því að karlinn varð líka feginn lausninni.

Heldur bóndi nú áfram, unz hann kemur á bæ nokkurn. Þar búa hjón gömul, er kerling heima, en karl ei. Kerling spyr bónda, hvaðan hann sé. Hann kveðst vera úr Hringaríki.

"Ertu úr himnaríki?" segir hún.

"Já," segir hann þá, og vill nú freista, hve vitlaus kerling er. Kerling hafði áður verið gift tvisvar og hétu hvortveggja maður hennar Pétur. Svo hét og sá, er hún nú átti. Verður kerling nú glöð, er hún heyrir, að maður þessi er úr himnaríki og kveðst nú sér til gamans ætla að spyrja hann um Pétrana sína sælu. "Hvernig líður nú Pétri mínum fyrsta?" segir kerling.

"Honum líður báglega," segir bóndi, "hann er klæðlaus, eins og þú vissir, og fær hvergi inn að skríða."

"Bágt er það að heyra," segir kerling. "Góður var hann við mig." Tekur hún þá bagga mikinn af fötum og peningapoka og biður bónda að færa Pétri hinum fyrsta. "En hvernig líður Pétri hinum öðrum?" segir kerling.

"Honum líður líka illa," segir bóndi. "Röltir hann um götur og fær hvergi inni og er nú skólítill og klæðfár."

"Þungt er það að spyrja," segir kerling. Tekur hún þá hesta tvo, rauðan og brúnan, og það, sem hún átti eftir af peningum og biður bónda að færa Pétri öðrum, Leggur nú bóndi af stað með sendingarnar.

Þegar hann er kominn á hæð nokkra skammt frá bænum, kemur Pétur hinn þriðji heim. Sér hann manninn á hæðinni og þykist þekkja hesta sína hina vænu. Spyr hann nú kerlingu sína, en hún segir allt hið sanna. Þykir nú Pétri hafa sópazt um í kotinu og verður æfur við í fyrstu og vill fara eftir manninum og ná eigum sínum, en kerling biður hann að gera ei slíkt og kveður hann sjálfan munu gott af hljóta, þá er hann komi til himnaríkis. Segir hún og allt nú um seinan, því að maðurinn muni til himins kominn. Karl lætur þá teljast, og þykja honum ei ólíkleg orð kerlingar, einkum af því að hann sá manninn síðast bera við himin, og lætur nú svo vera.

En það er frá bónda að segja, að hann heldur heim með gróðann allan og þykist nú vel hafa fengið bætta flónsku sinnar kerlingar með flónsku hinna kerlinganna.



(Þjóðsögur Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - desember 2000