HULDUKONUHEFNDIN



Innan til í N . . firði bjó ekkja ein, er Ketilríður hét; hún var mesti búforkur og atorkukona, en nokkuð þótti hún einþykk og þétt í lund. Ketilríður þessi átti son einn, Sæmund að nafni; hann var einbirni og kominn undir tvítugt, er saga þessi gerðist. Nokkuð agasöm hafði Ketilríður þótt við Sæmund í uppeldinu, og kom það snemma fram í fari hans; hann varð fáskiptinn og fálátur og fór jafnan einförum; ágerðist þetta nokkuð með aldrinum.

Svo háttaði til þar, er Ketilríður bjó, að það var nærri sjó, og gengu dimmir drangar út með lendingunni. Var það mál manna, að huldufólk byggi í dröngum þessum, og var það ekki fjarri Ketilríði sjálfri að festa trúnað á það.

Nú lagði Sæmundur einmitt tíðast leið sína niður að dröngunum, og sáu menn það til hans, að hann var oft að klifra þar í klettunum. En ofan til í dröngunum var skál í hamrana, og þegar þar var komið, hvarf maður sjónum, því klettabogi lukti fyrir landmegin. Þessi skál var uppáhalds áfangastaður Sæmundar; þar dvaldi hann löngum, stundum daglangt, og ágerðist það svo, að heita mátti, að hann hefði alltaf annan fótinn niðri í dröngum.

Ketilríði hugnaðist lítt, þegar á leið, atferli þetta, og einn góðan veðurdag tók hún son sinn á eintal og gekk fast á hann, - bað hann segja sér, hvað hann hefðist þarna að öllum stundum. Sæmundur sagði fátt af, en lét sem sér þætti skemmtilegt að sitja uppi í skálinni; sæti hann þar ýmist í eigin hugleiðingum eða hann væri að "dunda" eitthvað í höndunum, t. d. að tálga spýtu, eða hann sæti aðgerðarlaus og horfði út á fjörðinn. Ketilríði leist þetta allótrúlegt, en fékk ekkert frekar upp úr honum og lét það því gott heita.

Sæmundur fór sínu fram eftir sem áður, en hagaði því þó helst svo, að móðir sín vissi ekki af, er hann færi frá bænum. Ketilríður hafði samt vakandi auga á honum, þótt lítið bæri á, og einu sinni, er hún sá Sæmund hverfa upp í skálina, fór hún í humátt á eftir honum, ef verða mætti, að hún yrði einhvers vísari. Hún læddist upp í skálina, en þar var Sæmundur hvergi; heyrði hún þá mannamál úr berginu og þóttist þar kenna rödd sonar síns; var hann venju fremur blíðróma, enda var það þýð stúlkurödd, er undir tók. Ekki heyrði Ketilríður orðaskil, en þó þótti henni nú tekin af öll tvímæli um athæfi Sæmundar.

Ketilríður fór nú leiðar sinnar heim; hún hafði ekki mörg orð í frammi við Sæmund, er hann kom heim seinna um daginn, en morguninn eftir mannaði hún bát og sigldi alla leið út eftir firði. Hún linnti ekki ferðinni, fyrr en hún kom að ysta bænum í firðinum.

Þar bjó röskur maður og velmegandi, er Björn hét, og átti hann eina dóttur barna, Helgu að nafni. Þau Helga og Sæmundur voru fermingarsystkin og höfðu gengið saman til prestsins.

Nú skiptir það engum togum, að þegar Ketilríður kemur að máli við Björn bónda, hefur hún bónorðs og biður Helgu til handa syni sínum. Björn tekur því alllíklega og eins dóttir hans, en það þykir mönnum kynlegt, að sjálfur biðillinn skuli ekki vera með í förinni. Ketilríður hefur þar skjót svör um og segir, að hann sé nú ekki þesslegur, hann sonur sinn, að hann hafi einurð á að biðja sér stúlku, en sjálfur skuli hann þó sækja Helgu að hálfsmánaðarfresti, ef hún lofist honum og vilji koma í kynnisför til tilvonandi tengdaforeldra sinna, Helga fái víst leyfi til að vera mánaðartíma eða svo hjá sér og unnustanum.

Það er ekki að orðlengja það: Helga er þarna föstnuð Sæmundi og ákveðið, að hann skuli sækja hana á tilteknum tíma. Síðan situr Ketilríður í góðu yfirlæti hjá Birni það, sem eftir var dags, og fer heim að morgni.

Þegar heim er komið, tekur hún enn son sinn á eintal og segir honum hið ljósasta af ferðum sínum. Honum fellur þá allur ketill í eld og gengst nú við því, að hann sé í þingum við huldumey þarna niðri í dröngunum og að hann hafi lofað að eiga hana; hann vilji ekki fyrir nokkurn mun missa hana og geti því ekki lofast Helgu.

Ketilríður segir, að það loforð sé nú veitt, sig hafi lengi grunað þennan - eins og hún tiltekur; hún les nú yfir honum ófögur orð, en lýkur svo ræðu sinni, að eins og hann þekki, þá verði við það að standa, er hún hafi gert fyrir hans hönd; hún hafi gert honum það til góðs eins - og hann eigi nú að sækja Helgu að hálfum mánuði liðnum. Svo slíta þau talinu.

Sæmundi þykir nú súrt í brotið, en sér, að hann muni verða að láta síga undan ofríki móður sinnar, og eitthvað kynni þó heldur að verða undanfærið síðar, hyggur hann, ef hann sæki stúlkuna orðalaust og láti sem líklegast. Nánar gætur voru hafðar á því, að Sæmundur kæmist ekki einsamall niður að dröngunum eftir það.

Nú kemur sá dagur, að Sæmundur á að sækja Helgu. Ketilríður mannar út bát og segir formanni, að hann skuli reyna að sæta góðu veðri heim aftur og fara ekki af stað seinna en um dagmálabil, svo að hann nái vel heim í björtu. Hún biður hann að muna sig vel um þetta, og hann lofar því; síðan kveður hún son sinn og er þá venju fremur blíð í bragði og klökknar við kveðjurnar.

Leggja þeir nú af stað að heiman, verða vel reiðfara og lenda heilu og höldnu hjá Birni um kvöldið. Þar fá þeir góðan greiða og dvelja þar til morguns. Að morgni er gott veður og stillt, og hyggja menn vel til ferðarinnar, en Helga verður síðbúin, og líður svo fram að hádegi, að hún er ekki tilbúin. Formanni koma þá til hugar orð Ketilríðar og er nú á báðum áttum, hvort hann eigi að leggja af stað, en það ríður baggamuninn, að veðrið var alveg jafngott og um morguninn og að hann á hinn bóginn áleit þetta óþarfa varúð úr Ketilríði, af því að illt var að lenda við drangana í dimmu.

Laust eftir hádegi er Helga albúin, svo að formaður leggur af stað með hana og Sæmund. Segir ekki af ferðum þeirra, nema það fer að blása lítið eitt á móti; seinkaði það ekki alllítið förinni, svo að auðsætt var, að síðlent mundi verða; þó heldur formaður áfram öruggur.

Nú snýr sögunni heim á bæinn. Það var farið að dimma, og ekkert sást enn til bátsins; þó þótti ekki alveg útséð um, að hann kæmi, vegna þess að hann var á móti þeim og hvessti heldur, er að kvöldi leið. En þegar þeir voru enn ókomnir um náttmálaleytið og niðamyrkur orðið, þá taldi Ketilríður það alveg frá, að þeir hefðu farið af stað um morguninn, og skipaði hún hjúum sínum að ganga til svefns.

Sjálf fór hún inn í svefnloft sitt og háttaði. Ekki gat hún sofnað, en á hana sé óviðkunnanlegur höfgi, svo að hún var rétt á milli svefns og vöku. Eftir nokkra stund þykist hún sjá, að ung stúlka fölleit kemur á skjáinn yfir rúmi hennar og fer að einblína á hana, þó heldur raunalega. Ketilríði verður svo við þetta, að henni finnst sem hún sé hneppt í fjötra; hún getur hvorki hrært legg né lið og langar þó til að fara á fætur; en ekki er um það að tala; augnaráð stúlkunnar hvílir á henni eins og eitthvert heljarfarg, sem hún getur ekki undan risið.

Þegar stúlkan hefur horft svona á Ketilríði nokkra stund, mælir hún vísu þessa af munni fram, dræmt og raunalega:

"Hér í vörum heyrist bárusnari,
höld ber kaldan ölduvald á faldi,
sveltupiltar söltum veltast byltum,
á sólarbóli róla í njólu gjólu;
öflgir tefla afl við skeflurefla,
sem að þeim voga - boga - toga - soga!
En sumir geyma svíma í draumarúmi,
sofa ofurdofa í stofukofa."

Þegar stúlkan hafði farið með vísu þessa, hvarf hún af glugganum, og þá gat Ketilríður loksins risið á fætur. Þóttist hún af vísunni fara nærri um, hvað um væri að vera. Hún fleygði sér í fötin í dauðans ofboði, kallaði á pilt, sem var heima fyrir, og sagði honum að klæða sig hið allra bráðasta og koma niður að sjó. Sjálf fór hún út í mesta flýti, og var þá komið aftakaveður.

Þegar hún kom niður að sjónum, fann hún bát sinn brotinn í spón í malarkampinum, og rétt hjá, inn undir dranganum, kom hún auga á hrúku einhverja. Það var Helga, er sat á hækjum sínum í fjöruborðinu; hún var orðin vitskert; en fyrir framan hana lá Sæmundur rotaður, með heilann úti. Ekkert sást til hinna mannanna. Pilturinn, er Ketilríður hafði vakið, var kominn niður eftir; skipaði hún honum nú að bera Helgu heim, en sjálf tók hún lík Sæmundar í fang sér og bar til bæjar.

Ketilríði gömlu féllst svo mikið um þetta, að hún lagðist í rekkju og reis aldrei úr henni síðan. Skömmu fyrir andlát sitt sagði hún frá því, sem fyrir hana hafði borið þá um kvöldið og áður er greint. Einnig sagði hún frá því, að áður en hún sendi Sæmund til að sækja Helgu, hafi sig dreymt konu eina mikla vexti, er sagðist vera huldkona úr dröngunum; hún ætti dóttur þá, er Sæmundur hefði lofast, en Ketilríður ætlaði að fá hann til að svíkja, og því væri hún nú komin til að segja henni, að það skyldi aldrei lánast eða ella kosta líf Sæmundar. Út af þessum hótunum kvaðst Ketilríður hafa lagt svo ríkt á við formanninn að gæta vel veðurs og fara árla á stað; en þetta hafi nú brugðist sér og svo farið sem sagan tér; huldukonan hafi sent dóttur sína til að varna sér vöku og koma í veg fyrir, að Sæmundi yrði bjargað. Þannig sagðist Ketilríði frá.

Hún dó upp úr þessu, en þegar frá leið, fór Helga að ná vitinu aftur, og sagði hún frá því síðar á ævi sinni, hvernig báturinn fórst. Þau höfðu haft hann á móti allan daginn, og svo hafði hann rokið á um kvöldið, er þau nálguðust land, en formaðurinn vildi ekki láta þess ófreistað að lenda. Þegar þau komu inn undir drangana, sáu þau, hvar kona, há og mikil vexti, stóð uppi á klettunum; hafði það þau áhrif á formanninn, að hann ærðist og stökk frá stjórn. Kvað Helga konu þessa hafa þulið einhverjar bölbænir yfir þeim og sérstaklega beint þeim að Sæmundi og sér, en í því bili hafi hún misst rænuna og ekki vitað af sér framar.

Lýkur hér sögunni um huldukonuhefndina.



Netútgáfan - október 1997