SÖGUR  AF  HALLGRÍMI  PÉTURSSYNI



Hallgrímur kveður til stúlku

Séra Hallgrímur Pétursson var kraftaskáld. Einu sinni var hann á ferð upp í Borgarfirði og kom þar að einum stórbæ og var þar um nótt. Hann var hvurki fríður né ríkmannlega til fara. Yngisstúlka þar á bænum fór að færa spott að honum um kvöldið. Hann sat á rúmi móts við hana. Þá kvað hann:

Horfi ég nú á hendina á þér
og hana fyrir mér virði.
Enginn er sú sem af henni ber
í öllum Borgarfirði.

En eignast muntu argan þræl
sem ekki er skóþvengs virði.
Hvorki muntu heil né sæl
hér í Borgarfirði.

Hann sá að reiðisvipur kom á stúlkuna. Þá bætti hann við:

Vékstu fyrri vondu að mér,
víf, en góðu eigi.
Enginn maður unni þér
upp frá þessum degi.

Hún hafði síðan enga eirð né ró í Borgarfirði. Var henni ráðlagt að fara þaðan og það gjörði hún, en aldrei varð hún vinsæl upp frá því og maðurinn hennar varð böðull og voru í þá daga hafðir til þess ómerkilegir menn.


Síra Hallgrímur andast

Síra Hallgrímur Pétursson hefir verið talinn hið andríkasta skáld hér á landi af allri alþýðu manna og er enn talinn, og sýnir eftirfylgjandi saga hvað menn hafa haldið hann guði kæran fyrir sálma sína og guðsótta:

Þegar síra Hallgrímur andaðist sáu menn hvar tveir hvítir fuglar liðu í loft upp af húsi því er hann lá í, með skál á milli sín. Í henni var ofurlítið ljós bjart og logandi. Liðu þeir til himna einmitt á sömu stundu og presturinn andaðist.


Enn um andlát síra Hallgríms

Síra Hallgrímur kvað seinni sálminn er hann kvað á banasænginni - hefir mér verið sagt - rétt áður en hann andaðist. Dró af honum áður en sálminum var lokið. Tók þá sá við er sálminn skrifaði og yfir honum vakti og kvað seinasta versið.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2001