Á Böðvarsbakka í Þverárhlíð var hér um bil árið 1822 vinnumaður er Hallgrímur hét. Hann var stór og sterkur og kunni ekki að hræðast. Hann smalaði fé á vetrum.Það bar til einu sinni er hann var að smalamennsku og kemur á leiti eitt að hann sér kvenmann á gangi á næsta leiti, en áður en hann varir er hún komin til hans, gengur framan að honum og spyr hann hvort hann vilji eigi ganga með sér og verða sinn eiginmaður. Hallgrím grunaði sem var að þetta mundi vera huldukona og þverneitar því. Hún tekur þá annari hendinni um fremsta köggul á sleikjufingri á hendi hans og spyr hann aftur hins sama. Hallgrímur verður þá reiður og rekur hnefann fyrir brjóst henni, að hann hélt allsterklega, en hún kiknaði hvergi við og hélt sama takinu. Loksins segir hún að hún ætli að gefa honum þriggja vikna umhugsunarfrest, en að þeim liðnum muni hún hitta hann aftur. Síðan yfirgefur hún hann.
Síðan segir ekki frá fyrr en eftir þrjár vikur að hún hittir hann aftur og spyr hún þá hins sama, en hann neitar sem fyrri. Áttu þau þá nokkur orð um þetta og keppni, en þegar hún sá að hún gat ekki fengið sinn vilja segist hún ætla að senda honum sendingu svo hann hvorki hafi frið nótt eða dag og megi aldrei einsamall vera, skuli það verða æ verra á hverjum þriggja vikna fresti, og kveður hann að svo mæltu.
Hallgrímur gefur sig ekki að þessu og morguninn eftir lætur hann út féð sitt eins og hann var vanur, og er hann gengur heim fer hann um hjá fjárhúsinu og heyrir eitthvert þrusk inni og dettur í hug að hann muni hafa skilið eftir kind og gengur inn. Sér hann þá í annari krónni ófreskju þá er hann aldrei hafði séð þvílíka; einhver mannslíking var reyndar á henni að ofanverðu, en með hrútshornum skelltum í miðju; að neðan var hún ekki nokkru kvikindi lík því er hann hafði áður séð. Hallgrímur verður hálfskelkaður og gengur heim, en þessi mynd veik ekki frá augum hans og gerðist hönum svo órótt að hann ekki gat verið einsamall hvorki nótt eða dag.
Húsbændum hans þókti þetta mikill bagi og ræddu oft um hver breyting væri á honum orðin og hvernig honum mundi verða bati fenginn. Á gamlárskvöld bar hjá þeim rauð kýr og var hún í tólf merkum. Þau hjón voru þá bæði út í fjósi og segir konan: "Og það vildi ég nú vinna til að missa nytinnar hennar Reyður ef honum Hallgrími batnaði."
En að morgni var kýrin þur og var steingeld upp þaðan, en þá nótt ásókti ekki heldur ófreskjan Hallgrím.
Á nýársdag fór Hallgrímur upp að Síðumúlakirkju; þar var og þá Sæmundur bróðir þess er sögu þessa sagði; hann var skyggn maður; og er hann finnur um kvöldið Þórð bróður sinn segir hann: "Það þókti mér undarleg fylgja er fylgdi í dag Hallgrími frá Böðvarsbakka og hefi ég aldrei séð aðra eins ófreskju. Hún fylgdi honum að sálarhliðinu og tók þar við honum aftur er hann kom úr kirkjunni." Lýsti hann fylgjunni eins og Hallgrímur hafði áður sagt Þórði því þeir Þórður og Hallgrímur voru vinir og hittust oft.
Nokkru eftir þetta dreymir Hallgrím að unglingsstúlka, hér um bil tólf ára, kemur til hans og biður hann að verða við bón hennar móður sinnar ef hún biðji hann einhvers á morgun. Hallgrímur játti því. Hún biður hann þá að muna sig um þetta og verða þá líka einsamall við smalamennskuna daginn eftir.
Um morguninn segir Hallgrímur við bónda að hann muni fara einsamall að smala í dag. Bónda var ekki um það, en leyfði það þó með því móti að hann sendi til hans mann seinni part dagsins. Síðan fer Hallgrímur að heiman, en er hann kemur á sama ásinn og fyrri sigrar hann sætur svefn svo hann leggst fyrir og blundar, en allt í einu virðist honum sem hann vakni.
Litla stúlkan stendur þar hjá honum og biður hann nú að fylgja sér. Hún leiðir hann þar síðan inn í holtið og ganga þau fyrst dimm göng þangað til þau komu í hús eitt. Þar sat maður á múk með gullbikar og virtist honum það vera prestur. Þeir lutu hver öðrum, en ekkert mæltu þeir saman. Síðan leiðir stúlkan hann innar í annað hús; þar eru tvö stafnrúm og sparlök dregin fyrir. En fram undan öðru sparlakinu kemur hönd og tekur utan um hönd Hallgríms fyrir ofan úlflið og heldur þar fast nokkuð. Kvenmaður er í rúminu sem biður hann að koma sælan og segist hafa þráð fund hans.
Nokkru síðar heyrir hann stunur og sér hann konu í hinu öðru rúminu með barn. Nokkru síðar heyrir hann stunur aftur og sér hann þá að börnin eru orðin tvö og eru það sveinar. Konan þakkar hönum þá fyrir hjálpina og spyr hann hvort hann megi ekki bíða eftir skírn barnanna. Hann neitaði því þar hann hélt að hann mundi þá verða of seinn. Hún spyr þá hvort hún megi ekki láta sveinana heita í höfuð honum og Magnúsi bróður hans og það leyfði hann. Hún spyr þá hvað hann vilji hafa til launa, hvort hann vilji muni fjár (sic). Hann neitaði því, en kvaðst helst vilja þiggja ef hún gæti bægt frá sér ófreskju þeirri er fylgdi sér fyrir álögur álfkonunnar.
Hún kvað það þungt mundi veitast, "en vel var það samt," segir hún, "að þú fórst ekki þangað og vitja máttu mín að viku liðinni ef ég þá verð orðin frískari."
Að viku liðinni vitjaði Hallgrímur hennar aftur og varð upp þaðan laus við skrímslið, en með hverjum hætti það hefði orðið vildi hann aldrei segja, en það sagði hann að hún hefði ráðlagt sér að flytja frá Böðvarsbakka og fara þaðan í vestur eða þá átt er sól rynni undir, og það hafi hann sagt að þó hann þyrfti einhverju sinni að leysa sig út með fé mundi sig það ekki skorta.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2000