HÁLFTUNNA  Í  HESTHÚSSTALLI



Einu sinni bjó ríkur bóndi á kirkjustað. Hann átti einn gjafarhest gráan og hélt mikið upp á hann. Þau læti komu að hestinum að hann tolldi aldrei í hesthúsinu hvort hann var bundinn ellegar læsing fyrir hesthúsinu.

Einu sinni fer bóndinn á fætur um miðja nótt og gengur út í kirkjugarð og sér þar opna gröf og líka sér hann eins og vant er Grána á túninu.

Hann fer inn í bæ aftur og fer í eina kistu, tekur þar úr skósíða léreftsskyrtu og fer í hana, gengur síðan út í kirkjugarð og veltir sér upp úr moldarhrúgunni er komið hafði upp úr gröfinni, gengur síðan að hesthúsdyrunum og ætlar inn, en þá kemur draugur á móti hönum með útglenntar greiparnar og glyrnurnar og þefar af bónda og segir:

"Ertu einn af oss?"

"Já," segir bóndi.

Draugur spyr til hvurs hann hafi gengið aftur. Hann segist eiga solítið í buddu í veggjarholu. Draugur segir að það gangi yfir sig að hann skyldi fara að ganga aftur til sona lítils og segist atla að sýna hönum hvað hann hafi gengið aftur til, tekur upp úr stallinum kekki og torf og tekur þar upp úr hálftunnu fulla af peningum, og er hann að tína það upp úr tunnunni og telja, en aldrei kemst lengra hjá hönum en einn og tveir.

Draugur er að spurja bónda hvort ekki sé kominn dagur. Bóndi segir það ekki vera. Draugur spurði hvort hann ætti sama kirkjugarð og hann, en bóndi neitar og eru þeir að telja úr tunnunni og hætta ekki fyr en þeir eru búnir að tína allt ofan á hesthúsgólfið.

Kemur þá bóndi fram í dyrnar og segir að það ljómi dagur um allt loft. Drauginum verður bilt við og hleypur út í kirkjugarð, en skilur alla peningahrúguna eftir. Bóndi þykist stökkva í sinn kirkjugarð. Fer so bóndi heim og setur krossmark yfir gröf draugsa, en tók alla peningana.

Líka sagði draugurinn að hann hefði flutt tunnuna í þetta hesthús áður en hann hafði lagst, hann hefði hugsað það mundi verða fundið í sínum húsum og því hefði hann flutt það. Varð so ekki framar vart við draug þennan og hafði þetta verið nágranni hans sterkríkur sem var fyrir nokkru dáinn.

Fekk bóndi helminginn af peningunum, en kóngurinn hinn helminginn. Varð so ekki framar vart við drauginn og Gráni tolldi eftir það í hesthúsinu. - Endar so þessi saga.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - október 2000