HULDUFÓLKIР Í  PÉTURSEY



Maður hefur heitið Runólfur; hann bjó á þeim bæ er Pétursey heitir, fyrir og eftir 1800, í Mýrdal, Dyrhólahrepp í Skaftafellssýslu. Hann átti mörg börn þó ekki séu þau nefnd. Son átti hann þann er Ólafur hét; hann var kallaður ófyrirleitinn og fullur með ýmislega kerskni.

Í Pétursey er og hefur verið margbýli. Ólafur þessi var við smalamennsku með öðrum börnum, og var það stundum háttur hans að þegar hann gekk fram hjá þar sem var ból, brík eða hellir á vegi hans, að pikka þar inn í með staf sínum með ýmislegri orðamælgi og kersknisorðum, en það var almennt trúað að í Pétursey væri mikið til af huldufólki og höfðu menn fyrir satt að bæði væri þar illt og gott fólk til af því tagi.

Það bar til einn morgun síðari part vetrar að Ólafur var venju fremur fálátur, dauflegur í viðmóti og með nokkurs konar hryggðarsvip og kom það upp síðar að menn ætluðu að hann myndi hafa dreymt óþægilega um nóttina.

Þennan dag var sjóveður og þar eð þá var vertíðin yfirstandandi var almennt róið á sjó, bæði frá Pétursey og öðrum bæjum í sveitinni.

Þennan morgun var Ólafur sendur til að hleypa út lömbum úr lambhúsi sem var skammt frá bænum og kom hann ekki heim í tækan tíma. Var hans þá leitað og fannst hann hvörgi, en sumir segja að hundar er honum fylgdu hefðu verið að ærast og gelta við bóldyr þær er Ólafur hafði látið einna lakast við, og því var haft fyrir satt að hundarnir hefðu séð hann þangað fluttan þó ekki sæju það neinir menn.

Það er almennt siður í Mýrdal að senda unglinga og kvenfólk með áburðarhesta til sjávar þegar róið er, til að flytja aflann heim til bæja að kvöldi sem víða er langur vegur; er þetta kallað "að fara í sand" og fólkið sem fer er kallað sandfólk.

Nú þegar sandfólkið frá Pétursey kom í sandinn sagði það þau tíðindi að maður væri horfinn í Pétursey sem hvörgi fyndist.

Þegar Runólfur bóndi heyrði það sagði hann strax að það myndi vera Ólafur sonur sinn og væri þó seinna en von væri. Þessu var játað sem von var á og féll það svo niður að því sinni.

Það leið nú svo fram um hríð að þó leitað væri fannst Ólafur ekki, en þó er svo sagt að öðru hverju fyndist eitt og annað af fötum sem Ólafur hefði verið í þegar hann hvarf og skyldi þó hafa liðið langur tími á milli og fötin verið rifin og illa útleikin þegar þau fundust. Það var einnin sagt að enginn fyndi þau annar en Runólfur faðir hans þó hann gengi einungis í spor annara.

Næsta jóladagskvöld eftir hvarf Ólafs sat Runólfur bóndi faðir hans að mat ásamt heimilisfólki sínu úti á fjóspalli (þá var alsiða að sitja á palli í fjósum, en sofa þó í baðstofum hjá sumum og sumir höfðu fjóspallinn fyrir svefnherbergi líka) að Ólafur sýndist þá koma inn í einn fjósbásinn, þó á þeim stað sem ljósið skein óglöggt á, og þókti hann vera mjög dapurlegur og enda magur og illa útlítandi.

Skyldi Runólfur þá skera kjötbita og ætla að bjóða Ólafi, en undireins skyldi mönnum þá sýnast eins og kippt væri í festi er bundin þókti um Ólaf og var hann þá jafnskjótt horfinn. Hafa sumir sagt svo frá að í festinni hefði skrölt líkt og hún væri saman sett af járnhlekkjum.

Það var almennt sagt að menn hefðu heyrt hljóð mikil eitthvört sinn úti eða jafnvel uppi í fjallinu Pétursey sem bærinn tekur nafn sitt af, þvílíkt sem manneskja með fullu fjöri væri ógurlega kvalin. Hafa sumir sagt það hafi oft verið, en maður sem þá var kominn til vits og ára og var í Pétursey þegar Ólafur hvarf hefur sagt mér að það hafi ekki fyrir víst heyrst utan í eitt skipti.

Samt varð það að trú að Ólafur lifði og væri í höndum eða réttara sagt í varðhaldi og geymslu einhvörrar ósýnilegrar veru og væri í hinum hræðilegustu kvölum enda grunaði suma að faðir hans myndi hafa séð hann oftar en eitt sinn þó hann gjörði ekki orð á því sem líka var eðlilegt að hann væri ekki daglega að tala um slíkt.

Um þessar mundir var Oddur Jónsson prestur á Felli og sóknarprestur Péturseyjarmanna því það er í Sólheimasókn; hann var hinn mesti gáfu- og merkismaður þótt hann væri sagður í frekara lagi drykkfelldur. Hann hefði stundum átt að koma að Pétursey sem líka var trúlegt að sóknarpresturinn ætti oft leið þar um.

Einhvörju sinni er svo sagt að hann hafi sagt við Runólf að hann treysti sér til að ná Ólafi, en þó svo að hvörigur þeirra yrði jafngóður, og hafi Runólfur ekki viljað þiggja það því hann hafi óttast fyrir því að það yrði sér að enn meiri hjartasorg.

Eitthvört sinn hafði prestur sagt við Runólf: "Lifir Ólafur sonur þinn enn þó aumt líf sé."

En þegar liðið var hátt á annað ár frá því er Ólafur hvarf fór Oddur prestur austur að Reynir til að veita presti þar altarissakrament eins og árlega tíðkast. Þá kom hann að Pétursey á heimleiðinni nokkuð kenndur. Þá sagði hann við Runólf: "Nú er hann Ólafur sonur þinn dáinn og þakkaðu nú guði fyrir lausn hans," og eftir þann tíma bar aldrei neitt það til sem gæti gefið tilefni til að ætla Ólaf á lífi.

Nú er það eins og vant er að vera að sumir segja að það sem prestur sagði um Ólaf sé ekki annað en drykkjumælgi, en hinir aðrir segja að þó prestur talaði ekki um slíkt þegar hann var með öllu ódrukkinn þá hafi hann þó verið merkari maður en svo að hann talaði það lítið drukkinn sem ekki ætti sér fullan stað, og þessir síðarnefndu fullyrða það að prestur hafi vitað margt sem aðrir óbreyttir menn ekki vissu eða gátu vitað og því trúa þeir víst að hann hafi haft rétt að mæla.

Það hafa flestir fyrir satt að eftir það að Ólafur var sagður dáinn hafi Runólfur faðir hans fundið bein hans niður af dyrum á skúta þeim sem hundarnir hefðu síðast skilið við hann og sem hann hafði haft einna mest ólæti við.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - apríl 2000