HULDUMAÐURINN  Í  MÆLISHÓL



Í Austfjörðum bjó bóndi hér um bil eitthvað á fjórtándu öld. Hann átti eina dóttir, Ingibjörgu að nafni; hún var snemma fríð sýnum og atgjörvisleg með alslags.

Hún vandi sig snemma til að vefa og stóð vefnaður hennar á gólfi. Hún tók fljótt eftir því þó hún væri ekki nema ein að einhvur rétti henni hjálparhönd, til að mynda þegar hún missti niður kljástein, að henni var réttur hann aftur, eins skeiðin og snakkurinn.

Alltaf jókst þetta meir og meir, þangað til hún var þess fullkomlega viss að ungur karlmaður var hjá henni þó hún sæi hann ekki nema eins og í skuggsjá og hafði hún öngvan ama á því og óf engu að síður eftir en áður. Og svo varð mikið um þetta að hann skildi aldrei við hana þegar hún var ein og oft heyrði hún hann yrkja um sig kveðlinga og er þetta stef úr einum þeirra:

Það er minn vandi, þó ég standi í þessum skugga,
mærðar bland af minnislandi mun ég brugga,
sérdeilis fyrir þig sæmdin ungra fljóða,
lukkuna hljóttu laukaskorðin góða.

Nú komst faðir hennar að þessu og fleiri menn og líkaði honum stórilla. Hann ráðgaðist um við vini sína hvurnin hann ætti að fæla þennan mann frá henni. Ráðlagði sóknarprestur honum það að gifta hana yfir þrjú stórvötn og gaf henni blöð sem hún skyldi ætíð bera á sér og aldrei við sig skilja. Þó varð ekkert af þessu.

Þegar hún var tæpt tuttugu ára bað hennar maður af Austur-Jökuldal sem Guðmundur hét og bjó á þeim bæ sem Hnefilsdalur heitir og átti hann jörðina, og giftist hann henni og flutti hana heim til sín. En með þessu fór hann ekki nema yfir eitt stórvatnið, nl. Lagarfljótið.

Þessum bæ er þannig háttað að hóll mikill stendur sunnan og vestan við völlinn sem Mælishóll heitir; hann er umgirtur á tvo vega af ám, Jökuldalsánni að vestan, en Hnefilsdalsánni að sunnan. Það var gamalt mál að huldufólk byggi í hól þessum og ekki mætti ein kona eiga allan Hnefilsdal því hún hvyrfi þá í Mælishól.

Þessi hjón bjuggu saman tæp tvö ár og höfðu eignast eitt barn og var það í vöggu. Þá bar það til að Guðmundur bóndi fór í kaupstað og var það á stekktíma. Tveimur dögum eftir það hann fór fór fólk allt á stekk til fráfærna, en Ingibjörg konan var heima með barn sitt í vöggu. En þegar fólkið kom heim var hún horfin, en barnið sofandi í vöggunni og blöð þau ofan á sem sá fyrrnefndi prestur gaf henni. Þá var haldið að hún hefði gengið til næsta bæjar, en þegar þetta brást var farið að leita hennar með mesta ákafa.

Morguninn eftir kom maður hennar úr kaupstaðnum og lá leið hans út fyrir vestan Jökulsána móts við Mælishól, en þetta var snemma morguns, en hann var þreyttur og svefnþurfi og fannst honum eins og hann ríða í svefndvala. En þegar hann reið móts við hólinn sýndist honum hann opinn og ótölulegan fjölda fólks þar inni, allt prúðbúið, líkast því sem í stórveislu væri; söng og hljóðfæraslátt heyrði hann líka og þykist hann þar þekkja konu sína prúðbúna í miðjum kvennahópnum.

Nú kemur hann heim og þá var svo komið sem áður er sagt. Hófst nú leitin fyrir alvöru í dagstæðan mánuð til fjalls og fjöru á lög og landi, og fannst ekki og féll svo þetta niður og fyrntist yfir.

En fimmtán árum seinna bar það til tíðinda einn sunnudag þegar fólk kom úr kirkju á Hofteigi sem er sá rétti kirkjustaður að úti fyrir kirkjudyrunum stóð líkkista, en ofan á henni lá kaleikur, altarisklæði og hökull. Lét það prest spurja hvurt nokkur hefði dáið í sókninni, og var það ekki.

Var þá kistan jörðuð og gripirnir teknir fyrir legkaup og líksöngseyrir, og er sagt að Brynjólfur biskup hafi tekið gripi þessa og lagt til Breiðabólsstaðarkirkju í Fljótshlíð. En eftir að kistan var jörðuð heyrðust sorgarhljóð frá Mælishól í dagstæð níu dægur og döpruðust þau þangað til þau hvurfu.

Af þessu öllu samandregnu var það ráðið að sá huldumaður sem fylgdi Ingibjörgu í föðurgarði mundi hafa flutt sig í Mælishól og náð henni þangað og hún svo dáið og verið í þeirri kistu sem fyrr er getið, en hann dáið af harmi.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - apríl 2000