Gvendareyjar heita einar af Suðureyjum á Breiðafirði. Þar bjó lengi maður sá, sem Þormóður hét og var Eiríksson; var hann ekki síður kraftaskáld en kunnáttumaður, að sagt var, þó hér verði fátt eitt talið af hvoru tveggja. Þormóður átti fyrir fyrri konu Guðrúnu Helgadóttur, en seinni kona hans hét Brynhildur.Þau Guðrún áttu nokkur börn saman, og verður sumra þeirra síðar getið. Þormóður bjó fyrir víst þrjú ár í Vaðstakksey hjá Stykkishólmi, áður en hann flutti í Gvendareyjar, og farnaðist þar að sumu leyti vel, sem hann kvað:
- "Vetur þrjá í Vaðstakksey
- var eg með gleði og yndi,
- sviptur þrá á Sviðris mey,
- síðan má hún heita grey."
Vaðstakksey er sagt, að hafi ekki bygst síðan.
Einu sinni, meðan Þormóður var í Vaðstakksey, lá kona hans á sæng um vetrartíma; gat þá Þormóður ekki kveikt fyrir ljósmatarleysi, en honum leiddist myrkrið og kvað:
- "Mína, Jesú, mýk þú raun,
- mæni eg til þín, hjálpin væn;
- þína send mér bjargarbaun,
- bænheyr, lífsins eikin græn."
Eftir það gekk Þormóður út og ofan til sjávar og fann þar nýrekinn sel dauðan og hagnýtti sér hann til ljósa.
Ekki vita menn með vissu, hvað Þormóði gengi til að fara úr Vaðstakksey, en þó ætla menn, að hafi helst verið draugagangur og aðsóknir, sem hann átti þar við að eiga bæði á sjó og í eynni.
Einu sinni fór hann á báti í næstu ey, og þegar hann kom út á sundið, gekk báturinn ekki undir honum, þó hann þættist róa rösklega. Fór hann þá að svipast um og sá, að sinn púki hélt í hvorn stafn á bátnum. Hann gerði sér þá lítið fyrir og innbyrti báða, lét þá svo róa með sig þangað, sem hann ætlaði, og sleppti þeim þar.
Öðru sinni er sagt, að honum hafi verið sendir sjö draugar í einu út í Vaðstakksey; lét þann þá setjast fyrst inn í skála á rúmin þar, en síðan, þegar hann var búinn að skemmta sér þar við þá um stund, flutti hann þá úr eynni í land, lét þá róa undir sér sjálfa og setti þá svo niður á landi. Þó flutti Þormóður ekki alla þá drauga til lands, sem honum voru sendir út í Vaðstakksey, heldur setti hann þá suma niður eða kvað þá niður úti í eynni; því heitir þar síðan Draugabæli:
Margt hefur verið sagt frá viðureign Þormóðar við drauga og forynjur, sem hann fékkst við og kom fyrir, bæði fyrir aðra og sjálfan sig, og komst þá stundum í krappan dans, og eru miklu fleiri sögur um það, hvernig hann veitti þeim frið og lið, sem ofsóttir voru af draugum og sendingum, en um það, að hann hafi sent þær sjálfur, síst að fyrra bragði.
Vestur við Ísafjarðardjúp voru feðgar tveir, og hétu báðir Jónar, að sumir segja. Þeir áttu illt útistandandi við nágranna sinn, sem Einar hét; Einar átti dóttur eina gjafvaxta, og vildi Jón yngri fá hennar fyrir konu, en Einar vildi ekki gifta honum hana, því þeir feðgar höfðu illt orð á sér, og þó var stúlkunni meir um kennt. Heituðust þeir feðgar við feðginin og sögðu, að stúlkan skyldi hvorki verða sér né öðrum að nytjum að heldur. Leið þá ekki langt um, áður stúlkan varð utan við sig (leikin), og sótti að henni loftandi, að sagt var, svo að hvorki hafði hún ró nætur né daga, og lá við vitfirringu. Föður hennar þótti þetta mikið mein, og kenndu allir þeim feðgum, sem þóttu bæði illmenni og fjölkynngismenn.
Af því þá var komið orð á Þormóð fyrir kunnáttu hans, sendi Einar til hans mann með hesta, því þeir eru óvíða í eyjum, og lét biðja hann liðs. Sendimaður kom á fund Þormóðs og bar fram erindi sín. Þormóður tók því fálega í fyrstu og sagðist ófær til að fara í hendur Ísfirðingum og mundi hann reisa sér þar hurðarás um öxl, ókenndur maður og lítt fróður. En af því sendimaður leitaði því fastar á sem Þormóður færðist undan, fór svo, að Þormóður hét að fara.
Þeir fóru svo sem leið liggur til Ísafjarðar, og hafði Þormóður reiðingshest með sér vel reiðingaðan og ekkert á nema umbúðir miklar bundnar við bogann. Ekkert vissi sendimaður, hverju það sætti, fyrr en þeir komu á Þorskafjarðarheiði; þar vakaði Þormóður á vatni því, sem Gedduvatn heitir, og dorgaði um stund; hann beitti gulli á öngul sinn og hafði þá á höndum mannskinnsglófa.
Að stundu liðinni dró hann vatnageddu; það kvikindi er gyllt á lit og baneitrað. Lét Þormóður gedduna fyrst í flösku, vafði þar utan um úlpu og öllum þeim skinnum og umbúðum, sem hann hafði áður bundið við bogann á reiðingshestinum, og þegar hann hafði um búið sem best hann gat, batt hann þenna bagga enn við bogann á reiðingshestinum og hélt svo áfram ferð sinni til Einars, og tók hann vel við Þormóði.
Þegar sprett var af reiðingshestinum, var hann hárlaus á bakinu, þar sem geddan hafði legið á, og eins og sligaður, og aldrei varð hann jafngóður síðan; var það kennt eiturkrafti kvikindis þessa. Þormóður tók síðan gedduna, þegar vestur kom, og gróf hana niður undir þröskuld í húsi því, sem hann svaf í og stúlkan í öðru rúmi. Við það létti þegar fyrstu nóttina aðsókninni og svo aðra, en þriðju nóttina var að heyra nöldur nokkurt við dyrnar. Fór Þormóður þá ofan, og við það hvarf nöldrið. Þormóður var þar viku, og batnaði stúlkunni, svo að hún kenndi aldrei aðsóknar síðan.
Þegar Þormóður fór suður aftur, var hann við kirkju á sunnudegi, og af því hann þekkti þar engan mann, var hann einn sér og utan við og stóð við kirkjugarðinn. Heyrði hann þá, að tveir menn töluðust við inni í garðinum og ræddu um, hver þessi ókunnugi maður væri eða hvort það mundi vera sá, sem læknaði stúlkuna og hældu honum á hvert reipi, svo Þormóður heyrði undir væng. Þóttist Þormóður vita, að þetta mundu vera þeir feðgar og flátt byggi undir fyrir þeim. Þeir spurðu hann þá að heiti; en hann sagði sem var. Lofuðu þeir hann í hverju orði og sögðust vilja sýna það, að slíka menn mettu þeir mikils, og buðu honum fylgdarmann heim, af því hann væri ókunnugur öllum leiðum. Þormóður kvaðst hafa fylgdarmenn og hesta frá Einari bónda, en ekki mundi sér þykja óskemmtun að fleiri fylgdarmönnum.
Ekki er getið ferða þeirra Þormóðar, fyrr en þeir komu undir Klofningsfjall, þar sem Ballará fellur úr Klofningnum. Þá sagði Þormóður við fylgdarmann sinn, að hann skyldi fara til Ballarár og gista þar um nóttina, en hann sagðist sjálfur mundi leita sér að öðrum náttstað, og ef hann yrði ekki kominn á dagmálum morguninn eftir, mætti fylgdarmaðurinn ríða vestur heim, því þá væri sín ekki að vænta. Skildu þeir við það.
Foss einn er í ánni uppi í fjallinu og forbergt undir; Þormóður fór inn undir fossinn og bjóst þar fyrir. Hafði hann verið þar skamma stund, áður en sending þeirra feðga kom að ánni, en þorði ekki yfir né heldur undir fossinn að Þormóði; er sagt, að þeir feðgar byggist ekki við, að þess mundi við þurfa að leggja það fyrir hana.
Þormóður spurði, hvert erindi hennar væri. "Að drepa Þormóð," sagði hún.
Þormóður sagði, að hún mundi þá þurfa að ganga nær, sýndi henni gedduna og hafði upp særingar.
Magnaði Þormóður svo draug þenna að nýju, þegar hann hafði skyldað hann til hlýðni við sig, og bauð honum að fara vestur aftur og drepa Jón eldri, en ásækja hinn yngri, og væri þeim það lítið leiksbragð fyrir áleitni þeirra við bóndadóttur og sig. Draugur sneri þegar vestur aftur og gerði það, sem fyrir hann var lagt. En Þormóður hitti fylgdarmann sinn á dagmálum, og segir ekki af ferðum hans annað en að hann kom heill heilsu heim til sín. Sagt er, að seinna hefði verið sent til Þormóðar að vestan og hann beðinn að létta aðsókn að Jóni yngra, en það fengist ekki af Þormóði fyrr en að þrem vetrum liðnum.
Jón hét maður og var Ólafsson; hann var í frændsemi við feðga þá, sem fyrr eru nefndir, og því var hann kallaður "Jón frændi". Jón var smiður góður og galdramaður svo mikill, að haft var eftir honum, að hann hefði sagt það kunningjum sínum, að sig vantaði einn staf til þess að hugsa mann dauðan og væri hann nú á leiðinni. Það er sagt til marks um það, hvað fáir hlutir komu Jóni á óvart, að einu sinni var hann staddur í Haga á Barðaströnd, en átti heima í Látrum, og sagði hann þá, að maður einn tæki hefil sinn heima í Látrum, og reyndist svo sem Jón hafði sagt, enda sögðu sumir, að hann hefði sagnaranda.
Sagt er, að Jón frændi vildi hefna þeirra feðga á Þormóði og léti sem sér mundi verða lítið fyrir því, nema ef ákvæði Þormóðar yrðu sér að ofurefli, því Jón var ekki skáld. Er þá sagt, að hann sendi Þormóði sendingu; en hún kom svo óvörum að Þormóði, að hún kyrkti eitt barn hans og Guðrúnar, áður en hann gæti séð fyrir henni. Engan kost átti Þormóður að senda Jóni þessa sendingu aftur; svo var hún mögnuð; en þó kom hann henni fyrir eftir langa mæðu, og örðugt veitti honum síðan að sjá við glettingum Jóns frænda.
Þessu næst er að minnast á dætur tvær, sem Þormóður átti og helst koma við sögu hans. Hét önnur þeirra Þóra, en hin Guðrún eldri. Þóra var lengst af með föður sínum og nam af honum fjölkynngi, svo hann vissi ekki, enda varð hún honum best að liði og þar næst Brynhildur, seinni kona hans.
Guðrún var gift löngu áður en þetta gerðist, sem nú skal segja, en hvort þau maður hennar bjuggu í Stagley eða Kiðey, er óvíst, en sagt er, að Guðrún væri kölluð af sumum Stagleyjar-Gunna, en af öðrum Kiðeyjar-Gunna. Þau Guðrún áttu nokkur börn, þegar hér var komið, og eru tvö af þeim nefnd, Jón og Sigrún.
Það var einn sunnudag, þegar Guðrún sat inni, að Sigrúnu sýndist svartur flóki líða yfir móður sína. Ærðist Gunna þegar og hljóp út, og segja sumir, að hún steypti sér í sjó fram af hömrum; en aðrir segja, að hún fyndist skorin á háls í fjörunni. Menn úr næstu eyjum fundu börnin grátandi í bænum, og sögðu þeir Þormóði til. Kom hann og vistaði niður börnin, en tók tvö sjálfur. Ekki þótti mönnum einleikið um ófarir Guðrúnar og héldu, að það væri af völdum Hafnareyja-Gvendar, þó hann væri þá dauður, en aðrir eignuðu það Jóni frænda á Látrum, og það ætla menn, að Þormóður hyggi hann að því valdan.
Litlu síðar urðu menn þess varir, að Gunna gekk aftur, enda var hún aldrei jörðuð; lík hennar fannst að vísu, en var tekið út, þegar átti að bera hana heim. Fór Gunna þá til annarra eyja, eyddi þar fénaði og drap, sótti að mönnum og kyrkti og drap með því einn mann í Bjarneyjum, en hann varð raunar bráðkvaddur. Eins villti hún fyrir skipum á sjó um ljósa daga.
Var þá skorað á Þormóð að firra fólk þessum vandræðum; en svo mikil skapraun var honum að þessu, að haft er eftir honum, að aldrei þættist hann hafa verið jafnilla við kominn eins og að verða að fara þá för til afkvæmis síns, sem gyldi sín að og annarra illmenna. Fór hann þó og tókst erfiðlega við Gunnu, en þó gat hann markað henni svið; en engin kvik kind mátti koma nærri því sviði, svo að hún meiddist ekki eða dræpist. Fór Þormóður þá enn til og setti Gunnu niður til fulls. Segja sumir, að það hafi verið í Stagley, en aðrir í Kiðey syðri, og mun það réttara, enda er þar kallað Gunnudys, því menn segja, að hana hafi rekið síðar af sjó og væri hún urðuð þar, en ekki færð til kirkju, af því hún grandaði sér sjálf.
Það var engin furða, þó Þormóður leitaðist við að hefna á Jóni frænda á Látrum þessara meingjörða, enda tók hann það ráð, að hann magnaði mórauða tófu til að drepa Jón, og varð það með þeim atburðum, sem hér segir.
Eitt vor fór Jón frændi til siga með öðrum manni, sem Jón hét Þórðarson, á Jónsmessunótt; þar heitir Slakki í berginu, sem þeir sigu. Jón frændi fór jafnan óbundinn í festinni og krosslagði aðeins hendur sínar á henni og lét höfudið síga ofan á undan, og þótti það fjölkynngisbragð hans og hann sjálfur hinn fimasti sigamaður; hann hafði lengi við þann starfa fengist og þótti sér nálega ekkert ófært sökum fjölkynngis síns. En þegar hann var kominn ofan á Slakkhillu, sá Jón Þórðarson, að mórauð tófa kom innan með bjargbrúnum, þefaði af festinni og stakk sér síðan ofan fyrir bjargið. Jafnskjótt og lágfóta var komin ofan, fann Jón Þórðarson, að festin var með öllu laus, og gægðist fram af; sá hann þá, að Jón frændi lá niður í urðinni, og þóttist hann vita, að Frændi væri dauður, og fór við það heim af bjargi. Var svo riðið eftir líki Jóns eftir lestur á Jónsmessu; var líkið allt eins og það væri slitið sundur, meir en marið, og eignað göldrum Þormóðar, að hann hefði hefnt með því Guðrúnar dóttur sinnar. Lík Jóns var flutt heim í lambhús, og sagt var, að vantaði í það hjartað. Reimt þótti í húsinu eftir. Þar heitir síðan Jónshald, er hann hrapaði.
Þegar þetta varð tíðinda, er sagt, að Ólafur Árnason hafi nýtekið við Barðastrandarsýslu (1737-52), og er það eftir honum haft, þegar hann skrifaði upp bú Jóns, að oft hefði hann galdur séð, en aldrei annan eins djöful, og skyldi hann hafa látið brenna lík hans, ef ógrafið hefði verið. Galdraskræður Jóns voru brenndar í Melaskarði við Látralæk, en Ólafur tók þó af þeim kver eitt og stakk hjá sér.
Annar versti fjandmaður Þormóðar var Guðmundur í Hafnareyjum Sigurðsson; var hann kallaður Hafnareyja-Gvendur. Guðmundur var fjölkunnugur, og sagt var, að þeir Þormóður ættust löngum illt við, en ógjörla vita menn, hvað þeim bar á milli í fyrstu, og sendi Þormóður honum sendingu. En svo var Gvendur rammgöldróttur, að hann sendi honum margar aftur, og kom Þormóður þeim jafnan fyrir, og flestum með kveðskap, að sagt er.
Einu sinni sat Þormóður á palli í rökkri, er einn draugurinn kom að honum, og varð þá Þormóði heldur hverft við, því hann var varbúinn við honum. Þóra dóttir hans sat skammt frá honum; en karli urðu ljóð á munni, svo hún vissi, hvað um var að vera:
- "Álfar hreykja issum sín,
- eldi feykja mér fyrir brýn;
- þankann veikir þeirra grín,
- þú mátt kveikja, dóttir mín."
Þóra kveikti og kom með ljósið, svo gat Þormóður fyrirkomið draugnum. Sumir segja, að sá draugur kæmi þó upp aftur, en aðrir, að það væri önnur sending frá Gvendi. Kom hún að Þormóði í smiðju og ætlaði að grípa hann. Varð honum það þá fyrir, að hann mælti í sífellu óráð og endurleysu þessa:
"Taktu konuna, taktu ekki konuna; taktu börnin, taktu ekki börnin; taktu kúna, taktu ekki kúna; taktu bátinn."
Hljóp þá sendingin að bátnum og greip hann; en við það áttaði Þormóður sig, hljóp eftir sendingunni, náði í stefnið og hélt því einu eftir. Þegar draugurinn hafði brotið bátinn í spón og dreift brotunum víðs vegar, kom hann aftur og vildi gera Þormóði meira tjón; en þá var hann við búinn og gat sett drauginn niður í sker eitt.
Það er haft eftir Sigrúnu, dótturdóttur Þormóðar, sem fyrr er getið, að þegar Hafnareyja-Gvendur sendi Þormóði marga drauga í senn, gæti hann ekki séð, hvort þeir væru úti eða inni. En Brynhildur var óskyggn og sá engan þeirra; Þormóður bað hana þá að ganga út á undan sér, en hann hélt aftan í pils hennar. Þegar þau voru komin út, bað hann hana fara aftur inn og loka bænum, en hann sagðist mundi verða úti við að mæta komendum. Alla nóttina var hann úti að fyrirkoma sendingunum; en um morguninn, þegar Brynhildur lauk upp bænum, var Þormóður fyrir dyrum úti þrekaður mjög.
Öðru sinni kom sending að Þormóði, og þegar hann hafði sært hana frá sér, sá hann, að kýr sínar tóku stökk undir sig; sendi hann þá dætur sínar að komast fyrir þær, en það tjáði ekki, og hlupu beljur því meir. Sá hann nú, að þær mundu ætla að hlaupa í sjóinn, og fór því sjálfur; voru þær þá komnar ofan í fjöru, þegar hann gat snarað fyrir þær húfunni sinni. Við það spektust þær og lögðu heimleiðis aftur.
Sagt er, að Hafnareyja-Gvendur sendi Þormóði alls sjö sendingar, en magnaði nú hina áttundu, og var hún nálega tröll að vexti. Þegar draugur þessi kom í Gvendareyjar, var dagur að kvöldi kominn, og er sagt, að Þormóður þyrði ekki að fara út og mæta honum, en bað Þóru að fara til dyranna fyrir sig. Gekk hún svo út og særði burt drauginn, og sváfu þau Þormóður í næði fyrir honum um nóttina.
En það er frá draugnum að segja, að hann hvarf aftur heim til Gvendar, og er sagt, að hann magnaði hann að nýju og sendi hann svo á stað aftur að drepa Guðrúnu eldri Þormóðsdóttur, sem bjó þá í Stagley eða Kiðey. Þeim Guðrúnu og Oddi, manni hennar, lynti aldrei saman, enda var Gunna sögð ákaflega skapstór og óhemjuleg; þó áttu þau börn saman.
Þessa sömu nótt, sem Þóra hafði sært burt drauginn frá Gvendareyjum, varð þess vart, að einhver ósköp og hamsleysi kom á Guðrúnu, svo hún réð sér ekki. Vitjaði þá Oddur Þormóðar og bað hann koma að hjálpa dóttur sinni. Þormóður tók því seinlega, en fór þó; er þá sagt hann tæki það ráð að flytja Gunnu á land til Þingvalla. Þegar hann var kominn undir land, reis boði í logni, svo flestu skolaði út, sem lauslegt var innanborðs, og þóftufyllti bátinn. En í sama vetfangi og boðinn skall á Gunnu, náði Þormóður í hana; er þá sagt hann kvæði vísu og svitnaði við. Við það náði hann landi og gat borgið dóttur sinni í það sinn, en þó varð henni ekki fritt síðan, sem áður segir.
Sagnir eru um það aðrar, að Þóra Þormóðardóttir flytti alla þá drauga á skipi til lands, sem Hafnareyja-Gvendur sendi föður hennar; því Þormóður vildi fyrirkoma þeim á landi, en bannaði Þóru að tala nokkuð á leiðinni; sjálfur sat hann berhöfðaður í stafni. En þegar kom á sundið, tók báturinn að síga, og sagði Þóra þá: "Nú tekur ærið að síga, faðir minn," en við þessi ummæli Þóru seig þó báturinn enn um umfar, og sló Þormóður þá til hennar húfu sinni þegjandi. Treystist Þormóður þá ekki að halda til lands og reri á boða einn, sem var á leiðinni, og setti þar niður draugana. Þar heitir síðan Draugaboði.
Eftir það sættust þeir Þormóður og Hafnareyja-Gvendur, að kalla. Þormóður falaði jafnan kver eitt að Gvendi, en Gvendur vildi ekki láta; þó hét hann Þormóði því, áður en hann dó, að hann skyldi fá kverið eftir sig dauðan, og mundi það liggja á klettahillu einni norður á eyjarenda og mætti hann þar að því ganga. Þegar Gvendur var dauður, ætlaði Þormóður að ná kverinu og reri undir klettana, þangað sem honum var til vísað, og sá kverið á hillunni, og blöktu í því blöðin fyrir vindi. Klettahillan var svo há, að hann náði ekki til kversins úr bátnum; klifraði Þormóður svo upp á hilluna, en þá var kverið horfið. Þegar hann kom aftur í bátinn, sá hann enn kverið á sama stað, en jafnan fór eins, þegar hann reyndi að ná því, og varð hann svo búinn frá að hverfa og þóttist enn gabbaður af fjölkynngi Gvendar, þó hann væri dauður.
Heldur þótti örla á því, að Gvendur lá ekki kyrr eftir dauða sinn; gekk hann drjúgum aftur og kvaldi bæði menn og fénað eða drap. Fór þá svo, að Þormóðar var leitað til að ráða bætur á þessum vandræðum. Þormóður fékkst lengi við að kyrrsetja Gvend, og að lyktum lét hann grafa hann upp og brenna skrokkinn til ösku. Sjá má það, að gustkalt hefur Þormóði verið til Gvendar og nálega aldrei þótt óhætt fyrir honum, og er vísa þessi, sem Þormóður kvað um Gvend, til sannindamerkis um það:
- "Þó lagður sértu á logandi bál,
- líka að ösku brenndur,
- hugsa ég til þín hvert eitt mál
- Hafnareyja-Gvendur."
Það var venja bænda í Breiðafjarðareyjum, og er enn, að flytja fé sitt til meginlands á vorum, þegar það er gengið úr ull, og láta það ganga á afréttum að sumrinu. Þormóður gerði og svo, því hann átti talsvert fé og þar á meðal forustusauð einn mórauðan, sjö vetra gamlan, þegar þessi saga gerðist. Móri hafði gengið á fjalli á hverju sumri og ætíð komið að í fyrstu göngum. Þetta haust, sem hér ræðir um, var gengið þrisvar, eins og venja var til, en ekki kom Móri fram að heldur. Er þá sagt, að Þormóður kvæði vísu þessa, þegar Móri fannst ekki:
- "Mótgangsóra mergðin stinn
- mér vill klóra um bakið;
- illa fór hann Móri minn,
- mikið stóri sauðurinn."
Því hann þóttist nú vita, að þetta mundi ekki einleikið. Tók Þormóður sér þá ferð á hendur einu sinni um haustið upp að Staðarfelli; það var á laugardag. Daginn eftir var messað á Staðarfelli og fjöldi fólks við kirkju. Þegar úti var og áður en fólk fór frá kirkju, spyr Þormóður ýmsa, hvort þeir hafi ekki orðið varir við Móra, og neita því allir.
Þá gall einn maður við, sem þar var nærstaddur og heyrði á tal Þormóðar og sagði: "Honum hefir sjálfsagt verið stolið; það er ekki spánýtt hérna á Fellströnd, þó menn fái ekki fé sitt með tölu af afréttum. Betur að allir bifsaðir þjófarnir hérna væru flengdir og hengdir."
Þá sagði Þormóður: "Jarmaðu nú, Móri minn, hvar sem þú ert."
Í sama bili kom feikilegur jarmur upp úr manni þeim, sem mest hafði hallmælt þjófunum á Fellströnd; því Móri ærðist og beljaði niður í honum, eins og hann ætlaði að springa. Alla furðaði mjög á þessu; en Þormóður gekk að manninum og bar upp á hann, að hann hefði stolið Móra. Maðurinn sá sér ekkert undanfæri annað en gangast við sannleikanum og því með, að hann hefði étið sviðin af Móra um morguninn, áður en hann fór til kirkjunnar.
Kaupmaður sá var í Stykkishólmi, sem Mórus hét. Þormóður bað hann að lána sér mélstamp; en kaupmaður synjaði. Þá kvað Þormóður:
- "Mig kynjar ei, þó kári blási kuldagolu,
- fyrst Mórus ekki mér vill lána mélstamps-holu."
Svo er sagt, að kaupmenn væri hræddir við ákvæði Þormóðar og léti allt uppi fyrir honum, og það þó sumir þeirra skildu ekki, hvað Þormóður kvað, og svo er sagt, að Mórusi færi, þegar hann heyrði stökuna. Það segja þó aðrir, að Mórus hafi ekki látið sér segjast við þessa vísu, og kvæði Þormóður þá aðra; hún er svo:
- "Sunnanvind af svörtum tind,
- sendu niður hingað,
- svo hverri kind á laxalind
- liggi við að springa."
Við það brá svo, að það dró upp myrkvan skýflóka á suðurfjöllin, og fylgdi þar með svo óstjórnlegt veður, að við ekkert varð ráðið. Lá þá kaupskipið á höfninni, og var ekki annað sýnna, en að það mundi þá og þegar slitna upp. Bauð kaupmaður þá Þormóði svo mikið lán sem hann vildi til þess að gera bragarbót, og varð það að sætt með þeim, að Þormóður fékk mélstampinn, en kvað þetta:
- "Kristur minn, fyrir kraftinn þinn,
- kóngur í himnahöllu,
- gefðu þann vind á græðishind,
- að gangi í lagi öllu."
Við þetta slotaði veðrinu þegar í stað.
Netútgáfan - janúar 1998