GUÐMUNDUR  SKÁLD  BERGÞÓRSSON



Guðmundur skáld Bergþórsson er einn af þeim skáldum sem almenningur setur í fremstu sæti meðal rímnaskáldanna. Mælt er það að hann væri sonur Hallgríms prests Péturssonar og því þykir engum öfgar þó hann væri skáld mikið, en það getur varla staðizt að svo hafi verið tímans vegna.

Víða hefir Guðmundur fram fært ævisögu sína eða kafla úr henni í rímum sínum, en þó hvergi greinilegar en í Bertrams rímum. Hefir hann jafnframt getið um kröm sína, en þó hvergi frá sagt greinilega hver orsök hennar sé. Allt um það sýnist þó sem hann hafi verið sömu meiningar um það sem almenn sögn nú er, og það má sjá á samtíða kvæðum að menn hafa þá haft þá sömu trú. Þar til sýnist mér síra Jón á Hjaltabakka benda til með kallsi í svari hans upp á Skautaljóð:

Manstu nokkuð, tjörgutýr,
til hennar móður þinnar?
Var henni dentur vafinn rýr
að völlum heyrnarinnar.

En sú er sögn til þess: Nær hann var á fjórða árinu hafi móðir hans deilt við annan kvenmann, en Guðmundur verið staddur á milli þeirra; úr því hafi hann ekkert vaxið öðrumegin nema hvað höfuðið hafi haft réttan og fullan vöxt.

Guðmundur er talinn kraftaskáld. Það er sögn að Friðrik konungnur fjórði hafi heyrt sögur um Guðmund, um vansköpun hans og afbragðs gáfur; hafi því viljað fá hann til sín og hafa hann sem aðra konungsgersemi og náttúruafbrigði til sýnis, en Guðmundi væri þetta þvernauðugt; hafi hann fundizt bráðkvaddur í rúmi sínu og hafi hann kveðið sig dauðan 1705.

Ekki veit ég hvínær Skautaljóð hafa verið kveðin, en alkunnug voru þau orðin þegar hann kvað Bertrams rímur. Margir orktu á móti þeim, þar á meðal Þórður á Strjúgi Halldórsson og það mjög ómannúðlega, einkum í síðara sinni. Yfir þessu varð Guðmundur þungur og segir í seinna svari sínu til ályktunar:

Þrútni hann nú, en þó má senda
þriðja "frakið" mér að benda
saklausum við upphaf ört.
Hér um sinn eg læt við lenda
leirgleyparans svarið kennda.
Margt er sér til gamans gjört.

En er Þórður var farinn að kveða hið þriðja sinn bólgnuðu kverkar hans svo hann dó af kverkabólgu.

Einu sinni kom unglingspiltur til Guðmundar sem "var að fara til prestsins". Hann var fátækra manna, ef ekki á sveit, og færði honum tóbakspund. Gat hann þess að hann hefði ákafa ást á prestsdótturinni sem líka átti að konfirmerast undireins og drengurinn og beiddi Guðmund að liðsinna sér svo hann næði jafnaðarást hennar. En er drengurinn fór fekk Guðmundur honum seðil og bað hann koma honum undir höfðalag prestsdóttur leynilega, en muna sig um að sita gagnvart prestsdóttur næst er þau væru spurð.

Næst er þau voru spurð hafði hún aldrei augun af honum. Eftir það vakti hún svo ræðu við föður sinn hvað efnilegur drengurinn væri og vel að sér. Höfðu þessi hennar ummæli þau áhrif á prestinn að hann tók drenginn til sín og kom honum til manns, ef ekki til prestsskapar, og fekk drengurinn svo stúlkunnar í framtíðinni og varð mesti gæfumaður.


Guðmundur og Jón á Hjaltabakka

Meðal margra annara er ortu Skautaljóð móti Guðmundi var Jón prestur Grímsson á Hjaltabakka. Enginn af öllum þeim sem móti honum kváðu var eins skömmóttur og illskældinn. Brigzlaði hann Guðmundi um helti sína og kröm og kvað hann skyldi hafa merarstert fyrir staf.

Þegar Páll lögmaður Vídalín sá dræpling séra Jóns kvað hann:

Heftu bræði, brenndu fræði
bragsmíðanna,
ljótt er kvæði, ei við æði
aldursmanna.

Í svari sínu til séra Jóns kvað Guðmundur þetta:

Með stertinum þarftu ei styðja mig,
staflaus kör mér veldur,
en þegar beygir ellin þig
á hann þar við heldur.

Það er mælt að þegar séra Jón fékk svar Guðmundar hafi hann verið að smíða í smiðju sinni, og brá þá svo við að hann stakk sig með knífi í lærið og var jafnan haltur síðan. Eignuðu menn það ákvæðum Guðmundar.


Af föður Guðmundar Bergþórssonar

Bergþór faðir Guðmundar skálds var kraftaskáld. Hann stundaði fiskiveiðar og var góður formaður. Einu sinni þegar hann var á sjó kom óveður og fekk hann mikið sjóvolk, missti bæði stýrið og stjórann, en komst þó til lands um síðir. Hann fekk fjóra í hlut og bar þá frá skipi. Þá mætti honum maður sá sem Einar hét. Hann var kraftaskáld og enginn vin Bergþórs. Hann kvað:

Bölvaður farðu, Bergþór minn, sem berð nú fjóra,
misst hefir bæði stýri og stjóra
og stelpan þín er orðin hóra.

Bergþóri gramdist og kvað hann þetta aftur:

hati þig allt hvað hefir nafn,
hati þig grös og steinar,
hati þig engla heilagt safn,
og hati þig drottinn, Einar.

Báðir þóttu verða lánlitlir upp frá þessu og þó Einar meir.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2001