GUÐBJARTUR  FLÓKI  OG  HÓLABISKUP



Guðbjartur prestur flóki í Laufási var mestur kunnáttumaður á sinni tíð, en gjörði engum mein með kunnáttu sinni, því að hann var góðmenni mikið. Þó ýfðist Hólabiskup við hann sökum galdraorðs þess, er lagðist á hann, og ætlaði sér að setja hann af embætti.

Fór hann að heiman í því skyni með nokkra presta og sveina, en þegar þeir voru komnir skammt að heiman, villtust þeir og vissu ekki, hvar þeir fóru; könnuðust þeir ekki við sig, fyrr en þeir voru aftur komnir heim að Hólum og gengnir til stofu.

Biskup réð samt til ferðar í annað sinn, komst hann þá og menn hans norður á Hjaltadalsheiði; gjörði þá að þeim fjúk með stríðviðri og gaddi; þó var ratljóst. Varð þá öllum þeim, er í ferðinni voru, snögglega mál að bjarga brókum sínum; en þegar þeir ætluðu að standa upp aftur, gátu þeir það ekki; lá þeim brátt við kali og sáu sér loks ekki annan kost en að heita því fyrir til lausnar sér að snúa heim aftur.

Ekki var laust við, að menn hentu gaman að ferðum biskups, en það gjörði séra Guðbjartur aldrei; kvaðst hann ætla, að biskup hefði ekki ætlað að finna sig, því að til þess hefði hann ekki þurft að hafa fjölmenni.

Nokkru seinna var biskup á ferð við annan mann norður í Eyjafirði og gjörði þá ferð sína um leið heim til séra Guðbjartar; tókst honum það greiðlega og hitti svo á, að enginn var úti. Biskup gekk þegar til stofu; sá hann, að prestur sat við borð og studdi hönd undir kinn og hafði bók fyrir sér; biskup þreif bókina, en hvernig sem hann fletti henni, sá hann ekkert nema óskrifuð blöðin. Biskup spurði prest, til hvers hann ætlaði þessa bók; en hinn kvaðst ætla hana undir prédikanir.

"Þú held ég ætlir það," svaraði biskup reiðulega, "sem dýrkar djöfulinn."

En varla hafði hann sleppt orðinu, fyrr en hann sá gröf með bláleitum loga, og stóð hann sjálfur tæpt á barminum, en grá hönd greip í kápulaf hans og ætlaði að kippa honum í logann.

Rak þá biskup upp hljóð og mælti: "Fyrir guðs skuld hjálpið mér, herra prestur."

Rétti séra Guðbjartur honum þá hönd sína og sagði: "Slepptu honum, kölski."

Færðist þá allt í samt lag aftur.

Prestur mælti þá: "Það er von, að óvinurinn sé nærri þeim, sem bera nafn hans í munni sér og biðja ekki um frið drottins yfir það hús, er þeir koma í; það er ég vanur að gjöra, og þó berðu mér á brýn, að ég hafi sleppt réttri trú."

Biskup mýktist nú nokkuð í máli. Töluðust þeir þá lengi við tveir einir og skildu síðan með vináttu; sagðist biskup vilja óska þess, að allir væru jafn-guðhræddir menn og Guðbjartur sinn. Aldrei bar á því endranær, að prestur beitti kunnáttu sinni, en undarlega þótti fara eftir forspá hans og fyrirbænum.

Þorkell hét sonur séra Guðbjarts; hann skrifaði fyrstur rúnabókina Gráskinnu, er öll fjölkynngi var höfð úr á seinni öldum. Bók þessi lá lengi við skólann á Hólum, og lærðu sumir piltar nokkuð í henni, helst hinn fyrsta part, er var ritaður með málrúnum. Var þar ekki kenndur galdur né særingar, heldur meinlaust kukl, eins og glímugaldur, lófalist og annað þess konar, og gátu allir orðið sáluhólpnir, þó þeir lærðu þann partinn. Seinni og lengri parturinn var þar á móti ritaður með villurúnum, er fáir gátu komist niður í, enda var þeim meinað það af meisturunum. Þar var allur hinn rammari galdur, og urðu þeir allir óþokkasælir og ólánsmenn, sem voru rýndir í honum.



Netútgáfan - janúar 1998