- G rýla er að vísu
- gömul herkelling;
- bæði á hún bóndann
- og börnin tuttugu:
- Fyrsti Skreppur,
- önnur Skjóða,
- þriðji Þröstur
- og Þrándur hinn fjórði,
- Botni, Brynki,
- Böðvar, Höttur,
- Stútur, Stefnir,
- Stikill, Flaska,
- Ausa, Askur,
- Koppur, Kyppa,
- Musull, Mukka.
- Ól hún í elli
- enn tvíbura
- Sighvat og Surtlu
- sem sofnuðu bæði.
- Grýla kallar á börnin sín
- þegar hún fer að sjóða til jóla.
- Komi þið hingað öll til mín.
- Leppur, Skreppur, Langleggur og Skjóða.
- Brytjaðu Leppur bóg af nauti,
- bjarndýrslær og þjó af kú,
- kapalshrygginn býsna blautan,
- bringukollinn og lendabú,
- sauðarkrof og selinn feita
- og svínsskammrif nokkuð fín.
- Grýla kallar á börnin sín.
- Þó mun ekki af þessu veita
- ef þiggjum máltíð góða,
- Leppur, Skreppur, Langleggur og Skjóða.
- Sæktu vatnið síðan Skreppur,
- sjálf hún Grýla mælti þá.
- Undir láta líst mér Leppur,
- laglega það fara má.
- Sjálf er ég eins og sigakeppur
- og svo er líka hún Skjóða mín.
- Grýla kallar á börnin sín.
- Ef mér fótur óvart sleppur
- upp þá gjöri ég hljóða,
- Leppur, Skreppur, Langleggur og Skjóða.
- Nú skal Leppur sjálfur sjóða,
- sá það verkið dávél kann.
- Ketilinn Skreppur hefur til hlóða
- og hellir á barma staðfullan.
- En undir kynda á hún Skjóða
- með úlfgrátt hár og síðar brýn.
- Grýla kallar á börnin sín,
- en Langleggur á að bjóða
- öllu liðinu fróða,
- Leppur, Skreppur, Langleggur og Skjóða.
- Grýla reið fyrir ofan garð,
- vildi finna Þorvarð;
- með skorpinn fisk og skötubarð
- skaut hún hann í Þorvarð.
- Stígum við stórum
- stundum til grunda.
- Belg ber ég eftir mér
- barnanna fulla.
- Hér læt ég skurka
- fyrir skáladyrum:
- "Vaknaðu gýgur."
- Ei vill gýgur vakna.
- "Er framorðið?"
- "Sól á milli augna þinna,
- sofa máttu lengur
- einn dúrinn drengur."
- "Hver er kominn úti?"
- "Björn á brotnu skipi."
- "Hvað vill Björn?"
- "Biðja um nálar."
- "Hvað vill Björn með nálar?"
- "Að sauma segl."
- "Hvað gengur að segli?"
- "Slitið af veðri."
- "Hvað gjörði hann við nálarnar
- sem ég fekk honum í fyrragær?"
- "Hann gaf Hala bróðir."
- "Hvað gjörði Hali við?"
- "Kastaði út á miðja götu og sagði
- að brenna skyldi á baki þeim sem ætti."
- "Hvað ertu að segja núna?"
- "Ég er að syngja á tölur mínar,
- gott barn, því heilagt er á morgun."
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - janúar 2000