Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu einn son og eina dóttur. Dóttir þeirra var væn stúlka og vel að sér, en sonur þeirra var illur í skapi og hinn mesti óþokki.Nú liðu tímar og fer konungur að eldast, en syni hans leiðist hvað hann lifir lengi og loksins tekur hann það fyrir að hann drepur foreldra sína og systur sína. Kóngssonur fær nú ríkið eftir föður sinn og vill kvongast, en það gengur honum illa sökum orðstírs þess er af honum fór. Þó fer svo á endanum að hann fær sér konu þegar langur tími er frá liðinn. Um samfarir þeirra er ekki getið annað en það að þau áttu dóttur eina barna sem Ingibjörg er nefnd; hún var afbragð annara kvenna fyrir sakir fríðleiks og fegurðar.
Svo er frá sagt að móðir hennar leggst eitt sinn mjög veik. Þá kallar hún Ingibjörgu dóttur sína fyrir sig og mælti: "Svo segir mér hugur um að ég muni nú deyja. Ekkert get ég hjálpað þér þó ég vildi, en hér er lindi sem þú skalt jafnan hafa yfir um þig, og meðan þú hefur hann mun þig ekki mat bresta. Hér er einnig tík sem ég gef þér því þegar ég er dauð mun faðir þinn vilja sofa hjá þér og mun hann þá hafa á þér taug og skaltu þá hafa einhver ráð að koma tíkinni í taugina, en forða sjálfri þér."
Nú deyr drottning. En hið næsta kvöld skipar konungur dóttur sinni að sofa hjá sér. Hún færist undan, en hann hótar að drepa hana ef hún ekki hlýði, þá þorir hún ekki að færast undan lengur. Ingibjörg kvaðst samt þurfa að læsa höllinni áður en hún gangi til sængur.
"Þetta eru ósannindi," mælti konungur, "og þú ætlar þér að sýna mér pretti."
Ingibjörg lætur ekki af svari sínu að heldur.
Konungur mælti: "Með því einu móti sleppi ég þér frá mér að ég hafi á þér taug," og það gjörir hann. Nú fer Ingibjörg til hallardyra og hnýtir þar tíkinni í taugina sem kóngur dregur að sér, en hún forðar sér út úr höllinni. Myrkur var á úti og gengur hún í myrkrinu alla nóttina. Um morguninn kemur hún á sjóvarkletta, þar liggur kaupskip undir. Hún biður kaupmenn hjálpar þannig að hún biður þá að flytja sig í land nokkurt er hún til tekur. Það gjöra þeir.
Nú stígur hún á skip og skipið siglir leið sína og byrjar kaupmönnum vel. Þeir koma við land þar sem Ingibjörg hafði til tekið og skilja hana þar eftir. Hún gengur á land og kemur að litlum bóndabæ; þar biður hún að lofa sér að vera og fær hún það.
Í landi þessu var ungur konungur og ókvæntur og bjó nærri bóndabæ þeim sem Ingibjörg var á. Bóndi þessi hafði það starf á hendi að hann varðveitti föt og skrúða konungs og lét þvo klæðnað hans og lín. Konungur veitti því athygli að klæðnaður hans var betur varðveittur en áður og það svo að hann undraðist þá breyting sem á því var orðin.
Einhverju sinni gjörir hann sér ferð til bónda. Þar sér hann Ingibjörgu og finnst mikið um fegurð hennar og atgjörvi. Og loksins fer hann þess á leit að fá hana fyrir konu og tekur Ingibjörg því vel og kurteislega. Síðan er veisla til reidd og brúðkaup þeirra haldið með miklum sóma.
Einhverju sinni mælti Ingibjörg drottning við konung: "Ég bið þig einnar bónar, konungur, að taka engan mann til veturvistar áður en ég veit af." Konungur lofar henni því.
Nú líða nokkur ár svo að ekki ber til tíðinda. Einu sinni kemur aldraður maður til konungs og biður hann veturvistar.
"Því vil ég ekki lofa," segir konungur, "fyrr en ég hef talað við drottningu mína."
"Það er þó ætlan mín," segir aðkomumaður, "að þú megir svo miklu ráða í ríki þínu sem að taka mann til veturvistar og enda má þykja lítilmótlegt fyrir kóng að þurfa að spyrja drottningu sína um þvílíkt; var ég og einu sinni konungur og get því borið um slíka hluti."
Hann er þangað til að tala um fyrir konungi að hann lofar aðkomumanni veturvist. Konungur segir drottningu frá þessu, en hún kvað það miður hafa orðið og tekur því þunglega.
Nú kemur að því að drottning verður ólétt og svo er sagt að þegar hún leggst á sæng þá getur hún ekki fætt. Konungur lætur kalla til sín alla hina bestu lækna, en allt verður það árangurslaust. Konungur leitar ráða til vetrarsetumanns síns og kveðst hann muni reyna að hjálpa drottningu með því móti að enginn sé viðstaddur meðan hann sé hjá henni. Það lætur konungur eftir honum.
Vetrarsetumaður hjálpar drottningu og gengur það fljótt. En þegar barnið er fætt sem var fallegur sveinn þá tekur hann það og kastar því út um hallargluggann og tekur hvolp og sýnir konungi og segir að þetta hafi hún fætt af sér.
Drottning verður bráðum ólétt í annað sinn og atvikast allt á sömu leið með fæðinguna og barnið eins og sagt var um fyrsta barnið.
Nú líður nokkur tími og verður drottning ólétt í þriðja sinn. Þá vill svo til að konungur fær boð frá Herrauði konungi bróður sínum svolátandi að hann biður konung að koma sér til hjálpar og hafa með sér herlið svo mikið sem hann geti því óvinaher sé kominn í ríki sitt. Konungur vill nauðugur fara og því síður vill drottning að hann fari, en þó verður það úr að hann fer að hjálpa bróður sínum sem var hættlega staddur, en biður hinn gamla vetrarsetumann fyrir drottningu sína.
Þegar konungur er fyrir litlum tíma úr landi farinn fær drottning jóðsótt og elur fagurt meybarn. Vetrarsetumaður kastar barninu út um hallargluggann að vanda.
Vonum bráðar kemur konungur úr herferðinni heim í ríki sitt. Er drottning þá orðin heilbrigð og fagnar vel konungi.
Vetrarsetumaður kemur eitt sinn að máli við konung, færir honum ótugtarlegan hálfblindan kettling og mælti: "Hér sérð þú, konungur, afkvæmi það sem drottning þín hefur nú fætt í heiminn og sýnist mér það ekki samboðið veldi yðar og tign að eiga þá drottningu sem samlagar sig við auðvirðilegustu kvikindi."
Við þetta verður konungur óglaður mjög og þungbúinn í skapi. Hann tekur það fyrir að hann lætur smíða tréstokk og er drottning lögð í hann. Síðan eru um stokkinn spenntar þrjár járngjarðir, borið á hann hunang og borinn síðan út á skóg. Þar er stokkurinn lagður á meðal trjánna með drottningu í.
Nú koma villudýr og sleikja þau stokkinn, hrekkur þá ein járngjörðin í sundur svo að dýrin fælast. Dýrin koma bráðum að sleikja stokkinn aftur, en þá hrekkur önnur járngjörðin svo þau hlaupa frá. Þegar lítill tími er liðinn koma dýrin enn að sleikja stokkinn; hrekkur þá þriðja járngjörðin með svo miklum bresti að dýrin fælast og hlaupa langt frá út á skóg.
Nú opnast stokkurinn og rís drottning upp og litast um; tekur hún það þá fyrir að ganga um skóginn. Hún gengur lengi þangað til hún kemur að litlu húsi nokkru. Þar sest hún niður.
Að lítilli stundu liðinni kemur þar út kona. Hún mælti: "Illa ertu komin, Ingibjörg kóngsdóttir."
Konan býður drottningu að koma í húsið og það þiggur hún. Þar er uppbúið rúm í húsinu sem konan býður henni að hvílast í og þegar konan hefur smurt allan líkama hennar leggst hún fyrir og sofnar fljótt. Hún sefur vært, en þegar hún vaknar aftur er bjart í húsinu og sólskin fagurt inn um gluggana.
Konan talar við drottningu og segist nú ekki geta hjálpað henni eins og hún vildi, "en hvern þann hlut sem þú sérð hér í húsinu máttu kjósa þér ef þú vilt," segir hún.
Þá veltur þar fram nokkurs konar ófreskja, engum hlut líkari en gorvömb og mælti: "Kjóstu mig, kjóstu mig, kjóstu mig."
"Á ég að kjósa þetta?" mælti drottning.
"Eigi mun þér það lakara," mælti konan og þá kýs hún sér gorvömb þessa. En í sama vetfangi hverfur rúmið, húsið og konan, en drottning er þar ein eftir hjá Gorvömb.
"Nú skaltu elta mig, drottning," mælti Gorvömb.
Hún veltur þá á stað og veltur lengi og langan veg þangað til þær koma að sjóvarströnd. Þá mælti Gorvömb: "Komdu nú á bak mitt, drottning, því hér ætla ég yfir um."
Það gjörir drottning. Síðan botnveltist Gorvömb yfir sjóinn þangað til þær koma við eyju eina. Þar var fjárhús og bú konungs þess er drottning átti. Þær fara á land og koma að einu fallegu húsi. Þar fer Gorvömb inn og drottning líka.
"Í þessu húsi verðurðu nú að vera fyrst um sinn," mælti Gorvömb við drottningu; "ég á það sjálf."
Er drottning þar um nokkurn tíma og lifir í allsnægtum hjá Gorvömb.
Einn dag safnar Gorvömb saman miklum eldiviði og gjörir bál mikið. Bálið sást frá höll konungs.
Þá mælti vetrarsetumaður til konungs: "Nú eru óvildarmenn komnir í eyju þína, konungur, og þarf að reka þá á burt."
Konungur fellst á það og leggur vetrarsetumaður af stað á skipi til eyjarinnar. En þá verður stormur og sjógangur svo mikill að hann má hverfa til sama lands aftur.
Gorvömb safnar eldsneyti og gjörir bál mikið næsta dag og fer þá vetrarsetumaður af stað aftur, en allt fer eins og fyrri daginn að hann má vegna ofsaveðurs hverfa heim við svo búið.
Hinn þriðja dag gjörir Gorvömb bál mikið að nýju og það svo að hirð konungs og sjálfum honum ofbýður. Gjörir þá konungur út stórt skip og fer sjálfur með vetrarsetumanni sínum til eyjarinnar. Þeim gengur ferðin vel og þegar þeir koma til eyjarinnar kemur Gorvömb til sjóvar.
Þá mælti vetrarsetumaður konungs: "Það mun vera þú sem ert að ræna og spilla hér í eyju konungsins."
"Við skulum seinna tala um það," mælti Gorvömb.
Gorvömb býður konungi heim til sín og það þiggur hann. Gorvömb hafði herbergi afsíðis í húsi sínu. Þar lætur hún konung og vetrarsetumann fara inn og setur konung á gullstól, en vetrarsetumann á járnstól með hespu sem hún spennir um bringspalir hans.
"Nú bið ég þig bónar, konungur," mælti Gorvömb, "að þú látir nú þennan vetrarsetumann þinn segja ævisögu sína."
"Það vil ég gjöra, mælti konungur, en þegar konungur skipar honum það færist hann undan. Þó byrjar hann loksins að segja frá.
Þá mælti Gorvömb: "Þú segir ekki rétt frá," og herðir á hespunni sem var svo tilbúin að í henni voru járnbroddar sem stungust inn í brjóst karlsins. Vetrarsetumaður byrjar í annað sinn.
Þá mælti Gorvömb: "Þú sleppir undan og segir ósatt," og herðir á hespunni svo karlinn hljóðar. Vetrarsetumaður byrjar í þriðja sinn og segir langan kafla.
Þá mælti Gorvömb: "Þú bæði skilur eftir og lýgur," og herðir hún þá járngjörðina svo karlinn emjar hástöfum; hugsar hann þá að hún muni ætla að kreista úr sér lífið. Hann byrjar þá söguna að nýju og segir hana til enda.
"Nú er rétt frá sagt," mælti Gorvömb, "og þykir þér ekki konungur að þessi maður sé búinn að lifa nógu lengi?"
"Jú," sagði konungur og grét.
Þá dró Gorvömb hellu undan járnstólnum; var þar undir sjóðandi bikketill og féll þar vetrarsetumaðurinn niður í og endaði þar líf sitt.
"Hvað viltu nú borga mér, konungur," mælti Gorvömb, "ef ég gæti komið með drottningu þína og börnin ykkar öll?"
"Þá mundi ég vilja gjöra fyrir þig allt hvað ég gæti," sagði hann.
Gorvömb sækir þá drottningu og verður þar sá fagnaðarfundur að þau föðmuðu hvort annað og grétu gleðitárum. Síðan sækir Gorvömb börnin þrjú og eykst þá enn meir gleði þeirra.
"Þess bið ég þig nú, konungur," mælti Gorvömb, "að þú giftir mig Herrauði bróður þínum."
"Það er þyngri þrautin," mælti konungur, "en þó skal ég leggja mitt besta til."
Nú fer konungur og drottning og Gorvömb með þeim heim í ríkið; gjörir þá konungur boð eftir Herrauði bróður sínum, og þegar hann kemur ber hann upp erindið og gengur allt mjög tregt, en þó verður það fyrir fylgi konungs og drottningar að Herrauður lofar að eiga Gorvömb.
Nú er Gorvömb leidd fyrir unnusta sinn og bregður honum þá mjög við. Þó er nú veisla til reidd og brúðkaup haldið og fer allt fram með mikilli viðhöfn; er brúðguminn mjög dapur, en Gorvömb hin kátasta og ræður hún sér varla fyrir gleði.
Nú kemur að því að þau brúðhjón eiga að ganga í eina sæng bæði og sjá menn þá að brúðguminn kvíðir fyrir því mjög. Þó sænga þau bæði saman eins og siður er til. Líður nú nóttin.
Um morguninn vaknar Herrauður og sér fyrir ofan sig fagra mær, en hamurinn af henni er fyrir framan rúmið. Herrauður brennir haminn og er nú hinn glaðasti. Var mær þessi kóngsdóttir í álögum og hafði stjúpa hennar lagt á hana. Eftir þetta fer Herrauður og drottning hans heim í ríki sitt og sátu síðan báðir konungar að ríkjum alla ævi eftir þetta og fór vel ríkisstjórn þeirra. Endar svo saga þessi.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - október 1998