GLÍMU - ODDUR  Á  HLÍÐARENDA



Lengi hafa menn haft þá trú að í Ódáðahrauni væru útilegumenn og skal hér koma saga er ljóslega sýnir að svo sé.

Landþingisskrifari Sigurður Sigurðarson bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann var maður auðugur að fé og átti margar jarðir norður í Eyjafjarðarsýslu. Hann hafði alið upp pilt þann er Oddur hét. Hann var bráðþroska og efnilegur. Hann var þá um tvítugt þegar þessi saga gjörðist.

Einu sinni þurfti Sigurður að senda norður og lét hann Odd fara. Oddur hafði þrjá hesta alda til ferðarinnar. Þetta var um Jónsmessu. Sigurður sagði honum að fara vestur á Kaldadalsveg og þar norður; því á Sprengisandi mundi vera ill færð og óvegað.

Oddur lést mundi gjöra svo sem hann sagði og fór síðan af stað. En þegar hann var kominn vestur í Eystrahrepp tók hann það ráð að fara Sprengisand því honum þótti sá vegur liggja beinna við. Segir nú ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur suður á fjöllin aftur.

Hefur hann þá Ódáðahraun á vinstri hönd, en Arnarfellsjökul á hægri. Var þá veður gott og færð hin besta. En er hann var kominn á miðjan Sprengisand sér hann hvar kemur maður ríðandi á brúnum hesti austan úr hrauninu og stefnir á hann. Oddur hægir nú á sér og þykist sjá að þetta muni vera útilegumaður.

Kemur nú maðurinn að honum og var hann á sauðsvörtum prjónfötum, með mórauða kollhúfu eða hettu á höfðinu. Aðkomumaður hleypur þegar af hestinum og ræðst á Odd og ætlar að setja hann af baki. Oddur hleypur af hestinum og takast þeir nú á og glíma. Verða þar nú sviptingar harðar, en að lyktum getur Oddur fellt hinn ókunna mann.

Hraunbúi biður hann að gefa sér líf, en Oddur kvaðst ei þora það því hann óttist að hann muni það illa launa. Tekur hann þá stein og fótbrýtur hann og dregur hann svo á þúfu eina á sandinum. Hann tók hestinn brúna og fór síðan leiðar sinnar.

Þegar hann kom heim spurðu menn hann tíðinda og hvar hann hefði fengið brúna hestinn. Oddur sagði að engin tíðindi hefðu gjörst í sinni ferð, en hestinn sagðist hann hafa keypt fyrir norðan.

Þegar Oddur var kominn yfir sextugt fór hann til Þorleifs bónda Nikulásarsonar á Háamúla í Fljótshlíð. Þorleifur átti dóttur Sigurðar landþingisskrifara. Var þá Oddur búinn að missa konu sína.

Reið hann á sumrum til alþingis með Þorleifi og fóru þeir oft að loknu þinginu ofan í Reykjavík. Einu sinni bar svo við að þeir voru í Reykjavík eftir þingið. Höfðu þeir þá komið hestum sínum fyrir í Kópavogi.

Einn góðan veðurdag fór Oddur að vitja hestanna. Voru þá mörg tjöld í Fossvogi og var Oddur að ganga á milli þeirra og skemmta sér. Kemur hann þá þar að sem þrír menn sitja vestan í Kópavogshálsi á grastó einni. Þeir höfðu hesta sína hjá sér og höfðu ei sprett af eins og aðrir. Oddur heilsar mönnum þessum og sér að einn þeirra er ellilegur og hefur bæklaðan fót. Oddur segir að hann hafi einhvern tíma meitt sig í fætinum. Hinn segir það satt vera. Rísa þá ferðamennirnir upp og taka hesta sína. Oddur fer nú leiðar sinnar.

Þegar Oddur fór austur fann hann einhvern gamlan kunningja sinn. Töluðu þeir margt saman og þá sagði Oddur frá öllum þessum atburðum og það með að þetta hefði verið sami maðurinn sem sat í Fossvogi og hann glímdi við á sandinum forðum. Oddur andaðist ári síðar á Háamúla í Fljótshlíð.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - ágúst 1998