GOTT  ER  AР GERA  VEL  OG  HITTA  SJÁLFAN  SIG  FYRIR



Einu sinni var prestur (líklega katólskur) að predika fyrir söfnuði sínum. Hann talaði mikið um hvað gott væri að gefa því maður fengi sjöfalt aftur. Drengur einn var við kirkjuna úr koti nálægt staðnum; hann var fyrirvinna hjá móður sinni bláfátækri sem átti ekki nema eina kú, en prestur átti sex kýr. Þegar drengurinn kemur heim þá segir hann móður sinni hvað gott væri að gefa og vill fyrir hvurn mun fara með þessa einu kú til prestsins og gefa hönum. Móðir hans vill það ekki, en hvað sem hún segir þá fer hann á stað með kúna heim á staðinn og gefur prestinum. Prestur þakkar gjöfina og þykir vænt um.

Nú bar svo til nokkru seinna að kýr prestsins koma heim að kotinu og þá drengurinn sér þær lætur hann þær inn í fjós og segir móður sinni að satt hafi prestur sagt hvað gott væri að gefa, því nú væri komnar sjö kýr í staðinn fyrir þá einu sem hún hefði gefið.

Nú er frá því að segja að nautahirðir prestsins kemur að kotinu og spyr eftir kúnum. Drengurinn sagðist ekkert vita um þær, en sjö kýr hafi komið sem móður sinni hafi gefist fyrir kúna sem hún hafi sent prestinum og sleppi hún þeim ei við nokkurn mann svo maðurinn má fara við svo búið heim aftur. Þegar prestur frétti þetta sendir hann hvurn manninn á fætur öðrum að sækja kýrnar og kómu allir svo búnir heim aftur.

Loksins fór prestur á stað sjálfur að kotinu og kom að máli við drenginn og innir hann eftir kúnum. Drengur sagði þar hefði komið sjö kýr sem móður sinni hefði verið sendar fyrir kúna þá sem hún gaf honum. Presturinn spurði að lit kúnna; drengurinn sagði slíkt er hann vissi. Prestur kveður þetta vera sínar kýr. Drengur segir það geti ekki verið því hann hafi sagt um daginn að sá sem gæfi fengi sjöfalt aftur.

Prestur sleppir þessu tali, en segir að hvor þeirra sem yrði fyrri til að bjóða öðrum góðan dag að morgni skyldi hafa kýrnar, og fer síðan heim til sín.

Um kvöldið nálægt háttatíma fer drengurinn heim að staðnum og fer upp á gluggann sem prestur svaf undir og liggur þar um nóttina. Þegar líður undir dögun heyrði drengur að prestur kallaði til ráðskonu sinnar og spurði hana hvört ei væri mál að ríða ofan til Jerúsalem. Hún kvað það ei fjærri.

Prestur fer á fætur og nokkru síðar kemur hann út. Í því bili hleypur drengurinn fram á bæjarburstina og bauð presti góðan dag.

Prestur mælti: "Komstu hingað snemma?"

"Þegar þér riðuð ofan til Jerúsalem," sagði drengurinn.

Prestur bað hann eiga kýrnar en þegja yfir því sem hann hefði heyrt.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - mars 1999