Gunnar Eyfirðingapóstur var göngumaður svo léttur að afbrigði þótti; fór hann því allar vetrarferðir sínar gangandi og bar töskuna.Einu sinni um vetrartíma var hann einn á ferð suður Tvídægru. Veður var gott og gangfæri greiðligt. Nálægt miðri heiðinni sér Gunnar mann einn mikinn langt til hliðar við sig og stefnir hann á veg fyrir Gunnar og hittast þeir brátt. Sér Gunnar að þetta er útilegumaður og stendur honum nokkur kali af honum.
Maðurinn læst vilja fylgjast með Gunnari og slær á leið með honum. Vill Gunnar að hann gangi veginn undan sér; það vill hinn ekki og gengur hann á baki hans. Gunnar herti þá gönguna sem mest mátti hann og dregur hinn eftir hraðfari. Fara þeir lengi þannig að fjallbúinn fylgir Gunnari, en nær þó ekki.
Koma þeir loks að gili einu er lá þvert fyrir. Þeim megin í gilinu sem fjær þeim horfði var hengjuskafl einn mikill og harðfenni. Gunnar hikar ekki og rennur hann upp skaflinn og kemst á ofan; snarar hann þar niður töskunni og býr sig til varnar; var þar hið besta vígi.
Þegar fjallbúinn sér viðurbúnað og ætlun Gunnars hættir hann að ráðast upp skaflinn og segir: "Ætíð eruð þið eins fótfimir Norðlingar," og snýr hann af leið til baka.
Þegar Gunnar sér það tekur hann tösku sína, heldur leiðar sinnar í ákafa og nær byggðum suður af heiðinni um kvöldið. Sagði hann svo að hefði hann ekki hitt hengjuna mundi hann ekki hafa undan komist.
Öðru sinni á ferð gisti Gunnar póstur að Melum í Hrútafirði og ætlaði að morgni suður Holtavörðuheiði; var hann einn á ferð því engir treystust að fylgja honum.
Um kvöldið á Melum kemur kvenmaður inn til hans; hún var borgfirsk. Hún hét Þuríður. Engin deili þekkir Gunnar á henni. Biður hún hann að lofa sér að fylgjast með honum suður heiðina. Gunnar afsegir það með öllu, því ekki vilji hann hafa tafir af henni. Hún kveðst ekki ætla til þess að hann bíði sín, en með honum mun hún fara þótt hann banni.
Gunnar fer á fætur fyrir dag, tekur hann tösku sína og hleypur út. Þegar hann kemur fram í bæjardyrnar er stúlka hans þar, búin til ferðar og kvaðst bíða hans.
Gunnar svarar henni engu og snarast út hjá henni og tekur á rás suður túnið og upp til heiðarinnar; sér hann að stúlkan kemur á eftir; fer hann nú sem hraðast. Ætlar hann að hún skuli sjá sitt óvænna og aftur hverfa. Fer hann nú þannig uns hann kemur að Hæðarsteini.
Er hann þá dæstur mjög; sest hann þar niður að hvíla sig, og er hann hefur litla stund setið kemur stúlka hans.
Þegar hann sér hana stendur hann upp, tekur nú á rás og fer enn langa stund. Dregur þá hverki sundur né saman með þeim og sest hann enn niður og hvílir sig.
Kemur hún þá til hans og spyr hvert hann ætli ekki að halda áfram.
Fer hann svo enn lengi að þau fylgjast og er nú langt komið heiðinni; býður hún honum þá að bera fyrir hann töskuna, hann vill það víst ekki.
Og er að byggðum leið fer hún að ganga undan honum og nær bæ fyrri en hann og getur þar þess að hún hafi orðið póstinum samferða yfir heiðina og sé hann skammt á eftir sér.
Þegar Gunnar nær bæ þessum beiðist hann gistingar því hann treystist ekki lengra að fara. Stúlkan stóð þar við litla stund og fór svo til gistingar á annan bæ.
Aldrei kveðst Gunnar í aðra eins gangraun komist hafa.
Þegar hann var gamall orðinn hætti hann póstgöngum og lifði eftir nokkur ár. Vóru þá fætur hans orðnir svo máttvana að hann stóð á knjám við slátt.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - júlí 1998