======================
Vilhjálmur bjó á Kirkjubóli í Kirkjubólshverfi í Útskálasókn og Snjálaug kona hans. Landseti þeirra var bóndi í Sandhólakoti (nafn hans hefi ég ekki heyrt) og hét kona hans Guðrún Önundardóttir.Þau voru svo fátæk að þau áttu ekkert í landskuldina. Því tók Vilhjálmur pott upp í hana, þann eina sem þau áttu. Þessu varð Gunna Önundardóttir næsta reið, en vann ekkert á, gekk heim að Kirkjubóli og lagðist þar niður á bekk í dyrunum mállaus af reiði. Snjálaug færði henni messuvín. Hún saup á og spýtti síðan framan í Snjálaugu.
Síðan dó kerling og var smíðað utan um hana. Líkmenn báru kistuna á öxlunum eins og þar var þá siður til; stundum var hún svo létt sem ekkert væri í henni, en stundum svo þung að þeir roguðu henni varla.
Hún var flutt að Útskálum og jarðsungin fyri norðan kirkjuna. En á meðan verið var að moldausa hana sáu þeir sem skyggnir voru hvar hún var milli húsanna og hjá þangkestunum upp í garði. Erfið eftir hana var haldið á Lambastöðum.
Var Vilhjálmi boðið að fylgja honum suður yfir Skagann, en hann vildi ekki. Vilhjálmur var talinn vel tveggja maka maður. Um morguninn eftir fannst hann örendur þar á skaganum beinbrotinn og illa út leikinn.
Eftir þetta var Gunna á gangi þar á Skaganum og um hverfið og villti menn, en gerði ekkert annað til meins. Þá var síra Eiríkur á Vogsósum; var honum sagt af þessu og beðinn úrræða.
Hann sendi vinnumann sinn suður og fekk honum hvítan trefil og bað hann rétta Gunnu annan enda; mundi hann hitta hana í bæjardyrunum í Hofi; skyldi hann passa að vera hennar í milli og veggsins svo hún kæmist ekki út um vegginn. Maðurinn fór og hitti hana þar sem síra Eiríkur sagði.
En er hún tók í trefilinn rak hún upp hljóð mikið. Teymdi hann hana fram á Reykjanes - að fyrisögn Eiríks - og að hver einum og sleppti henni þar, og gekk hún þar í kringum hann og sögðu menn hún hefði verið búin að ganga sig upp að knjám og var þess til getið að hún mundi síðan hafa fallið ofan í hverinn; og er sá hver síðan kallaður Gunnuhver. -
Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - ágúst 2001