GUÐMUNDUR  Á  KELDUM



Á Keldum í Sléttuhlíð bjó eitt sinn bóndi sem Guðmundur hét. Hann var giftur og átti son einn sem Jón hét. Meðan hann var í æsku andaðist móðir hans, kona Guðmundar. Bjó þá Guðmundur æði mörg ár ógiftur á Keldum, en á hvert aðfangadagskvöld hvarf hann og kom ekki aftur fyrr en á jóladaginn. Fékk enginn að vita hvert hann fór, og fór þessu fram hverja jólanótt þar til Jón var átján vetra. Þá var það á aðfangadaginn að hann bað föður sinn að lofa sér með. "Það skal ég gera," segir Guðmundur, "með því móti að þú farir í öllu að mínum ráðum, og er þér það sjálfum hollast."

Nú fóru þeir báðir um kvöldið og gengu vestur fyrir fellshalann að klöpp sem þar er, klappa þar upp á og koma þar út konur tvær, önnur roskin, en hin ung. Taka þær þeim feðgum mæta vel, leiða þá inn og setja fyrir þá vín og vistir, og voru þeir þar fram eftir nótt í gleði og yfirlæti. Segir þá Guðmundur syni sínum að þessi eldri kvenmaður sé kona sín og segist nú í vor ætla alfarinn til hennar, en Jóni syni sínum segist hann ætla stúlkuna. Jón tekur þessu lítið.

Nú er farið að hátta um nóttina, og háttar Guðmundur hjá eldri konunni og nefnir við son sinn að hátta hjá þeirri yngri, en Jón segir það sé hreint af. Leggur þá bæði faðir hans og konurnar að honum um þetta, en hann er ófáanlegur til. Sér hann að konunum mislíkar þetta stórlega. Sér hann sitt þá óvænna og hleypur í dauðans ósköpum út og heim að Keldum og segir fóstru sinni alla sögu.

"Hér er illt í efni," segir hún, "en farðu samt strax suðrað Felli og segðu séra Þorvarði og biddu hann ráða."

Fer nú Jón að Felli og finnur prest snemma á jóladagsmorguninn, segir honum alla sögu og biður hann ásjár.

"Hér er verra í efni en ég sé einfær úr að ráða, en ég á kunningja norður á Svalbarðsströnd sem kann að geta hjálpað þér, en þú verður þá að fara strax á stað. Hérna eru ferðaskór sem þú skalt setja upp og ekki taka þá af þér þó þér kunni að finnast þeir verða þröngvir. Farðu nú slíkt sem fætur toga norður að Leifshúsum á Svalbarðsströnd og skilaðu til hans Sigurðar að ég biðji að heilsa honum og biðji hann að sjá um þig."

Nú setur Jón upp skóna sem prestur fékk honum, kveður prest og heldur á stað, og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann er kominn inn fyrir Stærri-Árskóg; þá fara skórnir að þrengjast og ætla hreint að drepa hann, og er svo um stund. En þegar hann er kominn inn fyrir Hillurnar rýmast skórnir aftur, og heldur hann nú norður að Leifshúsum, finnur Sigurð og skilar til hans orðsending prestsins.

"Já, þá er nú Vöðluheiði," segir Sigurður, "en þú verður hérna í nótt."

Var Jón þar svo um nóttina. Um morguninn segir Sigurður við Jón: "Nú er ekki til setunnar boðið; verður þú nú að halda lengra og ekki linna fyrr en þú kemur austur í Múlasýslu, og máttu aldrei þaðan til baka fara. Fáðu mér skóna sem þú hafðir frá Felli, en hérna eru aðrir skór handa þér. Í dag skaltu fara yfir Vöðluheiði og gistu í nótt í Fjósatungu. Yfir heiðina skaltu fara á þingmannaleið, og mundu mig um það að hvað sem fyrir þig ber, þá farðu alltaf götuna, en aldrei út af henni, þó svo kunni að fara að þig langi til þess."

Fer nú Jón á stað og upp á heiðina á þingmannaleið. Þegar hann er kominn hér um á miðja heiði fer hann að langa til að fara út af götunni eða enda snúa aftur, og liggur við sjálft hann geti ekki stillt sig um það lengur. En í sama bili kemur til hans ókenndur maður og býðst til að fylgja honum. Jón er á báðum áttum hvort hann eigi að þiggja boðið, því hann er hræddur um þetta sé kannske einhver ólukkinn sem ætli að villa sig. Þó verður það úr að maðurinn fylgir honum og það af ofan að Fjósatungu, þá hverfur hann.

Jón er nú í Fjósatungu; en þegar hann er háttaður virðist honum konurnar úr fellinu sækja að sér og vilja draga sig fram úr rúminu. En í sama bili kemur til hans gömul kerling, fóstra bóndans í Fjósatungu, og sest á rúmið hjá honum og sat þar alla nóttina. Hvurfu þá konurnar svo hann gat sofið um nóttina.

Um morguninn fylgir kerling honum til næstu sveitar. Komst hann svo klaklaust austur í Múlasýslu, ílengdist þar, giftist og bjó þar til ellidaga og varð lánsmaður. - Frá Guðmundi á Keldum er það að segja að hann hvarf um vorið og fór í fellið til huldufólksins og kom aldrei síðan aftur til manna.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2000