Þegar Skúli Magnússon, sem síðar varð landfógeti, var sýslumaður í Skagafirði eða Hegranesþingi, sem það var oftast nefnt í þá tíð, þá bjó í Stóru-Gröf á Langholti maður sá, er Jón hét. Hann var kenndur við Stóru-Gröf og oftast nefndur Grafar-Jón.Einhverjir höfðu orðið til þess að kæra Jón fyrir Skúla sýslumanni fyrir þjófnað og annan klækiskap. Boðaði sýslumaður Jón þá á sinn fund, en Jón lagði þá ferð undir höfuð. Þegar Skúli sá, að Jón ætlaði ekki að koma viljugur, reið hann með nokkra menn til Stóru-Grafar til að handtaka Jón.
Þegar Skúli kom að Stóru-Gröf, fannst Jón hvergi, og hafði hann þó verið heima stundu áður. Var hans leitað árangurslaust um öll bæjarhús. Þegar Skúli og menn hans riðu úr hlaði, tóku þeir samt eftir því, að seljudrumbur einn mikill sjórekinn, reis þar upp við bæjarvegginn, og hafði ekki verið þar, er þeir komu.
Þegar Skúli var kominn suður á melana, sem eru á milli Páfastaða og Grafar, þá biður hann menn sína að stanza. Síðan fór hann af baki og gekk spölkorn frá þeim. Þegar hann kom til þeirra aftur, mælti hann: "Víst er Jón heima, og hefur hann verið rekaviðardrumburinn, er reis upp við bæjarvegginn, og skulum við að vísu heim fara."
Eftir það fóru þeir heim að Gröf aftur, en þá var viðardrumburinn horfinn og ekkert nýlundu annað en ær ein grákollótt, sem beit uppi á bæjarhúsunum. Sneri Skúli við það í burtu aftur.
Þegar Skúli og menn hans koma aftur suður á melana á sama stað sem áður, biður sýslumaður menn sína enn að stanza. Þá gekk hann litlu lengra frá þeim en áður, en kom til þeirra eftir litla stund. - Þá mælti Skúli:
"Vissulega er Jón heima, og hefur hann verið ærin kollótta uppi á bænum. Skulum við nú enn heim fara og freista að hitta hann."
Fóru þeir við það heim að Gröf aftur, og var þá Jón heima, enda var nú ærin ekki uppi á bænum lengur. Þegar sýslumaður reið í hlaðið, stóð Jón úti og fagnaði honum vel. Skúli tók því all-fálega og kvaðst vera kominn til að handtaka Jón, og skyldi það nú ekki undan dragast. Jón tók því vel, en bauð þeim til baðstofu, á meðan hann tygjaði sig til ferðar. Kvaðst Jón líka hafa ýmis skjöl, er hann þyrfti að hafa með sér, Skúli bað menn sína að gæta þess vel, að Jón slyppi ekki frá þeim, og fóru þeir við það til baðstofu.
Þegar inn kom, tók Jón kistil einn, sem var til fóta í rúmi hans og opnaði hann. Þar tók Jón upp ýmis blöð og sýndi sýslumanni og spurði hann, hvort hann sæi nokkuð ritað á blöðin. Sýslumaður leit á þau og kvað nei við því. Eftir það vafði Jón blöðin saman og stakk þeim á sig og lézt þess albúinn að fara með Skúla.
Þegar þeir komu suður á melana fyrir sunnan Gröf, víkur Jón sér að Skúla, kveðst þurfa að tala við hann og biður, að þeir fari af baki. - Sýslumaður stöðvar hest sinn og fóru þeir þar af baki. Þegar þeir voru komnir af baki, spyr Jón Skúla, hvort hann sé farinn að sjá illa. Ekki kvað Skúli það vera. "Víst ert þú farinn að sjá illa," segir Jón, "því að annars hefðir þú séð það, sem ritað var á blöðin, þau er ég sýndi þér."
"Þar var ekkert nema auður pappír," sagði Skúli. Þá sagði Jón Skúla og félögum hans, að þetta væru hin mögnuðustu galdrablöð, og að hann hefði af kunnáttu sinni getað glapið Skúla svo sýn, að hann hefði ekki séð það, sem ritað var á þau, enda hefði hann nú náð fullu valdi yfir þeim öllum, og gæti hann séð um, að enginn þeirra kæmist lifandi að Ökrum þann dag, ef þeir létu sig ekki lausan þegar í stað.
Fylgdarmenn Skúla höfðu heyrt, að Jón væri margvís. Urðu þeir allhræddir við þetta og aftóku, að Skúli færi lengra með Jón, og kváðust ekki þora að hætta á það. Þar sem Skúli sá, að hann gat ekki einn flutt Jón nauðugan til Akra og að nágrannar Jóns vildu ekki ganga á móti honum og aðstoða sig, þá afréð hann að sleppa honum í það sinn, en taka hann síðar, er færi gæfist. Fór Jón við það heim aftur.
(Þjóðsögur Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - desember 2000