SKÚLI  FÓGETI



Skúli landfógeti Magnússon var allra manna ráðsnjallastur, og hafa verið til ýmsar sagnir um það. Hann var líka manna raunbeztur, er því var að skipta.

Meðan Skúli var sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, komst einu sinni maður undir hendur hans, er uppvís hafði orðið að þjófnaði. Skúla þótti maðurinn ekki óvænlegur og langaði til að hjálpa honum, en þar var erfitt viðfangs. Þjófurinn var í haldi hjá Skúla á Ökrum, og var hann geymdur þar í skemmu einni á bæjarhlaði.

Þegar maðurinn hafði verið í varðhaldi í nokkrar vikur, var það eitt kvöld eftir háttatíma, að hann heyrði, að sýslumaður var að ganga um gólf í stígvélum fyrir utan skemmudyrnar. Sakamaðurinn heyrði, að sýslumaður var að tauta eitthvað við sjálfan sig upphátt, lagði hann þá við hlustirnar og heyrði, að sýslumaður sagði:

"Ef ég væri eins og fanginn hérna, þá skyldi ég brjóta mig út um gaflinn á skemmunni, fara upp í hesthúsið, taka reiðhestinn sýslumannsins, ríða svo einhvern andskotann austur á land og koma hingað aldrei aftur."

Að svo mæltu gekk sýslumaður burt, en sakamaðurinn lét sér orð hans að kenningu verða. Hann reif sig um nóttina út um stafninn á skemmunni, sem var úr þiljum einum, fór í hesthúsið og tók reiðhest Skúla. Því næst reið hann norður Öxnadalsheiði og nam ekki staðar, fyrr en hann kom austur á land. Þar tók hann sér bólfestu og breytti nafni sínu. Settist hann að hjá ekkju einni og var aldrei brugðinn við neina óráðvendni upp frá því.

Þegar vinnumenn á Ökrum komu út um morguninn, komu þeir skjótt aftur inn til sýslumanns með þys miklum og sögðu, að sakamaðurinn hefði brotizt út úr skemmunni í nótt og tekið hest úr hesthúsi.

"Farið þið að leita að honum og flýtið ykkur í öllum bænum," sagði Skúli. "Hann hefur líklega farið fram á Mælifellsdal og ætlað suður á land."

Vinnumennirnir bjuggust af stað í skyndi fjórir saman og héldu fram á Mælifellsdal. Urðu þeir einskis varir, eins og við var að búast, og komu heim daginn eftir svo búnir.



(Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar)

Netútgáfan - desember 2000