FLUTNINGUR  ÁLFA  OG  HELGIHALD



Sagnir Purkeyjar-Ólafs


Þá eg var á Arnarstapa plássbóndi, vildi svo til á nýársdagskvöldi einu, að þrennt eða fernt af fólki mínu fór út, og sá það, sem út kom, hvar lest fór ofan plássið; ekki taldi það hestana, hvað margir þeir voru, en víst höfðu þeir tíu verið, auk þeirra er á var riðið. Þrjár konur höfðu riðið í söðlum; fóru konur þessar og lestin að hól einum, er var þar úti á klettunum fyrir ofan gjá eina, er Pumpa er kölluð, og hvarf þetta allt, að því sýndist inn í hólinn: Þetta var reyndar huldufólk, er flutti sig búferlum.

1819 var unglingspiltur á Stóru-Ökrum í Skagafirði, er Guðmundur hét og var kominn undir tvítugt; hann var smali; hann lét út kindur fyrir dag morguninn eftir þrettánda; og var þá gott veður. Rak hann kindurnar fram á dal, er á var beitt, þegar veður var bærilegt.

Þegar hann kom með kindurnar á dalinn, sá hann, hvar lest fór; í lestinni voru bæði karlmenn og kvenmenn; einnig voru þar börn, og sat kvenfólkið og börnin í kerrum, en mikið farteski var á hestunum. Guðmundi kom ekki til hugar annað en að það væri hans kyns menn, þótt honum þætti það ólíklegt, að menn um þann tíma væru þar með flutning á ferð, og svo það, að það sat á kerrum.

Hann vildi finna fólkið og hljóp frá kindunum; en það herti sig að komast undan út með klettum nokkrum. Komst hann þó á hlið við það; en ei gat hann við það talað, því svo var langt á milli; líka fór að koma í hann efi, hvað þetta væri. Nú kemur það að hömrum nokkrum; þar tekur það ofan.

Sýnast honum þar opnar húsdyr og ljós inni brenna og þó þrennar eða fernar dyr opnar; sér hann, að fólk þetta gengur þar að; kvenfólkið gengur inn og börnin, en karlmenn láta farteskið inn í hin húsin. Síðan heyrði hann hringingar og söng, en ekkert orð skildi hann; þegar hann kom að klettunum, voru þá líka aftur luktir klettarnir, en kerrurnar, sem honum sýndist; kvenfólk og börn vera í, voru fyrir hans augum steinar. Sá hann nú, hvaða fólk þetta var, og vildi nú halda þaðan sem hraðast.

Seig þá að honum svefn svo dár, að hann gat ei gengið; honum fylgdi og magnleysi, svo að hann lagði sig niður og sofnar; vaknar síðan aftur, og er þá kominn dagur. Hann gengur nú magnlítill upp undir klettana; verður hann þá enn að leggja sig hjá klettunum og sofnar í stað, en vaknar síðan við, að honum fannst kalt vatn drjúpa á kinnvanga sér.

Var þá dagur kominn um allt loft; hann fann litla vætuna, þá hann strauk um vangann, en þá var hann búinn að fá megn sitt og afl, en var þó nokkuð ringlaður; komst hann þó til kinda sinna, er allar voru í hóp í dalnum.

Rak hann síðan kindurnar heim um kveldið og lætur þær inn í húsin mjög óreglulega; fer hann svo heim. Þótti fólki hann mjög eyðilegur í nokkurn tíma þar á eftir, en það fór þó smám saman af, og bar svo ei meira á honum.



Netútgáfan - október 1997