FLUTNINGSFELL  Í  ÞISTILFIRÐI



Eitt sinn bjó bóndi í Þistilfirði á þeim bæ sem Fell hét. Hann var auðugur að gangandi fé og hafði hann sauðahús langt frá bæ sínum inn með fjalli. En þar var örðug smalamennska og hlaut bóndi að ráða sér á sauðahúsin duglega fjármenn, en honum hélst illa á þeim því á hverjum jólum hvarf sauðamaður. Undi bóndi því illa. Vóru svo liðin þrenn jól að ætíð hvarf sauðamaður bónda. Spyrst þetta víða og fréttir Múlapresturinn þetta mannahvarf.

Eitt sinn var hann á ferð norður í Axarfirði og ber hann í tal við menn þar hverjir valda muni mannahvarfi Fellsbónda.

Kunni enginn að fræða hann um það; samt heyrði hann að þegar menn ferðuðust yfir Einarsskarð sæist í hellisdyr í Garðsdalnum.

Þangað hélt prestur og sá hellisdyrin, og sem hann færist nær þeim finnst honum atli að síga á sig ómegin. Hann spyr hvort fjandanum sé alvara að skerða vitið í sér. Kemst hann svo allt að hellisdyrum.

Særir hann þann sem þar ráði fyrir að koma til dyra og kemur þá út óttalegur tröllkall. Prestur skipar honum að segja nafn sitt.

Hann kveðst Grímaldur heita.

Prestur mælti: "Veldur þú hvarfi sauðamannanna á Felli?"

Hinn kvað það svo vera.

"Eru mörg tröll í helli þessum?" spurði prestur.

"Rúm sextíu," mælti Grímaldur.

Þá mælti prestur: "Ekki skil ég að einn og einn sauðamaður Fellsbónda hafi verið mikill forði handa ykkur öllum."

"Nei," mælti Grímaldur, "þeir eru ei hafðir nema handa mér og konu minni því við erum höfuðtröllin í helli þessum."

"Eru engar aðrar dyr á hellinum?" mælti prestur.

"Það skiptir þig engu!" mælti hinn.

"Það vil ég vita," mælti prestur, "og skaltu þá nauðugur segja það."

Þá mælti risinn: "Hann er tvídyraður og liggur hellir þessi þvert gegnum fjallið og eru hinar dyrnar í fjallinu skammt frá sauðahúsunum á Felli."

"Nú hefur þú nóg sagt," mælti prestur; "og skal ég svo héðan af sjá til að þið steli ei framar mönnum né éti þá."

Síðan skipaði hann risanum inn í hellinn, en gekk sjálfur frá dyrunum.

En áður Grímaldur fór inn spurði prestur á hverju hyski hans lifði í hellinum, en hann kvað stórt fiskivatn vera í honum.

"Hvort eru þau fiskivötn ei alstaðar?" mælti prestur.

Síðan fór hann með marga menn að hinum dyrunum og gekk frá þeim á sama hátt og hinum. Þar næst skipaði hann bóndanum að færa bæinn þangað sem hann nú stendur; var hann síðan nefndur Flutningsfell. En aldrei síðan varð mönnum mein að að Grímaldi né hyski hans.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - október 1999