Undir Tvídægraheiði bjó ógiftur maður er Sveinn hét; hann var heimskur, en mesta karlmenni; hann var kallaður Sveinn flóafífl. Foreldrar hans voru hjá honum og einn vinnumaður.Sveinn hafði þá sýslu að fylgja skólasveinum yfir heiðina á haustin þegar þeir fóru í skóla. Einu sinni sagðist Sveinn ekki fylgja þeim ef þeir kæmu ekki allir fyrir veturnætur, en þeir klöguðu það svo það var ályktað að Sveinn væri allt eins skyldugur að fylgja þeim eftir veturnætur eins og fyrir þegar hann fengi fulla borgun fyrir -- svo Sveinn fylgdi þeim umyrðalaust eftir það.
Eitt haust komu allir sveinarnir nema einn. Fylgdi Sveinn þeim tafarlaust; en um veturnæturnar kom hinn sem eftir var og beiddist fylgdar af Sveini. Veður var tvísýnt. Sveinn sagði við skólapiltinn að hann mætti eiga það upp á sjálfan sig ef hann gæti ei fylgt sér á eftir ef gengi í veður. Hinn sagðist ei skyldi honum um kenna þó hann gæfist upp að ganga.
Bjó Sveinn sig þá til að fylgja piltinum og héldu þeir síðan af stað. Og er þeir voru ei langt komnir á heiðina fór að dimma með snjókomu og svo gjörði glórulaust dimmviðri svo að þeir villtust; en um kveldið grófu þeir sig í fönn og voru í henni um nóttina.
Um morguninn eftir fóru þeir að ganga og vissu ei hvert halda skyldi, gengu svo lengi um daginn þar til pilturinn gafst upp að ganga, og gróf Sveinn hann þá í fönn og vildi nú vita ef hann kynni að finna byggðir og yfirgefur piltinn og gengur nú lengi þar til hann finnur að hann er farinn að ganga ofan hlíðar. Fer þá að birta og hann sér þá að hann er kominn í ókenndan dal. Á rann eftir miðjum dalnum og sinn bær stóð hverjumegin árinnar. Annar bærinn var stór og reisuglegur, en hinn lítill.
Sveinn hugsar með sér að ei muni vera verra fyrir sig að víkja heim að þeim litla bænum og gengur hann heim að húsunum og ber að dyrum því ei sá hann neinn úti -- stúlka kom til dyra - heilsar henni og spyr hvert hann muni fá að vera þar um nóttina, en hún kvaðst það ei vita. Hann spyr hvað því valdi að hún skuli ei vita hvert hann fái að vera þar eður ei. Hún sagði það bæri til þess að hún væri þar engu ráðandi. Hann biður hana að útvega sér að drekka.
Fer hún þá inn og hann leynilega á eftir. En þegar stúlkan kemur inn heyrir hann að hún er spurð hvert nokkur sé kominn, en hún segir að úti sé maður og hafi hann beiðst gistingar. Þá segir einn að hann skuli fá að vera því hann skuli ei lifa nema þar til hann komi út til hans.
Fer Sveinn þá út og samstundis kom út roskinn maður og flýgur á Svein, en Sveinn setur broddinn á stafnum upp undir hökuna á manninum svo þegar gekk upp í höfuð svo hann féll niður dauður. Í því kom unglingsmaður og flaug á Svein, en Sveinn kom engri vörn fyrir sig. Fleygir hann þá stafnum og tekst á við piltinn. Berast þeir þá víða áður pilturinn féll. Ætlar þá Sveinn að bíta hann á barkann, en hann biður Svein að gefa sér líf. Sveinn sagði að það hefði ekki átt að gefa sér líf, svo mundi hann ekki gefa honum líf.
Í því kemur stúlkan og biður hann að gefa honum bróður sínum líf. Lét Sveinn þá piltinn standa upp með því skilyrði að þau skyldu ekkert gjöra honum illt. Leiddi pilturinn Svein þá til baðstofu; þar sá hann karl í öðrum enda baðstofu. Pilturinn vísar Sveini til sætis. Sveinn gengur til karls og heilsar honum, en karl tekur því mikið stutt. Sest Sveinn þá niður, en stúlkan færir honum mat; en þegar hann er búinn að eta fer hann að taka upp í sig því hann var tóbaksmaður og hafði búið sig vel út með það.
Sér hann þá að karl er ógnarlega vonalegur. En þegar Sveinn lét niður aftur tóbakið verður karl illilegur. Kemur þá stúlkan til hans og biður hann að gefa sér eina tóbakstölu handa honum föður sínum því hann sé orðinn tóbakslaus. Sveinn gaf henni kvartél af tóbaki.
Þá spyr pilturinn hvert hann vilji ekki koma út áður hann fari að sofa. Fara þeir þá ofan og út. Drengur spyr hvert hann viti hvaða maður það hafi verið sem hann hafi drepið.
"Nei," segir Sveinn, "líka stendur mér á sama þó það hefði verið bróðir þinn því hann ætlaði að drepa mig, en ég varði hendur mínar."
Pilturinn segir það hafi verið vinnumaður föður síns, faðir sinn sé maðurinn sem hann hafi séð inni og þau tvö systkin sem hann hafi þar séð; fleira sé þar ekki af fólki. Fara þeir þá inn aftur og gengur Sveinn til karls til að þakka honum fyrir matinn. Réttir hann höndina að karli. Karl tekur í hönd Sveins og kreistir svo fast að dofnaði öll höndin. Sveinn ætlar þá að draga að sér hendina, en hún er föst. Hnykkir hann þá fast svo karl mátti sleppa.
Þá segir karl: "Einhvern tíma hefðu verið þeir dagar mínir að þú skyldir ekki hafa dregið úr höndum mér."
Sveinn segir hann megi nú gjalda ellinnar; ganga menn þá til svefns.
Morguninn eftir var dimmt veður og biður Sveinn karl að lofa sér að vera þar á meðan ekki birti upp veðrunum. Karl sagði svo vera skyldi og sagðist mundi skipa honum verk, að hann skyldi fara yfir á bæinn. Þar byggju þrír bræður. Þeir hefðu lengi verið sér til baráttu; þeir hefðu fjóra vinnumenn. Karl segir hann skuli drepa þá alla.
Sveinn kvaðst það ei geta, einn maður á móti sjö.
Karl segist skuli ljá honum son sinn til að fara með honum og fær honum buddu og segir hann skuli dufta úr henni framan í þá þegar þeir komi út. Sveinn dregur að fara yfir á bæinn þar til komið var húm. Fara þeir þá yfir á bæinn; var þar enginn úti. Sveinn sér þar stóra heyhlöðu og segir hann við piltinn að hann skuli nú fela sig þangað til hann kalli til hans, og gjörir drengur svo; en Sveinn leggur eld í hlöðuna og gengur síðan ofan að bæjardyrum og klappar upp á.
Kemur strax til dyra einn. Sveinn heilsar honum og beiðist gistingar. Hinn segir það skuli í té. Sveinn segir við manninn að það muni kominn eldur í hús þar á bænum. Hann svipar sér upp á bæinn og sér að hlaðan er í ljósum loga. Snýr hann þá að Sveini, en Sveinn höggur til hans með exi er karl fékk honum. Það högg kom á háls manninum svo af fór höfuðið og í því komu hinir sex og sækja að honum, en hann hafði ekki tóm til að dufta úr buddunni framan í þá og fer hann því að kalla á drenginn, en hann kemur ekki.
Berjast þeir svo lengi og er Sveinn að smákalla á dreng þar til loks hann kemur. Er Sveinn þá búinn að fella þrjá af þeim sex og er ei að orðlengja það að hinir þrír féllu því þeir voru verjulitlir.
Sveinn spyr dreng hvert þar væri ei fleira fólk; drengur segir ekki svo hann viti. Sveinn kvaðst vilja kanna bæinn. Fara þeir þá inn og finna sjö kvenmenn og er svo sagt að þær hafi orðið þeim torsóttari en þeir. Þó varð það um síðir að þeir yfirunnu þær og bundu og létu þær sverja sér trúnað því Sveinn vildi ekki drepa þær, og að því búnu fara þeir heim til karls og segja honum tíðindin og þakkar karl Sveini fyrir starfann. Ekki er getið um að þeir hafi rænt stúlkurnar neinu.
Morguninn eftir var bjart veður og gott og vill Sveinn fara að leita heim til sín. Karl segist skuli láta son sinn til fylgdar. En þess segist karl ætla að biðja hann að koma aftur Í dalinn og taka að sér dóttur sína og við búi, og lofar Sveinn því.
Skiljast þau svo með vináttu og er ei sagt af ferðum þeirra fyrr en þeir koma á miðja heiðina. Þar skilst drengur við hann og snýr heim aftur.
En Sveinn kemur heim til foreldra sinna og verða þau honum fegin og aðspyrja hann á marga vega hvar hann hefði verið í veðrunum, en hann sagðist hafa legið úti.
Litlu eftir þetta tekur hann vinnumann sinn á eintal og segir við hann að hann ætli að gefa honum búið, en það verði hann [að] gjöra fyrir sig að taka að sér foreldra sína og annast þau til dauða.
Segir hann honum þá upp alla sögu hvar hann hefði verið og að hann ætli aftur í dalinn og biður hann að vera sér trúan og segja þetta engum manni fyrr en hann sé orðinn gamall. Það bað Sveinn vinnumann sinn líka að fara fyrir sig í kaupstað og flytja upp á heiðina á tilgreindan stað. Þessu lofaði vinnumaðurinn öllu staðfastlega.
Eftir þetta hvarf Sveinn svo enginn vissi hvert hann fór nema vinnumaðurinn, og vildu foreldrar hans láta leita hans og gjörði vinnumaður það til málamynda; og fannst Sveinn hvergi.
Vinnumaður segir við foreldra Sveins að hann hefði gefið sér allt eftir sig og trúðu þau því, því hann var vandaður maður og Sveini hafði verið vel við hann. Allt sem Sveinn bað vinnumanninn efndi hann rækilega. En þegar hann var orðinn fjörgamall sagði hann frá þessari sögu, en enginn vissi hvar dalurinn var. Og lýkur svo hér sögunni af Sveini flóafífli.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - október 1998