HULDUSTÚLKA  KALLAR  Á  FERJU



Svo bar við eitt haust á fyrri hluta 19. aldar, að karlmenn fóru í kaupstað af nokkrum bæjum í Bárðardal, svo að ekki var eftir heima nema börn og kvenfólk. Góðri stundu eftir að þeir voru farnir, kemur vinnukona, Helga að nafni, út á hlað á Halldórsstöðum. Heyrir hún þá, að einhver kallar ferju, en lögferja var þá, og er enn, á Litluvöllum, næsta bæ norðan við Halldórsstaði. - Eru báðir þeir bæir vestan við Skjálfandafljót, sunnarlega í dalnum. -

Stúlkan gengur inn og segir húsmóður sinni frá. Kveðst hún vilja ferja manninn, en á Litluvöllum sé engin sál í bænum nema konan með ung börn, og muni hann því enga hjálp fá þar. Konan leyfir henni að fara, ef hún treysti sér til. Gengur Helga nú út að Litluvöllum, og hafði kallið heyrzt þar líka. Sér Helga nú þann, sem kallaði. Er það kona, sem situr á fljótsbakkanum við ferjustaðinn. Gefur hún konunni auga, meðan hún gengur ofan að ferjunni, en þegar hún er komin ofan að fljótinu, sér hún engan.

Rær Helga þó yfir um, en þá fer á sömu leið, að göngukonan er alveg horfin. Beitarhús eru þar skammt frá, og leitar Helga þar, ef vera kynni að konan biði hennar þar, en þar sást enginn. Verður Helga nú að fara heim við svo búið og þykir atburður þessi kynlegur.

Nóttina eftir dreymir Helgu, að til hennar kemur stúlka, ung og fögur. Kveður hún Helgu vel og blíðlega og þakkar henni með fögrum orðum fyrir það, að hún hafi ferjað sig yfir fljótið daginn áður, því að í ferjunni hafi hún verið, þó að Helga sæi hana ekki.

"Ég er huldukona," mælti hún, "og á heima í Grásteini, sem er austur á Fljótsheiði, en nú er ég í heimboði hjá frændfólki mínu í Sexhólagili. - Skilja nú leiðir okkar, og far þú heil og vel."

Þá hvarf huldukonan, og sá Helga hana aldrei framar.



(Þjóðsagnasafnið Gríma)

Netútgáfan - nóvember 2000