Einu sinni var maurakarl allauðugur er bjó á litlu koti er hann í harðindum hafði náð eign á fyrir mjög lítið verð. Aldrei vildi hann eða tímdi að giftast, heldur bjó hann með ráðskonu eða bústýru nokkuð skyldri sér er flesta undraði á að hjá honum gat þreyð eða haldist, ekki betur en hann gerði til hennar. Þó almæli væri að hann ætti vingott við hana gat hann þó so um séð og til stillt að hún aldrei varð barnshafandi að hans völdum.Fólk hélt hann ei, nema einn smaladreng og einn vinnumann stundum og veitti þeim allt af skornum skammti, en safnaði og saman dró allt hvað hann gat í peninga, en þó keypti hann ei fleiri jarðir en þetta sitt eina ábýliskot, því hann þóttist enga geta fengið með fullgóðu verði.
Liðu nú so fram tímar uns þessi mauraþjón var orðinn vel fimmtugur að aldri, þá gekk skæð sótt yfir landið; kom hún líka við hjá þessum maurungi og þó hann, sem fáa vildi hýsa, vildi síðren ekki ljá henni hús settist hún þó upp og að hjá honum, og fékk hann með engu móti komið henni út úr bæ sínum. Meintók hún þar alla, en þó mest sjálfan hann, og so fóru leikar að hún kom honum undir so hann lagðist þungt og dó að lyktum ("því líka deyja þeir enu ríku"), en hitt heimafólkið kom aftur til heilsu þó það fátækt væri.
Maurabóndi þessi sem dauðinn vann á átti tvo bræður, bláfátæka barnamenn, og önnuðust þeir um útför hans og hugðu nú heldren ekki gott til að fá að rusla í peningadyngjum hins framliðna er allir höfðu fyri satt að ei mundi allsmáar, en þegar þeir fóru að ganga um polutur hans finna þeir engi skilling, en það lítið er til fannst af húsbúnaði og borðbúnaði og annað er að nokkru var nýtt og so búkot það er hann hafði á búið með búfé er þar stóð saman, það hafði hann allt ánafnað og eftir sig gefið bústýru sinni er ávallt hafði hjá honum verið, og var það að vísu heldur lítið en mikið í ráðskonukaup að reikna fyrir meir en tuttugu ára dygga þjónustu, og þó heimtu þeir bræður að hún léti þetta laust við þá allt, eða hálft að minnsta kosti, en hún lést ekki mundi laust láta nema með dómi og stóð í stímabraki út af þessu um hríð og horfði til lögsókna.
En nú víkur aftur þangað sögunni sem mauraþjóninn var jarðaður að sóknarkirkju sinni sem var útkirkja, en ei prests heimasetur. Á kirkjustaðnum bjó fátækur fjölskyldumaður. En næstu nótt eftir að mammonsþjónninn var jarðsettur er hinn staddur í lofthúsi einu og mátti þaðan glöggt sjá, því nýlýsi var á, út á gröf hans í kirkjugarðinum og verður bónda litið út þangað.
Sér hann þá að upp úr gröfinni kemur moldgusa mikil og litlu síðar önnur og því næst in þriðja og þar næst sér hann að upp úr gröfinni kemur hjúpfærður maður og litast lítið um kringum sig og tekur síðan á rás einn veg út úr kirkjugarðinum og sér hinn þá ei lengur til ferða hans.
Bóndi hefur nú gætur á hvert þetta muni so verða fleiri nætur og sér hann jafnan ið sama nokkru eftir dagsetur, og fer so fram í viku eftir jarðan hins. Um þetta bil var komið með annað lík (kistulagt) og sett í kirkjuna og skyldi þar bíða yfirsöngs til næstu helgar.
Nú kemur bónda í hug að reyna að gera draugsa grikk nokkurn eða blekkibragð, og sem hálfrokkið er um kveldið fer bóndi út í kirkju, tekur opna líkkistuna, færir dauðingjann úr líkhjúpnum sem var að vana alhvítur og færist í hann, og er hann honum skósíður.
Að so búnu gengur hann út úr kirkjunni og var þá komið dagsetur og stendur hann nú sem alhvít vofa undir kirkjuhliðinni þar beint gagnvart er var gröf draugsins (því hverki var hann líkhræddur né draughræddur) og sem hann hefir staðið so um hríð koma hinar venjulegu moldrokur þrjár upp úr gröfinni og eftir hina seinustu kemur draugurinn alskaptur og litast um og getur að líta væflinginn hvíta og segir:
"Hví stendur þú þar, einn lifandi maður?"
"Hví viltú ljúga á mig?" segir væflingurinn, "eða sér þú ekki á mér líkhjúpinn?"
Dauðinginn hleypur þá að væflingnum og nasar og þefar af honum á alla vega og finnur af honum nályktina: "Satt muntu segja," kvað þá draugurinn, "að dauður muntu, en hví stendur þú hér?"
"Því mér þótti leiðinlegt í kistuskrokknum hérna í kirkjunni, en mig langaði heldur til að sjá skildingagreyin mín þó ekki séu þeir nú margir, eða hví ert þú að brölta upp úr gröfinni þinni?"
"Því mér er sama í hug sem þér," segir draugurinn.
"Má vera að við getum þá átt samleið," segir væflingurinn.
"Vera kann það," segir dauðinginn.
"Viltu þá lofa mér að fara með þér fyrst?" segir væflingurinn náhjúpaði.
Hinn tekur því ekki fjarri og segir hann megi þá vera þegar búinn til ferðar og að svo mæltu hefur hann á rás og verður nú heldur hraðfara so hinn getur nú hvergi nærri fylgt honum, en er svo hefir gengið um hríð snýr draugurinn aftur og mælir heldur reiðuliga til hins.
"Þú lýgur að mér, bölvaður, þú ert ekki dauður, ef so væri þá værir þú ekki sona sporaseinn."
"Þú lýgur það aftur," segir hinn, "ég er sannliga dauður eins og þú."
Draugsi snýr þá aftur og hleypur enn að hinum og nasar af honum öllum og finnur enn nályktina af hjúpnum og segir: "Satt vænti ég þú segir að dauður muntu vera, en hví ertu þá so fjandans seinn á þér?"
"Ekki mundir þú undrast yfir því ef þú vissir hvað mér varð að dauðameini."
"Hvað var það?" segir draugur.
"Það," segir hinn, "að ég fekk átumein neðan í báða fæturnar so ég varð draghaltur og þoldi seinast ekki á fæturnar hót að stíga og því er ei kyn þó ég sé ekki so fótvakur sem þú, og máttu ekki fara so hart að sjái ekki eftir þér, því nóg er nóttin öll fyrir því handa þér að rísla í skillingum þínum."
Draugsi lætur sér nú þetta að góðri kenningu verða og fer síðan hóti hægra so hinn getur nokkurn veg haldið í við hann. Þannig halda þeir nú áfram um hríð uns þeir koma í landeign búkots þess er dauðinginn átti. Þar stefnir hann að hólbarði einu og nemur þar staðar, tekur þar upp úr jarðhnaus mikinn og er þar þá jarðhús inni fyrir og er það meir en til hálfs fullt með peninga; þar smýgur draugsi inn og fer nú að leika sér að skillingunum, en stundum er hann að velta sér og smjúga innan um þá og eitt sinn segir hann við hinn:
"Illa fór að ég ekki fekk að lifa þangað til mér tækist að fylla jarðhús þetta, því það var áform mitt og fyrirætlan, en þó má nú við þetta una þó ei sé meira en komið er."
Þarna er hann nú að ringla í skillingum uns langt er liðið á nótt; þá segir hinn við draugsa hvert honum ei þyki ráð að búa sig til heimferðar, en kveðst þó sjá að ei muni nægur tími fyrir þá til að skoða sína peninga á þessi nóttu, og megi það því vel bíða næstu nætur enda sé það lítið um að vera hjá því er hann hafi saman safnað, "en eins vil ég biðja þig þegar þú kemur heim til grafar þinnar, sem er að þú kennir mér hve maður á að fara að rísa upp úr gröf sinni sem þú gerir."
"Þetta er ekki so auðvelt," segir draugurinn, "því þessar þrjár moldarrekur sem presturinn eys á mann eru so mein-nökkvaþungar, en þegar þær eru upp komnar þá er allt unnið."
Þegar þeir hafa nú nokkuð rætt um þetta halda þeir af stað og heim til kirkjugarðsins.
Þá segir væflingurinn lifandi: "Nú verður þú að fara ofan í gröf þína og búa um þig sem þú ert vanur, og sýndu mér so hvernig þú fer að að rísa upp úr gröf þinni."
Hinn gerir nú svo og þegar hann er kominn í kistu sína og moldin öll komin í samt lag so engi nývirki má á sjá, þá gerir hinn lifandi væflingurinn þrjú öflug krossmörk yfir gröfinni, yfir höfði, fótum og miðbiki. Síðan bíður hann um hríð við gröfina og kemur þá engi moldargusa upp úr henni enda tekur þá að grýja af degi; gengur þá bóndi í kirkju og afklæðist náhjúpnum og færir hinn dauða í hann og býr um sem áður var og lýkur so kistunni.
Á næsta kveldi er hann enn á vakki og vakt eftir dagsetrið og hyggur nú að vandliga hvert ei sjái hinn dauða upp koma að vana og sér hann nú enga nýbreytni né moldargusur upp koma úr gröfinni og gengur so í þrjár nætur að ei verður hann var neinnar uppgöngu af gröfinni og þykist nú vita að krossarnir muni því valda og fer hann nú einn góðan veðurdag að leita hólsins er hinn hafði í dvalið um nóttina, og tekst honum að finna hann fyrir það að hann hafði stungið knífi einum í jarðhnausinn þann er í var dyrunum.
Kippir hann honum nú úr og finnur þá allt ið sama er hann séð hafði um nóttina. Tekur hann samt ekki einn pening þar af, en gengur frá öllu með sömu ummerkjum sem áður á vóru.
Síðan stefnir hann til sín bræðrum hins dána fépúka og spyr þá hvað þeir vili sér til þess gefa að hann vísi þeim á jarðfólgið fé hins framliðna frænda þeirra.
Þeir kveðast mundu vilja gefa honum það hálft við sig, en hann kvaðst láta sér lynda einn þriðja þess, eins og hann væri þriðji bróðir þeirra arfgengur, og lofa þeir því allfeginsamliga, og áskilur enn framar að þeir láti búráðskonu bróður þeirra halda angurslaust búkoti því er hinn látni hafði gefið henni, og öðru er þar var innan gátta, og játa þeir því líka glaðliga.
Að svo mæltu leiðir hann þá til féhólsins og tekur hann opinn og sjá þeir þar þá meira fé en þeir nokkurn tíma vænt höfðu og þakka honum mikilliga fyri alla þessa stórmiklu hjálp er hann þeim unnið hafði og segir hann þeim síðan upp alla sögu um hve hann komst að fundi fjárins, og fannst þeim mikið um hugdirfð hans og ráðsnilli í öllu saman og urðu allir þessir síðan allágætir auð- og auðnumenn - og lýkur so þessi sögu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - október 2000