Hildigunnur, systir séra Hálfdáns að Felli í Sléttuhlíð, hafði nýlega misst mann sinn; flutti hún þá búferlum að Lónkoti og bjó þar einyrkja við mikla fátækt. Hún átti son einn, Björn að nafni; hann var hraustur drengur og óbilgjarn og lék forkunnarvel á fiðlu. Björn var ekki heimafastur og hjálpaði lítt móður sinni; honum var það lagnara að flakka bæ frá bæ og úr einni svit í aðra, enda var honum vel tekið alls staðar sakir listar sinnar; en lítill var það búbætir fyrir Björgu, og ákvað móðir hans loks að koma honum fyrir hjá séra Hálfdáni bróður sínum til þess að reyna, hvort hann fengi fremur haldið honum að nýtilegri vinnu. Nú býr hún Björn á stað einn góðan veðurdag og gefur honum nesti og nýja skó. Heldur hann svo leiðar sinnar, og hafði hann oft farið þar áður. Er ekki neins að geta um ferð hans, nema að hann heyrði huldumál á leiðinni, eins og stundum hafði fyrir hann komið áður. Það bar og til, að hann hreppti þoku og dimmviðri, svo að hann sá ekki þverhandarskil, en varð að setjast fyrir undir kletti einum miklum, er hann kom að. Þá er það, að hann þóttist heyra vísur kveðnar í klettinum. Erindi þau, er geymst hafa úr gleymsku, eru svo fögur að innihaldi, að rétt þykir að skrá þau hér:
- Mér verður skipsins dæmi,
- er skorðulaust kúrir
- eitt við ægi kalda,
- engan stað fær góðan;
- rísa bárur brattar,
- í briminu illa þrymur. -
- Svo kveður mann hver, þá morgnar,
- mæddur í raunum sínum.
- Mér verður fuglsins dæmi,
- er fjarðalaus kúrir;
- skríður hann fljótt að skjóli,
- skundar hann veðrum undan;
- týnir hann söng og sundi,
- sína gleðina fellir. -
- Svo kveður mann hver, þá morgnar,
- mæddur í raunum sínum.
- Mér verður hörpunnar dæmi,
- hennar er á vegg hvolfir
- stjórnlaus og strengja,
- stillirinn er frá fallinn;
- fellur á sót og sorti,
- saknar mans í ranni. -
- Svo kveður mann hver, þá morgnar,
- mæddur í raunum sínum.
Þess er helst til að geta, að Björn hafi ort þetta sjálfur, sungið það og spilað undir á fiðlu sína.
Nú er ekki frekar að segja af ferðum hans. Hann finnur séra Hálfdán og flytur honum orðsending móður sinnar. Tekur séra Hálfdán honum vel, en fer brátt að leiða honum fyrir sjónir, hve ósæmilegt það sé fyrir hann að una hvergi og mega teljast allra sveita kvikindi; talar prestur svo um fyrir Birni, að hann ræður sig loks í vinnumennsku hjá honum. Séra Hálfdán var glettinn, eins og sögur bera honum, og þótti honum nú gaman að reyna þolrifin í Birni; hann vissi, að Björn var áræðinn og óbilgjarn, en vildi nú reyna hann til þrautar og gerði honum því ýmsar sjónhverfingar.
Það var einu sinni sem oftar, að hann sendi Björn niður í naust um kvöldtíma að sækja ýms veiðafæri, er orðið höfðu eftir þar um daginn. Þegar Björn kom niður eftir, var þar allt á tjá og tundri; veiðafærin voru á strjálningi hingað og þangað; og ekki nóg með það; þar voru tólf eða fleiri djöflar og draugar, er létu öllum illum látum, öskruðu upp yfir sig, sindruðu eldglæringum, spúðu innyflum og þeyttu af sér hausunum. Björn tók þetta allt með stillingu, en honum veitti ærið örðugt að tína saman pjönkurnar; þó tókst honum það um síðir, og hélt hann heimleiðis; vofurnar eltu hann alla leið heim að bæ, en hann lét sem hann sæi þær ekki. Þegar hann kom heim, spurði prestur hann, hvort ekkert hefði fyrir hann borið. Hann kvað lítið mark að því, en skrambans færin hefðu legið eins og hrossataðskögglar hingað og þangað. Prestur spurði, hvort hann hefði ekki séð piltunga nokkra vera að leika sér þar niðri frá. Björn sagði það vera, en sér hefði verið skemmtun ein í því.
Öðru sinni sat Björn yfir lömbum prests. Komu þá til hans tólf menn, þegar fór að halla degi, og spurðu, hvort hann vildi ganga að leikjum með sér. Hann var til í það, þó leikurinn reyndist allskrýtinn. Mennirnir fóru að iða og sprikla og dangla hver til annars, en þó kvað mest að, er þeir tóku af sér hausana og fóru að henda þeim hverir í aðra. Lentu kúpurnar óvægilega á Birni engu síður en öðrum, en hann lét þá ekki sitt eftir liggja og tók líka ofan. Þannig skemmtu þeir sér um stund; en loks kom hlé á leikinn, og settu þeir hausana á sig aftur, en þá sneru þeir allir aftur á bak og höfuðið á Birni líka. Svo hurfu mennirnir, en Björn fór að reika heim, og veitti honum það nokkuð örðugt, þó hann sæi í iljar sér og allan limaburð. Prestur kom til móts við hann og spurði, hvernig gengi. "Og vel," sagði Björn, "en ögn kemur mér það skrýtilega fyrir, að ég skuli sjá betur að baki mér en framundan; en vel má vera, að ég venjist því ágætlega." Strauk prestur þá brosandi hendinni um höfuð honum, og komst það í samt lag.
Skömmu síðar var komið með lík hreppakerlingar nokkurar að Felli, og var það borið í kirkju; það var seint á degi. Í sama mund komu gestir til prests, og beiddi hann þá Björn að sækja handa þeim sængurföt út á kirkjuloft. Hann gerði það. En þegar hann kom niður stigann með fötin í fanginu, reis lík kerlingar á fætur á bak við hann, hljóp upp á axlirnar á honum, krækti löppunum í síðurnar, en krumlunum um hálsinn á honum og ætlaði rétt að kyrkja hann. Þá varð Birni að orði: "Skyld 'enni vera alvara?" gekk að dyrastafnum og lamdi henni við; en það tjáði ekkert, hún sat því fastar. Komst hann nauðulega með byrði þessa á bakinu út um kirkjudyrnar og heim til bæjar; þar tók prestur á móti honum og spurði, hvernig honum líkaði nú. "O, vel, mér veitir aðeins lítið eitt örðugra að komast út og inn um dyr," sagði hann. Prestur hélt það satt vera og losaði hann við líkið, en alltrauðlega ætlaði það að ganga, svo prestur hét því að leika ekki slíkt við hann framar. Var Björn eftir þetta í miklu eftirlæti hjá móðurbróður sínum.
Netútgáfan - janúar 1997