EYJÓLFUR  PRESTUR  OG  ÁLFKONAN



Í tíð Páls Vídalíns var prestur á Völlum í Svarfaðardal sem ef til vill hefur heitið Eyjólfur. Það þókti undarlegt að hann hvarf smám saman burt af bænum og var þó sjaldan lengur burt en eina nótt, en enginn vissi hvar hann dvaldi.

Hjá presti þessum var vinnumaður eða smalamaður sem hét Eyjólfur sem sífelldlega var að spyrja prest hvert hann færi þegar hann hyrfi og biðja hann að lofa sér með hönum, en prestur vildi ekki láta það eftir honum.

Þó um síðir fyrir hans þráu bænir lét prestur að beiðni hans um síðir og lofaði honum með sér, en lagði ríkt á við hann að breyta eins og hann sæi sig gjöra, "en þó er ég hræddur," sagði hann, "að þér verði þetta til ógæfu."

Síðan ganga þeir leið sína til þess þeir komu að stórum steini og prestur klappar á steininn og bráðum laukst hann upp, og kom út kona og heilsar presti mikið vingjarnlega og leiðir hann inn og báða þá. Ekki er getið um fleiri en tvær konur, eldri önnur, hin yngri. Síðan settu þær fram borð og veittu gestum sínum hið besta bæði vín og vistir og var hin snotrasta umgengni og tilhögun á öllu þar innanhúss.

En er þeir höfðu etið og drukkið sem þá lysti bjuggu konurnar upp hvílur sínar sem ekki vóru þar utan tvær, og vísuðu presti að hátta í annari og eldri konan fór upp fyrir hann í rekkjuna. En sú yngri vísaði Eyjólfi til hinnar hvílunnar og fór svo upp til hans, en um leið og hún fór upp fyrir hann virtist honum bregða fyrir einhver ónotalykt af henni svo hann fussaði við, en hún stökk strax ofan úr rekkjunni fokreið og lagði það á hann að hann skyldi aldrei verða óstelandi meðan hann lifði.

En er prestur heyrði þetta bað hann hina eldri konuna að bæta nú eitthvað úr, en hún kvað það ekki létt vera, sagði samt að þó hann yrði tekinn og ætti að hengjast skyldi engin snara halda honum og kæmist hann í útlönd skyldi hann lánsmaður verða.

Nú þegar þeir komu heim aftur tók Eyvi til iðjunnar og stal öllu því hönd á festi. Svo flæktist hann burt frá Völlum og fór nú stelandi og strjúkandi sveit úr sveit og þó hann yrði tekinn og hengdur þá hélt honum engin snara svo Eyjólfur slapp jafnan.

En á sumri einu snemma var hann tekinn í Húnavatnssýslu og ráðlagði sýslumaður að koma ás eða færi milli kletta yfir Blöndu og hengja hann þar, og það var gjört. Snaran slitnaði að sönnu, en þá datt hann ofan í ána og þar drukknaði hann.

En um sumarið á alþingi hitti Páll Vídalín sýslumanninn og varð honum þá vísa þessi á munni:

Eyjólf drapstu út í Blöndu
á því sundi miðju,
en skipið lá við Skagaströndu;
skömm var að þinni iðju.

Nl. að honum hefði verið nær að koma honum undan og í skipið svo hann kæmist út.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2000